Davíð stofnar útlagasveit

1 Því næst hélt Davíð þaðan og komst heill á húfi í hellinn við Adúllam. Þegar bræður hans og fjölskylda fréttu það komu þau þangað til hans. 2 Þar safnaðist að honum alls konar fólk sem hafði verið beitt órétti, var skuldugt eða óánægt. Gerðist hann foringi þess. Voru nú með honum um fjögur hundruð manns.
3 Davíð fór þaðan til Mispe í Móab og sagði við konunginn í Móab: „Leyfðu föður mínum og móður að koma og dveljast hjá ykkur þangað til ég veit hvað Guð hyggst fyrir með mig.“ 4 Síðan fylgdi hann þeim til Móabskonungs og bjuggu þau hjá honum á meðan Davíð var í fjallavirkinu.
5 Gat spámaður sagði við Davíð: „Þú skalt ekki vera um kyrrt í fjallavirkinu. Farðu þaðan og haltu heim til Júda.“ Davíð fór og hélt til Heretskógar.

Sál hefnir sín á prestunum í Nób

6 Sál frétti að Davíð og menn hans væru fundnir. Einhverju sinni sat Sál undir eikinni á hæðinni með spjót sitt í hendi og stóðu allir hirðmenn hans umhverfis hann. 7 Sál sagði þá við hirðmennina sem voru hjá honum: „Hlustið nú á mig, niðjar Benjamíns. Nú ætlar sonur Ísaí sjálfsagt að gefa ykkur öllum beitilönd og víngarða og gera ykkur alla að foringjum yfir þúsund eða hundrað manna liði 8 af því að þið hafið allir gert samsæri gegn mér. Enginn sagði mér að sonur minn hefði gert sáttmála við son Ísaí. Enginn ykkar fann til með mér og enginn trúði mér fyrir því að sonur minn hefði fengið þjón minn til að sitja fyrir mér eins og nú er orðið.“
9 Dóeg frá Edóm, sem var á meðal hirðmanna Sáls, svaraði: „Ég sá þegar sonur Ísaí kom til Ahímeleks Ahítúbssonar í Nób. 10 Ahímelek leitaði svara hjá Drottni fyrir hann og fékk honum bæði vistir og sverð Filisteans Golíats.“
11 Konungur sendi þá eftir Ahímelek Ahítúbssyni presti og öllum ættmennum hans sem voru prestar í Nób. Þegar þeir voru allir komnir til konungs 12 sagði Sál: „Hlustaðu nú, sonur Ahítúbs.“ Hann svaraði: „Já, herra.“ 13 Þá sagði Sál við hann: „Hvers vegna hafið þið sonur Ísaí gert samsæri gegn mér? Þú gafst honum brauð og sverð og leitaðir fyrir hann svara hjá Guði svo að hann gæti risið gegn mér og sest um mig eins og komið er á daginn.“
14 Ahímelek svaraði konungi og sagði: „Hver hirðmanna þinna hefur reynst jafntraustur og Davíð? Hann er tengdasonur konungs, foringi lífvarðar þíns og í miklum metum í fjölskyldu þinni. 15 Var það fyrst nú í dag að ég leitaði svara hjá Guði fyrir hann? Því fer víðs fjarri. Konungur ætti ekki að ákæra mig, þjón sinn, og alla ætt mína því að ég, þjónn þinn, hafði alls enga hugmynd um þetta mál.“
16 Þá sagði konungur: „Þú skalt láta lífið, Ahímelek, þú og öll þín ætt.“ 17 Því næst sagði konungurinn við lífverðina sem stóðu umhverfis hann: „Umkringið presta Drottins og drepið þá því að þeir hafa hjálpað Davíð. Þeir vissu að hann var á flótta en sögðu ekki til hans.“ En menn konungs vildu ekki lyfta hendi til að höggva presta Drottins. 18 Þá sagði konungurinn Dóeg að fara og höggva prestana. Þá gekk Dóeg frá Edóm fram og hjó prestana. Þennan dag felldi hann áttatíu og fimm menn sem báru línhökla. 19 Hann eyddi einnig prestaborgina Nób og lét höggva niður með sverðum bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut, asna og sauðfé.
20 Einn af sonum Ahímeleks Ahítúbssonar komst undan. Hann hét Abjatar og honum tókst að flýja til Davíðs. 21 Þegar Abjatar sagði Davíð að Sál hefði drepið presta Drottins 22 sagði Davíð við hann: „Ég vissi það þá þegar, úr því að Dóeg frá Edóm var þar, að hann mundi segja Sál frá því. Það er mín sök að öll ætt föður þíns er dáin. 23 Vertu kyrr hjá mér. Vertu óhræddur. Sá sem sækist eftir mínu lífi sækist einnig eftir þínu. Þess vegna ertu öruggur hjá mér.“