Vígsla prestanna

1 Þannig skaltu fara að þegar þú vígir þá til að þjóna mér sem prestar: Taktu nautkálf og tvo hrúta, alla lýtalausa, 2 ósýrt brauð, ósýrðar olíublandaðar kökur og ósýrðar olíusmurðar flatkökur. Þú skalt gera þetta úr fínu hveitimjöli, 3 setja brauðin í körfu og bera þau fram í körfunni ásamt nautkálfinum og báðum hrútunum. 4 Síðan skaltu láta Aron og syni hans ganga fram að dyrum samfundatjaldsins og þvo þeim úr vatni. 5 Því næst skaltu taka skrúðann og klæða Aron í kyrtilinn og hökulkápuna, hökulinn og brjóstskjöldinn og gyrða hann hökulbeltinu. 6 Síðan skaltu setja dúkinn á höfuð honum og festa hið heilaga höfuðdjásn á höfuðdúkinn. 7 Þá skaltu taka smurningarolíuna og hella henni yfir höfuð hans og smyrja hann.
8 Síðan skaltu láta syni hans ganga fram og klæða þá í kyrtlana, 9 gyrða þá beltum, bæði Aron og syni hans, og binda á þá höfuðdúka. Þannig skulu þeir taka við prestsþjónustu samkvæmt ævarandi ákvæði.
Því næst skaltu fylla hendur Arons og sona hans. 10 Þú skalt færa nautkálfinn að dyrum samfundatjaldsins og Aron og synir hans skulu leggja hendur sínar á höfuð nautkálfsins. 11 Þá skaltu slátra nautinu frammi fyrir augliti Drottins við dyr samfundatjaldsins. 12 Síðan skaltu taka nokkuð af blóði nautsins og rjóða því á altarishornið með fingri þínum. Öllu hinu blóðinu skaltu hella niður við sökkul altarisins. 13 Þá skaltu taka alla netjuna, sem hylur innyflin, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn, og láta það líða upp í reyk af altarinu. 14 En kjötið af nautinu, húð þess og gor skaltu brenna í eldi utan við herbúðirnar. Þetta er syndafórn.
15 Síðan skaltu sækja annan hrútinn. Aron og synir hans skulu leggja hendur sínar á höfuð hrútsins. 16 Þú skalt slátra hrútnum, taka blóð hans og stökkva því allt um kring á altarið. 17 En hrútinn skaltu hluta í sundur, þvo innyfli hans og fætur og leggja ofan á hin stykkin ásamt höfðinu. 18 Síðan skaltu láta allan hrútinn líða upp í reyk af altarinu. Þetta er brennifórn til Drottins, þekkur ilmur, eldfórn Drottni til handa.
19 Því næst skaltu sækja hinn hrútinn. Aron og synir hans skulu leggja hendur sínar á höfuð hrútsins. 20 Þú skalt slátra hrútnum, taka nokkuð af blóði hans og smyrja á hægri eyrnasnepil Arons, hægri eyrnasnepil sona hans, á þumalfingur hægri handar þeirra og á stórutá hægri fótar þeirra og stökkva því sem eftir er af blóðinu allt um kring á altarið. 21 Þá skaltu taka nokkuð af blóðinu, sem er á altarinu, og nokkuð af smurningarolíunni og stökkva á Aron og klæði hans og einnig á syni hans og klæði sona hans ásamt honum. Verður hann þá helgaður og klæði hans og synir hans og klæði sona hans ásamt honum. 22 Síðan skaltu taka mörinn úr hrútnum, dindilinn, netjuna, sem hylur innyflin, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og hægra lærið því að þetta er vígsluhrútur. 23 Þá skaltu taka einn brauðhleif, eina olíuköku og eitt flatbrauð úr körfunni með ósýrðu brauðunum, sem stendur fyrir augliti Drottins, 24 og leggja þetta allt í hendur Aroni og sonum hans. Láttu þá síðan veifa því fram og aftur frammi fyrir augliti Drottins. 25 Því næst skaltu taka það aftur úr höndum þeirra og láta það líða upp í reyk af altarinu með brennifórninni sem þekkan ilm fyrir augliti Drottins. Það er eldfórn Drottni til handa.
26 Síðan skaltu taka bringukollinn af vígsluhrút Arons og veifa honum sem fórn frammi fyrir augliti Drottins. Það skal koma í þinn hlut. 27 Þú skalt helga bringukollinn, sem veifað hefur verið, og lærið, sem veifað hefur verið, og ætlað er í afgjald, stykkin af vígsluhrútnum sem ætluð eru Aroni og sonum hans. 28 Aron og synir hans skulu fá þetta frá Ísraelsmönnum samkvæmt ævarandi lagaákvæði því að það er afgjald og verður afgjald frá Ísraelsmönnum af heillafórnum þeirra, afgjald þeirra til Drottins.
29 Hin helgu klæði Arons skulu synir hans fá eftir hann svo að þeir verði smurðir í þeim og hendur þeirra fylltar í þeim. 30 Sá af sonum hans, sem verður prestur eftir hann, skal skrýðast þeim í sjö daga þegar hann gengur inn í samfundatjaldið til að þjóna í helgidóminum.
31 Þú skalt taka vígsluhrútinn og sjóða kjötið af honum á helgum stað. 32 Aron og synir hans skulu eta kjötið af hrútnum og brauðið í körfunni við dyr samfundatjaldsins. 33 Þeir skulu neyta þess sem friðþægt var með þegar hendur þeirra voru fylltar og þeir vígðir. Enginn óvígður má neyta þess því að það er heilagt. 34 Verði einhverju leift til morguns af kjöti vígslufórnarinnar og brauðinu skaltu brenna leifarnar í eldi. Þess má ekki neyta því að það er heilagt.
35 Þú skalt fara nákvæmlega þannig að við Aron og syni hans eins og ég hef boðið þér. Í sjö daga skaltu fylla hendur þeirra 36 og á hverjum degi skaltu búa syndafórnarnaut til friðþægingar og hreinsa altarið af synd, friðþægja fyrir það og smyrja það til þess að helga það. 37 Í sjö daga skaltu friðþægja fyrir altarið og helga það og altarið verður háheilagt. Hver sem snertir altarið verður heilagur.

Hin daglega brennifórn

38 Þessu skaltu fórna á altarinu: tveimur veturgömlum lömbum, daglega, stöðugt. 39 Öðru lambinu skaltu fórna að morgni en hinu um sólsetur. 40 Með öðru lambinu skaltu hafa tíunda hluta úr efu af fínu mjöli, blönduðu með fjórðungi úr hín af olíu úr steyttum ólífum og fjórðungi úr hín af víni til dreypifórnar. 41 Hinu lambinu skaltu fórna um sólsetur og hafa með því kornfórn og dreypifórn eins og um morguninn. Þetta skal vera eldfórn handa Drottni til þægilegs ilms.
42 Þetta er síendurtekin brennifórn, frá kyni til kyns, við innganginn í samfundatjaldið fyrir augliti Drottins þar sem ég á samfundi við ykkur og þar tala ég við þig. 43 Þar mun ég eiga samfundi við Ísraelsmenn og tjaldið helgast af dýrð minni. 44 Ég mun helga samfundatjaldið og altarið og Aron og syni hans mun ég vígja til að gegna prestsþjónustu fyrir mig. 45 Ég mun búa mitt á meðal Ísraelsmanna, vera þeirra Guð 46 og þeir skulu játa að ég er Drottinn, Guð þeirra, sem leiddi þá út úr Egyptalandi til þess að búa á meðal þeirra. Ég er Drottinn, Guð þeirra.