Helgigjafir

1 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 „Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu þeim að meðhöndla með lotningu helgigjafir Ísraelsmanna, sem þeir helga mér, svo að þeir vanhelgi ekki mitt heilaga nafn. Ég er Drottinn.
3 Segðu við þá: Sérhver niðja ykkar, kynslóð eftir kynslóð, sem óhreinn nálgast gjafirnar sem Ísraelsmenn helga Drottni, skal upprættur og rekinn frá augliti mínu. Ég er Drottinn.
4 Enginn niðja Arons, sem hefur holdsveiki eða útferð, má neyta af helgigjöfunum, sem Ísraelsmenn helga Drottni, fyrr en hann er orðinn hreinn. Hver sem snertir eitthvað, sem hefur saurgast af líki, eða snertir einhvern mann, sem hefur haft sáðlát, 5 og hver sá sem snertir skriðdýr og saurgast af því eða maður, sem snertir mann og saurgast af óhreinleika hans, hver svo sem hann er, 6 hver, sem snertir eitthvað af þessu, er óhreinn til kvölds. Hann skal ekki neyta neins af helgigjöfunum fyrr en hann hefur þvegið líkama sinn í vatni. 7 Hann verður þá fyrst hreinn þegar sól er sest. Þá má hann neyta af helgigjöfunum því að þær eru fæða hans. 8 Hann skal ekki leggja sér til munns sjálfdauðar skepnur eða dýrrifnar. Það saurgar hann. Ég er Drottinn.
9 Þeir skulu halda fyrirmæli mín svo að þeir beri ekki sekt af þeim sökum. Þeir munu deyja ef þeir vanhelga hið heilaga. Ég er Drottinn sem helgar þá.
10 Enginn, sem ekki er í prestsfjölskyldu, má neyta helgigjafar. Hvorki aðfluttur maður, sem býr hjá presti, né daglaunamaður má eta neitt af helgigjöfum. 11 Þegar prestur kaupir einhvern fyrir eigið fé má sá neyta af helgigjöfum hans eins og sá sem fæddur er í fjölskyldu hans. 12 En dóttir prests, sem hefur verið gift manni utan fjölskyldunnar, má ekki eta neitt af þeim helgigjöfum sem hafa verið greiddar í afgjöld. 13 Sé dóttir prests ekkja eða skilin frá manni sínum og hefur ekki orðið barna auðið og kemur því aftur í hús föður síns, má hún neyta matar föður síns eins og í æsku. En enginn utan fjölskyldunnar má eta af honum.
14 Þegar einhver maður etur af helgigjöf af vangá skal hann greiða prestinum helgigjöfina að fullu og fimmtung að auki.
15 Prestarnir mega ekki vanhelga helgigjafir Ísraelsmanna sem þeir færa Drottni í afgjöld. 16 Með því mundu þeir baka þeim sekt sem krefst sektarfórnar ef þeir eta helgigjafir þeirra.
Því að ég er Drottinn sem helgar þessar gjafir.“

Fórnir

17 Drottinn talaði við Móse og sagði:
18 „Ávarpaðu Aron og syni hans og alla Ísraelsmenn og segðu við þá:
Sérhver maður af ætt Ísraels eða aðkomumaður á meðal þeirra, sem ætlar að færa fórnargjöf vegna heits eða af frjálsum vilja og ætlar að færa hana Drottni í brennifórn, 19 skal færa fram lýtalaust karldýr af nautum, sauðfé eða geitum til þess að hann hljóti velþóknun. 20 Þið skuluð ekki færa fram neitt dýr sem hefur á sér lýti því að þá hljótið þið ekki velþóknun. 21 Þegar einhver ætlar að færa Drottni lokasláturfórn til að halda heit eða af frjálsum vilja skal hann færa fram naut, sauðkind eða geit. Dýrið skal vera lýtalaust til þess að hann hljóti velþóknun. Á því skal ekkert lýti vera.
22 Þið skuluð ekki færa Drottni neitt blint eða beinbrotið dýr eða sært eða dýr með kláða eða útbrotum. Þið megið ekki leggja neitt af slíkum dýrum á altarið sem eldfórn handa Drottni.
23 Þú skalt ekki færa í fórnargjöf af frjálsum vilja naut eða sauðkind með ofvaxinn eða vanskapaðan útlim. Sé slíkt dýr fært í heitfórn veitir hún ekki velþóknun.
24 Þið skuluð ekki færa Drottni neitt dýr sem vanað hefur verið með því að kremja það, merja, slíta eða skera. Þið skuluð hvorki gera það í landi ykkar 25 né taka við slíkum dýrum úr hendi útlendings og færa þau fram sem fæðu handa Guði ykkar. Þessi dýr eru sködduð, lýti er á þeim. Þau veita ekki velþóknun.“
26 Drottinn talaði við Móse og sagði:
27 „Þegar nautkálfur, lamb eða kiðlingur fæðist skal það ganga undir móðurinni í sjö daga. Frá og með áttunda degi verður tekið við því með velþóknun sem eldfórn handa Drottni.
28 Þið skuluð hvorki slátra kú né á sama daginn og afkvæmi hennar.
29 Þegar þið færið Drottni sláturfórn sem þakkarfórn skuluð þið bera hana þannig fram að hún afli ykkur velþóknunar. 30 Hennar skal neytt sama dag og hún er færð. Þið skuluð ekki leifa neinu af henni til morguns. Ég er Drottinn. 31 Haldið boð mín og farið eftir þeim. Ég er Drottinn.
32 Þið skuluð ekki vanhelga mitt heilaga nafn því að ég vil vera helgaður á meðal Ísraelsmanna. Ég er Drottinn og helga ykkur, 33 sá sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi til þess að vera Guð ykkar. Ég er Drottinn.“