Guð ákærir

1Heyrið það sem Drottinn segir:
Flyt fjöllunum mál þitt,
lát hæðirnar heyra raust þína.
2Fjöll, hlýðið á kæru Drottins,
leggið við hlustir, undirstöður jarðarinnar,
því að Drottinn flytur mál gegn þjóð sinni,
lætur Ísrael svara til saka:
3Þjóð mín,
hvaða rangindum hef ég beitt þig?
Og hvaða harðneskju hef ég sýnt?
Svara mér því.
4Ég leiddi þig út úr Egyptalandi,
leysti þig úr þrælahúsinu.
Ég sendi Móse, Aron og Mirjam
til að fara fyrir þér.
5Minnstu þess, þjóð mín,
sem Balak Móabskonungur vélaði gegn þér
og svaranna sem Bíleam Beórsson veitti honum.
Minnstu fararinnar frá Sittím til Gilgal.
Þá skilurðu réttlætisverk Drottins.
6Hvað á ég að koma með fram fyrir Drottin,
fram fyrir Guð á hæðum?
Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir,
með veturgamla kálfa?
7Hefur Drottinn þóknun á þúsundum hrúta
og tugþúsundum lækja af ólífuolíu?
Á ég að fórna frumburði mínum fyrir synd mína,
ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar?
8Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er
og hvers Drottinn væntir af þér:
þess eins að þú gerir rétt,
ástundir kærleika
og þjónir Guði í hógværð.

Refsað fyrir svik og ofríki

9Drottinn hrópar til borgarinnar
og vitur er sá sem óttast nafn hans:
Heyrið þetta, kynstofn og borgarsamkunda.
10Get ég látið bat-mæli hins guðlausa óátalinn
eða hinn nauma efu-mæli sem ég hef fordæmt?
11Á ég að láta honum órefsað þrátt fyrir ranga vog
og sekk með sviknum vogarsteinum?
12Auðkýfingar borgarinnar beita ofbeldi,
íbúar hennar ljúga
og svikul er tungan í munni þeirra.
13Og nú tek ég að refsa þér
og eyða þér vegna misgjörða þinna.
14Þú munt eta en þó ekki seðjast
og sulturinn mun sverfa að þér.
Því sem þú hyggst forða undan
færðu ekki bjargað,
og það sem þú bjargar ofursel ég sverði.
15Þú munt sá en ekki uppskera,
troða ólífur en ekki smyrja þig olíu,
troða vínþróna en ekki drekka vínið.
16Þú hefur farið að lögum Omrís
og háttum Akabs ættar,
líferni þeirra hafið þér tamið yður.
Því legg ég borgina í auðn
og geri íbúa hennar að athlægi.
Þér munuð baka yður fyrirlitningu þjóðar minnar.