1 Drottinn talaði til Móse og sagði:
2 „Gefðu Ísraelsmönnum fyrirmæli og segðu við þá: Þegar þið komið inn í landið er það landið sem verður erfðaland ykkar, Kanaansland, þetta eru mörk þess:
3 Suðurmörk ykkar skulu liggja frá Síneyðimörk með fram Edóm. Það verða suðurlandamæri ykkar frá enda salta hafsins [ að austan. 4 Þá skulu landamæri ykkar liggja í boga sunnan við Sporðdrekastíg, liggja síðan áfram til Sín og stefna sunnan við Kades Barnea til Hasar Addar og þaðan til Asmón. 5 Síðan skulu landamærin liggja í boga frá Asmón í átt til Egyptalandsár og alla leið til sjávar.
6 Vesturlandamæri ykkar skulu vera hafið mikla. [ Það skulu vera vesturlandamæri ykkar.
7 Norðurlandamæri ykkar skulu vera: Frá hafinu mikla skuluð þið draga línu til fjallsins Hór 8 og frá fjallinu Hór til Lebó Hamat. Landamærin skulu liggja til Sedad, 9 síðan skulu þau liggja til Sífrón og þaðan til Hasar Enan. 10 Þið skuluð merkja austurlandamæri ykkar með línu frá Hasar Enan til Sefam, 11 síðan skulu landamærin liggja niður frá Sefam til Ribla austan við Aín. Landamærin skulu því næst liggja niður eftir og nema við fjallsöxlina við Kinneretvatn [ austanvert. 12 Loks skulu landamærin liggja niður að Jórdan og þaðan í stefnu að salta hafinu.
Þannig skal landið, sem þið fáið, vera afmarkað af landamærum sínum á alla vegu.“
13 Móse gaf Ísraelsmönnum fyrirmæli og sagði:
„Þetta er landið sem þið eigið að skipta á milli ykkar í erfðalönd með hlutkesti og Drottinn hefur boðið að verði fengið þessum níu ættbálkum og hálfum ættbálki að auki. 14 Því að ættbálkur sona Rúbens, hver ætt fyrir sig, og ættbálkur sona Gaðs, hver ætt fyrir sig, ásamt hálfum ættbálki niðja Manasse, hafa þegar tekið við erfðalöndum sínum. 15 Þessir tveir og hálfur ættbálkur hafa tekið við erfðalandi sínu hinum megin við Jórdan, austan við Jeríkó.“
16 Drottinn sagði við Móse:
17 „Þetta eru nöfn þeirra manna sem eiga að skipta landinu í erfðalönd á milli ykkar: Eleasar prestur og Jósúa Núnsson 18 og að auki skuluð þið velja einn höfðingja frá hverjum ættbálki til þess að skipta landinu í erfðalönd. 19 Þetta eru nöfn þessara manna: Kaleb Jefúnneson frá ættbálki Júda, 20 Samúel Ammíhúdsson frá ættbálki Símeonssona, 21 Elídad Kíslonsson frá ættbálki Benjamíns, 22 höfðinginn Búkkí Joglíson frá ættbálki Dansniðja. 23 Frá niðjum Jósefs: höfðinginn Kamúel Efóðsson frá ættbálki Manasseniðja 24 og höfðinginn Kemúel Siftansson frá ættbálki Efraímsniðja, 25 höfðinginn Elísafan Parnaksson frá ættbálki Sebúlonssona, 26 höfðinginn Paltíel Asansson frá ættbálki Íssakarssona, 27 höfðinginn Akíhúð Selomíson frá ættbálki Asserssona, 28 höfðinginn Pedahel Ammíhúdsson frá ættbálki Naftalísona. 29 Það voru þessir menn sem Drottinn bauð að skipta landinu í erfðalönd á milli Ísraelsmanna í Kanaanslandi.