Ný tilskipun um Gyðinga

1 Sama dag gaf Xerxes konungur Ester drottningu hús Hamans Agagsniðja, hatursmanns Gyðinga. Mordekaí gekk fyrir konung en Ester hafði sagt honum hvers virði hann væri sér. 2 Konungur dró af hendi sér innsiglishringinn, sem hann hafði látið taka af Haman, og fékk Mordekaí hann. Og Ester fékk Mordekaí yfirráð yfir húsi Hamans.
3 Ester talaði enn við konung, féll til fóta honum og grátbændi hann að afstýra þeim fólskuverkum sem Haman Agagsniðji hafði ráðgert að vinna Gyðingum. 4 Konungur rétti þá fram gullsprota sinn á móti Ester en hún stóð upp og gekk fyrir konung 5 og sagði: „Þóknist það konungi og hafi ég fundið náð fyrir augum hans og konungi sé það ekki á móti skapi og hafi hann mætur á mér, þá gefi hann út skriflega tilskipun um að ónýta allar ráðagerðirnar og svo bréf þau er Agagsniðjinn Haman Hamdatason lét rita um að Gyðingum skyldi tortímt í öllum héruðum konungsríkisins. 6 Hvernig gæti ég afborið að horfa upp á ógæfuna sem nú vofir yfir þjóð minni og hvernig fengi ég þolað að sjá ættmennum mínum tortímt?“
7 Xerxes konungur sagði þá við Ester drottningu og Gyðinginn Mordekaí: „Húsið, sem Haman átti, hef ég gefið Ester. Og hann hefur sjálfur verið festur á gálga vegna þess að hann hafði unnið Gyðingum mein. 8 Semjið því tilskipun um Gyðinga í nafni konungs, eftir því sem ykkur þóknast, og staðfestið bréfið með innsiglishring konungs. Bréf, ritað í nafni konungs og innsiglað með innsiglishring hans, verður aldrei afturkallað.“
9 Á tuttugasta og þriðja degi þriðja mánaðar, mánaðarins sívan, voru ritarar konungs kallaðir saman. Rituðu þeir hvað eina, sem Mordekaí mælti fyrir, til Gyðinga, til skattlandsstjóranna, landshöfðingjanna og höfðingja héraðanna hundrað tuttugu og sjö, allt frá Indlandi til Eþíópíu, til hvers héraðs með letri þess héraðs, til hverrar þjóðar á tungu hennar og jafnframt til Gyðinga með þeirra letri og á þeirra tungu. 10 Mordekaí ritaði í nafni Xerxesar konungs og hafði innsiglishring konungs til staðfestingar. Og hraðboðar voru sendir með bréfin á úrvalsgæðingum úr hesthúsum konungs. 11 Í bréfunum veitti konungur Gyðingum í sérhverri borg heimild til að safna liði til sjálfsvarnar, eyða, deyða og tortíma liðsafla hverrar þeirrar þjóðar eða héraðs, sem veittist gegn þeim, jafnvel börnum og konum, og hafa fjármuni þeirra að ránsfeng 12 á tilteknum degi í öllum héruðum ríkis Xerxesar konungs, þrettánda degi tólfta mánaðar, mánaðarins adar.

Gyðingum heimilað að snúast til varnar

13 Eftirrit af bréfinu skyldi gefið út og birt sem lög í hverju héraði svo að öllum þjóðunum yrði þetta ljóst og til þess að Gyðingar gætu haft viðbúnað þennan dag til að koma fram hefndum á óvinum sínum. 14 Hraðboðarnir héldu tafarlaust af stað á konungsgæðingum að boði konungs um leið og lögin voru birt í virkisborginni Súsa.
15 Mordekaí gekk út frá konungi í konunglegum skrúða, fjólubláum og hvítum. Hann bar stóra gullkórónu á höfði og var klæddur möttli úr drifhvítu og purpurarauðu líni. Og fagnaðaróp kváðu við í borginni Súsa. 16 Gyðingar nutu ljóss og gleði, fagnaðar og heiðurs. 17 Í öllum héruðum og öllum borgum, þar sem tilskipun og lög konungs voru birt, glöddust Gyðingar og fögnuðu, héldu veislur og gerðu sér þann dag margt til hátíðabrigða. Og margir íbúar af öðru þjóðerni tóku Gyðingatrú því að ótti við Gyðinga var yfir þá kominn.