1 Hólofernes sagði við Júdít: „Vertu áhyggjulaus, kona, og óhrædd. Ég hef aldrei gert neinum mein sem kosið hefur að þjóna Nebúkadnesari, konungi allrar jarðarinnar. 2 Ég hefði ekki heldur lyft spjóti mínu gegn löndum þínum, sem búa í fjalllendinu, ef þeir hefðu ekki móðgað mig. Þeir geta sjálfum sér um kennt. 3 En segðu mér nú hvers vegna þú flýðir frá þeim og ert komin til okkar. Það að þú komst skal verða þér til heilla. Vertu hughraust. Þú munt lifa bæði í nótt og framvegis. 4 Enginn mun vinna þér mein. Það mun verða gert eins vel til þín og þjóna Nebúkadnesars konungs, herra míns.“
5 Júdít svaraði honum: „Hlýð á orð ambáttar þinnar og leyf þernu þinni að flytja þér mál sitt. Ekki mun ég segja húsbónda mínum ósatt í nótt. 6 Farir þú að ráðum þernu þinnar mun Guð láta mikið verða fyrir þitt tilstilli og það sem herra minn hefur í ráði mun ekki bregðast. 7 Því að svo sannarlega sem Nebúkadnesar, konungur allrar jarðar, lifir og veldi hans stendur, sem sendi þig til að stjórna öllu sem lifir, þá munu fyrir þitt tilstilli ekki aðeins menn þjóna Nebúkadnesari heldur mun máttur þinn einnig valda því að dýr merkurinnar, búsmali og fuglar himinsins munu lifa í þágu hans og ættar hans. 8 Við höfum frétt af visku þinni og ráðsnilli. Það er kunnugt um alla jörðina að enginn í ríkinu sé jafnoki þinn í neinu hvað varðar afburða innsæi og undraverða hæfni í herstjórn. 9 Nú höfum við heyrt það sem Akíor sagði við herráð þitt því að Betúlúumenn létu hann halda lífi. Greindi hann þeim frá öllu sem hann sagði við þig. 10 Því bið ég þig, voldugi herra, að láta orð hans ekki sem vind um eyru þjóta heldur leggja þau þér á hjarta. Það var satt sem hann sagði. Þjóð okkar verður hvorki refsað né heldur verður hún unnin með sverði nema hún syndgi gegn Guði sínum. 11 Og til þess að herra mínum verði ekki hrundið og hann fari ekki erindisleysu skal ég segja honum að þjóðin er dauða merkt. Því að hún hefur látið hremmast af synd sem mun vekja reiði Guðs hennar óðar en hún breytir ranglega. 12 Þar sem vistir landa minna voru þrotnar og vatnsbirgðir að þrjóta afréðu þeir að fella fénað sinn og leggja sér allt til munns sem Guð hefur bannað þeim að neyta í lögmáli sínu. 13 Þeir hafa einnig ákveðið að neyta frumgróðakornsins og vín- og olíutíundarinnar sem þeir hafa helgað og tekið frá handa prestunum sem þjóna frammi fyrir Guði okkar í Jerúsalem. Þetta leyfist leikmanni ekki einu sinni að snerta með höndunum.
14 Þar sem jafnvel Jerúsalembúar hafa gripið til slíks sendu Betúlúubúar menn til Jerúsalem til að fá heimild öldungaráðsins til þessa. 15 En sama dag og þeir fá leyfið og taka að framkvæma áform sín munu þeir ofurseldir þér til tortímingar.
16 Þetta er ástæðan fyrir því að ég, ambátt þín, flýði frá þeim þegar mér varð kunnugt um allt þetta. Guð hefur sent mig til að vinna með þér þau stórvirki sem skelfa munu alla jörðina þegar af þeim fréttist. 17 Ambátt þín er guðhrædd og þjónar Guði himinsins nótt sem dag. Nú mun ég halda kyrru fyrir hjá þér, herra minn. En á næturnar mun ambátt þín ganga út í dalinn til að biðja til Guðs. Hann mun segja mér þegar landar mínir hafa drýgt syndir sínar. 18 Þá kem ég og læt þig vita. Þá getur þú haldið af stað með allan her þinn og mun enginn af löndum mínum geta veitt þér viðnám. 19 Ég skal leiða þig um Júdeu þvera allt þar til þú ert kominn gegnt Jerúsalem. Þar mun ég reisa þér hásæti í miðri borginni. Þú munt reka Ísraelsmenn sem sauði sem engan hirði hafa og ekki einu sinni hundur mun svo mikið sem urra að þér. Þetta hefur mér verið opinberað og kunngjört og er ég send til að láta þig vita þetta.“
20 Hólofernesi og öllum þjónum hans gast vel að orðum Júdítar. Undruðust þeir visku hennar og sögðu: 21 „Ekki verður fundin nein kona frá einu skauti jarðar til annars jafnfögur ásýndum og skynsöm í tali.“ 22 Og Hólofernes sagði við hana: „Guð gerði vel að senda þig til að fara fyrir hernum til að tryggja okkur sigur og eyða þeim sem vanvirtu konung minn. 23 Víst ert þú fögur ásýndum og vel máli farin. Ef þú gerir eins og þú hefur sagt þá skal Guð þinn verða minn Guð. Þú skalt búa í höll Nebúkadnesars og munt verða nafnfræg um allan heiminn.“