1 Þetta eru líka orðskviðir Salómons sem menn Hiskía Júdakonungs söfnuðu:
2Guði er sæmd að dylja mál,
konungum sæmd að útkljá mál.
3Eins og hæð himins og dýpt jarðar,
svo eru konungshjörtun órannsakanleg.
4Sé sorinn tekinn úr silfrinu,
þá fær smiðurinn ker úr því.
5Séu hinir ranglátu teknir burt frá augliti konungsins,
þá verður hásæti hans stöðugt í réttlæti.
6Stærðu þig ekki frammi fyrir konunginum
og ætlaðu þér ekki stað stórmenna
7því að betra er að menn segi við þig:
„Færðu þig hingað upp,“
en að menn niðurlægi þig frammi fyrir tignarmanni.
Hvað sem augu þín kunna að hafa séð,
8vertu þá ekki of hvatur í málavafstur
því að hverjar verða lyktirnar
ef náungi þinn gerir þér minnkun?
9Verðu rétt þinn gegn náunga þínum
en ljóstraðu ekki upp leyndarmálum annars manns
10til þess að sá sem heyrir það átelji þig ekki
og þú fáir á þig varanlegt óorð.
11Gullepli í silfurskálum,
svo eru vel valin orð.
12Eins og gullhringur og skartgripur af skíru gulli,
svo er áminning viturs manns sem hlýtt er á.
13Eins og snjósvali um uppskerutímann,
svo er áreiðanlegur sendiboði þeim sem sendir hann
því að hann hressir sál húsbónda síns.
14Ský og vindur en engin rigning,
svo er sá sem hrósar sér af örlæti en gefur þó ekkert.
15Með þolinmæði má telja höfðingja hughvarf,
mjúk tunga mylur bein.
16Finnir þú hunang fáðu þér nægju þína
svo að þú verðir ekki ofsaddur af því og spýir því upp.
17Stígðu fæti þínum hóflega oft í hús náunga þíns
svo að hann verði ekki leiður á þér og honum í nöp við þig.
18Sleggja, sverð, hvöss ör,
svo er sá sem ber falsvitni gegn náunga sínum.
19Laus tönn og hrasandi fótur,
slíkt er traust á svikara á degi neyðarinnar.
20Að fara úr fötum í kalsaveðri,
að hella ediki í sár, [
eins er að syngja sorgmæddum gleðisöngva.
21Ef óvin þinn hungrar gefðu honum þá að eta
og þyrsti hann gefðu honum þá að drekka
22 því að þú safnar glóðum elds að höfði honum
og Drottinn mun endurgjalda þér það.
23 Norðanvindurinn ber með sér regn
og launskraf reiðileg andlit.
24 Betri er dvöl í horni á húsþaki
en sambúð við þrasgjarna konu.
25 Eins og kalt vatn í skrælnaða kverk,
svo er heillafregn úr fjarlægu landi.
26 Eins og grugguð lind og skemmdur brunnur,
svo er réttlátur maður er lætur undan vondum manni.
27 Of mikið hunangsát er ekki gott,
vertu því spar á hólið.
28 Eins og opin borg án borgarmúra,
svo er sá maður sem ekki hefur stjórn á skapi sínu.