Jóhannes Símonarson sigrar Kendebeus

1 Jóhannes hélt upp frá Geser til Símonar föður síns til að segja honum frá aðgerðum Kendebeusar. 2 Símon kallaði þá til sín elstu syni sína tvo, þá Júdas og Jóhannes, og sagði við þá:
„Við bræður mínir og fjölskylda föður míns höfum háð styrjaldir við óvini Ísraels frá æsku og allt til þessa dags. Við bárum tíðum gæfu til að bjarga Ísrael. 3 Nú er ég hniginn að aldri en þið orðnir fulltíða fyrir Guðs náð. Komið nú í minn stað og bróður míns, farið og berjist fyrir þjóð okkar og megi hjálpin af himni vera með ykkur.“
4 Síðan valdi hann tuttugu þúsund hermenn meðal landa sinna og auk þess riddara. Þeir héldu gegn Kendebeusi og höfðu náttstað í Módein. 5 Árla morguns tóku þeir sig upp og héldu út á sléttuna. Þar kom í móti þeim mikill her fótgönguliða og riddara en árfarvegur skildi herina að. 6 Jóhannes og lið hans komu sér fyrir gegnt óvinunum. Þegar hann sá lið sitt hika við að halda yfir ána fór hann fyrstur og er menn hans sáu það fylgdu þeir fordæmi hans. 7 Jóhannes skipti liði sínu í sveitir og kom riddurum fyrir meðal fótgönguliðanna. Riddaralið andstæðinganna var afar mikið. 8 Þegar þeir þeyttu herlúðrana hrökklaðist Kendebeus og her hans á flótta og féllu margir manna hans helsárir. Þeir sem af komust flýðu í virkið. 9 Júdas, bróðir Jóhannesar, hlaut sár en Jóhannes rak flóttann alla leið til Kedron sem Kendebeus hafði víggirt. 10 Nokkrir flýðu í turnana á Asdódökrum en Jóhannes brenndi borgina. Féllu um tvö þúsund manns af óvinunum en Jóhannes sneri heill á húfi aftur til Júdeu.

Símon myrtur og tveir sona hans

11 Ptólemeus Abúbsson hafði verið settur yfir herinn á völlum Jeríkó. Hann var auðugur mjög að gulli og silfri 12 enda tengdasonur æðsta prestsins. 13 Það steig honum til höfuðs og vildi hann leggja landið undir sig. Bruggaði hann svik við Símon og syni hans og ætlaði að ryðja þeim úr vegi.
14 Símon fór gjarnan um borgir landsins til að gæta að hvers þær þyrftu með. Kom hann ofan til Jeríkó með Mattatíasi og Júdasi sonum sínum árið eitt hundrað sjötíu og sjö[ í ellefta mánuði. Er það mánuðurinn sabbat. 15 Sonur Abúbs tók á móti þeim í litlum kastala sem hann hafði reist og nefndi Dok. Hann hugsaði flátt, sló upp mikilli veislu fyrir gestina en kom mönnum fyrir á laun í húsinu. 16 Þegar Símon og synir hans gerðust ölvaðir fóru Ptólemeus og menn hans út og sóttu vopn sín. Réðust þeir síðan á Símon í veislusalnum, drápu hann, syni hans báða og nokkra þjóna hans. 17 Þannig endurgalt Ptólemeus gott með illu og drýgði hið mesta ódæði.
18 Hann ritaði síðan konungi bréf og greindi honum frá þessu og bað hann að senda sér herlið til hjálpar og afhenda sér landið og borgirnar. 19 Nokkra manna sinna sendi hann til Geser til að ryðja Jóhannesi úr vegi og skrifaði hersveitaforingjum að koma til sín og þiggja silfur, gull og gjafir. 20 Enn aðra sendi hann til að hertaka Jerúsalem og musterisfjallið.
21 En einhver hraðaði sér á undan til Geser til að tilkynna Jóhannesi að faðir hans og bræður væru vegnir og að sendimenn væru á leiðinni til að deyða hann. 22 Þegar Jóhannes heyrði tíðindin komst hann í mikla geðshræringu og er mennirnir komu til að lífláta hann lét hann taka þá og deyða enda vissi hann að þeir sátu um líf hans.
23/24 Það sem ósagt er af Jóhannesi frá því hann varð æðsti prestur á eftir föður sínum, styrjöldum hans og drýgðum hetjudáðum og af múrunum sem hann reisti og öllu öðru sem hann kom í verk má finna skráð í annál æðstaprestdóms hans.