Jónas fer til Níníve

1 Orð Drottins kom öðru sinni til Jónasar: 2 „Legg þú af stað og far til Níníve, hinnar miklu borgar, og prédikaðu fyrir henni þann boðskap sem ég mun greina þér frá.“ 3 Jónas lagði af stað og fór til Níníve eins og Drottinn hafði boðið.
En Níníve var svo firnastór borg að þrjár dagleiðir voru um hana þvera. 4 Jónas hóf nú göngu sína inn í borgina og er hann var kominn eina dagleið prédikaði hann: „Eftir fjörutíu daga verður Níníve lögð í rúst!“
5 Settu þá Nínívebúar traust sitt á Guð, boðuðu föstu og klæddust hærusekkjum, jafnt háir sem lágir.
6 Þegar fregnin barst konunginum í Níníve stóð hann upp úr hásæti sínu, svipti af sér tignarskrúðanum, huldi sig hærusekk, settist í ösku 7 og sendi kallara með svohljóðandi boð til Nínívebúa:
„Samkvæmt tilskipun konungs og höfðingja hans er svo fyrir mælt: Hvorki menn né skepnur, hvorki naut né sauðir skulu neins neyta og ekki skulu þau á gras ganga eða vatn drekka. 8 Menn og dýr skulu sveipa sig hærusekkjum, hrópa til Guðs af öllum mætti, snúa frá sinni illu breytni og láta af því ofbeldi sem þau hafa framið. 9 Hver veit nema Guði snúist hugur og hann láti af sinni brennandi reiði svo að við förumst ekki.“
10 Guð sá hvað fólkið gerði, að það hafði látið af sinni illu breytni. Þá snerist honum hugur og hann ákvað að valda fólkinu ekki þeirri ógæfu sem hann hafði boðað og refsa því ekki.