Undirbúningur páskahátíðar

1 Hiskía sendi nú boðbera til allra Ísraels- og Júdamanna. Hann skrifaði einnig bréf til ættbálka Efraíms og Manasse og hvatti þá til að koma til húss Drottins í Jerúsalem til þess að halda Drottni, Guði Ísraels, páskahátíð.
2 En konungurinn hafði ráðgast við hirðmenn sína og allan söfnuðinn í Jerúsalem um það hvort halda skyldi páskahátíðina í öðrum mánuðinum 3 því að ekki var unnt að halda hana strax þar sem ekki höfðu nægilega margir prestar helgað sig og fólkið hafði ekki safnast saman í Jerúsalem. 4 Konungurinn og allur söfnuðurinn töldu þetta vel til fallið. 5 Þeir ákváðu því að senda boðbera um allan Ísrael frá Beerseba til Dan og tilkynna að menn skyldu koma og halda Drottni, Guði Ísraels, páskahátíð í Jerúsalem. En hátíðin hafði ekki verið haldin áður af þeim fjölda sem tilskilinn var.
6 Nú fóru hraðboðar með bréf frá konungi og hirðmönnum hans um allan Ísrael og Júda og tilkynntu að boði konungs: „Ísraelsmenn, snúið ykkur til Drottins, Guðs Abrahams, Ísaks og Ísraels, svo að hann snúi sér að þeim ykkar sem sluppu úr höndum Assýríukonunga. 7 Verið ekki eins og feður ykkar og ættbræður sem sviku Drottin, Guð feðra sinna, svo að hann olli því að menn hryllti við þeim eins og þið getið sjálfir séð. 8 Verið ekki þrjóskir eins og feður ykkar. Réttið Drottni höndina og komið í helgidóm hans sem hann hefur helgað ævinlega. Þjónið Drottni, Guði ykkar, svo að brennandi heift hans snúi frá ykkur. 9 Ef þið snúið ykkur til Drottins, Guðs ykkar, verður bræðrum ykkar og sonum sýnd miskunn af þeim sem herleiddu þá. Þeim verður jafnvel leyft að snúa aftur heim til þessa lands því að Drottinn, Guð ykkar, er náðugur og miskunnsamur. Hann mun ekki snúa augliti sínu frá ykkur ef þið snúið til hans.“
10 Hraðboðarnir fóru frá einni borg til annarrar í landi Efraíms og Manasse, allt til Sebúlonslands, en þeir voru aðeins hafðir að háði og spotti. 11 Það voru aðeins nokkrir menn úr ættbálkum Assers, Manasse og Sebúlons sem auðmýktu sig og komu til Jerúsalem. 12 Í Júda var hönd Guðs einnig að verki svo að hann gerði þá einhuga um að fylgja skipun konungs og hirðmannanna sem var byggð á fyrirmælum Drottins.

Páskahátíðin

13 Fjöldi fólks safnaðist nú saman í Jerúsalem til þess að halda hátíð hinna ósýrðu brauða í öðrum mánuðinum. Var það mikill söfnuður. 14 Fólkið hófst handa og fjarlægði ölturun sem voru í Jerúsalem, einnig öll reykelsisölturun og kastaði þeim í Kedrondalinn.
15 Á fjórtánda degi annars mánaðarins var páskalambinu slátrað. En prestarnir og Levítarnir blygðuðust sín. Þeir helguðu sig og fóru með brennifórnir til húss Drottins. 16 Þar tóku þeir sér stöðu á sínum hefðbundna stað samkvæmt lögmáli guðsmannsins Móse. Prestarnir dreyptu blóðinu sem þeir tóku við úr höndum Levítanna.
17 Þar sem margir voru í söfnuðinum, sem ekki höfðu helgað sig, slátruðu Levítarnir páskalömbunum fyrir alla, sem ekki voru hreinir, svo að þeir gætu helgað þau Drottni.
18 Fjöldi manns, einkum frá Efraím, Manasse, Íssakar og Sebúlon, hafði ekki hreinsað sig, af því að þeir neyta páskalambsins ekki samkvæmt því sem skrifað er. Þess vegna bað Hiskía fyrir þeim og sagði: „Drottinn, þú sem ert góður. Fyrirgefðu 19 sérhverjum sem heils hugar leitar Guðs Drottins, Guðs feðra sinna, jafnvel þótt hann sé ekki hreinsaður í samræmi við reglur helgidómsins.“
20 Drottinn bænheyrði Hiskía og hegndi fólkinu ekki.
21 Þeir Ísraelsmenn, sem voru staddir í Jerúsalem, héldu hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með mikilli gleði. Levítarnir og prestarnir lofuðu Drottin dag eftir dag með hljómmiklum hljóðfærum. 22 Hiskía þakkaði Levítunum en þeir höfðu sinnt þjónustunni við Drottin af kunnáttu og þekkingu.
Þegar þeir höfðu haldið hátíðina í sjö daga og fært heillafórnir og lofað Drottin, Guð feðra sinna, 23 ákvað allur söfnuðurinn að halda hátíðina enn í sjö daga. Var haldin gleðihátíð þessa sjö daga 24 því að Hiskía, konungur Júda, hafði gefið söfnuðinum þúsund naut og sjö þúsund sauði og höfðingjarnir höfðu gefið söfnuðinum þúsund naut og tíu þúsund sauði. Fjöldi presta hafði helgað sig. 25 Allur söfnuður Júda fagnaði ásamt prestunum og Levítunum og öllum söfnuði þeirra sem höfðu komið frá Ísrael ásamt aðkomumönnum og þeim sem bjuggu í Júda. 26 Í Jerúsalem var mikil gleði því að ekkert þessu líkt hafði gerst síðan á dögum Salómons, sonar Davíðs, Ísraelskonungs.
27 Að lokum risu Levítaprestarnir á fætur og blessuðu fólkið. Guð heyrði hróp þeirra og bæn þeirra komst til hans heilaga bústaðar, allt til himins.