Tillit til óstyrkra

1 Þá er að minnast á kjötið[ sem fórnað hefur verið skurðgoðum. Við vitum að öll höfum við þekkingu. Þekkingin blæs menn upp en kærleikurinn byggir upp. 2 Ef einhver þykist þekkja eitthvað þá þekkir hann enn ekki svo sem þekkja ber. 3 En sá sem elskar Guð er þekktur af honum.
4 En hvað varðar neyslu kjöts, sem fórnað hefur verið skurðgoðum, þá vitum við að skurðgoð er ekkert í heiminum og að enginn er Guð nema einn. 5 Því að enda þótt til séu svonefndir guðir, hvort heldur er á himni eða á jörðu – enda eru margir guðir og margir drottnar – 6 þá höfum við ekki nema einn Guð, föðurinn, sem skapað hefur alla hluti og líf okkar stefnir til, og einn Drottin, Jesú Krist, sem allt varð til fyrir og við fyrir hann.
7 Ekki hafa allir þessa þekkingu. Vegna vanans við skurðgoðadýrkun eta sumir kjötið enn sem fórnarkjöt og finnst þeir þá saurga sig því að samviska þeirra er veik fyrir. 8 En matur færir okkur ekki nær Guði. Hvorki missum við neins þótt við etum það ekki né ávinnum við neitt þótt við etum.
9 En gætið þess að þetta frelsi ykkar verði ekki hinum óstyrku að falli. 10 Því sjái einhver þig, sem hefur þekkinguna, sitja til borðs í goðahofi, mundi það ekki hvetja þann sem óstyrkur er til að neyta fórnarkjöts? 11 Hinn óstyrki glatast þá vegna þekkingar þinnar, bróðirinn sem Kristur dó fyrir. 12 Þegar þið þannig syndgið gegn systkinunum[ og særið óstyrka samvisku þeirra, þá syndgið þið á móti Kristi. 13 Þess vegna mun ég, ef matur verður einhverju trúsystkina minna[ til falls, ekki neyta kjöts um aldur og ævi til þess að ég verði þeim[ ekki til falls.