Nýtt manntal

1 Eftir pláguna ávarpaði Drottinn Móse og Eleasar Aronsson prests og sagði: 2 „Takið manntal hjá öllum söfnuði Ísraelsmanna sem eru tuttugu ára og eldri, eftir fjölskyldum þeirra, allra vopnfærra manna í Ísrael.“
3 Móse og Eleasar prestur töldu þá á gresjum Móabs við Jórdan gegnt Jeríkó alla sem voru tuttugu ára og eldri eins og Drottinn bauð Móse.
4 Þeir Ísraelsmenn, sem fóru frá Egyptalandi, voru þessir: 5 Rúben var frumburður Ísraels. Niðjar Rúbens voru Henok, út af honum ætt Henokíta, út af Pallú ætt Pallúíta, 6 út af Hesrón ætt Hesróníta, út af Karmí ætt Karmíta. 7 Þetta voru ættir Rúbeníta. Þeir sem taldir voru af þeim reyndust vera 43.730.
8 Sonur Pallú var Elíab 9 og synir Elíabs voru Nemúel, Datan og Abíram. Þetta voru þeir sömu Datan og Abíram sem voru fulltrúar safnaðarins og réðust ásamt söfnuði Kóra gegn Móse og Aroni þegar söfnuðurinn réðst gegn Drottni. 10 Þá opnaði jörðin gin sitt og gleypti þá ásamt Kóra þar sem söfnuðurinn fórst og eldur gleypti tvö hundruð og fimmtíu menn sem urðu að tákni til viðvörunar. 11 En synir Kóra dóu ekki.
12 Niðjar Símeons voru eftir ættum þeirra: út af Nemúel er ætt Nemúelíta komin, út af Jamín ætt Jamíníta, út af Jakín ætt Jakíníta, 13 út af Sera ætt Seraíta, út af Sál ætt Sálíta. 14 Þetta voru ættir Símeoníta. Þeir voru 22.200.
15 Niðjar Gaðs voru eftir ættum þeirra: út af Sefón er ætt Sefóníta, út af Haggí ætt Haggíta, út af Súní ætt Súníta, 16 út af Osní ætt Osníta, út af Erí ætt Eríta, 17 út af Aród ætt Aródíta, út af Arelí ætt Arelíta. 18 Þetta voru ættir Gaðíta. Þeir sem taldir voru af þeim reyndust 40.500.
19 Niðjar Júda voru: Ger og Ónan en Ger og Ónan dóu í Kanaanslandi. 20 Niðjar Júda voru eftir ættum þeirra: út af Sela kom ætt Selaníta, út af Peres ætt Peresíta, út af Sera ætt Seraíta.
21 Niðjar Peresar voru: út af Hesrón kom ætt Hesróníta, út af Hamúl ætt Hamúlíta. 22 Þetta voru ættir Júda. Þeir sem taldir voru af þeim reyndust 76.500.
23 Niðjar Íssakars voru eftir ættum þeirra: út af Tóla kom ætt Tólaíta, út af Púva ætt Púníta, 24 út af Jasjúb ætt Jasjúbíta, út af Símron ætt Símroníta. 25 Þetta voru ættir Íssakars. Þeir sem taldir voru af þeim reyndust 64.300.
26 Niðjar Sebúlons voru eftir ættum þeirra: út af Sered kom ætt Seredíta, út af Elon ætt Eloníta, út af Jahleel ætt Jahleelíta. 27 Þetta voru ættir Sebúlons. Þeir sem taldir voru af þeim reyndust 60.500.
28 Niðjar Jósefs voru eftir ættum þeirra Manasse og Efraíms. 29 Niðjar Manasse voru eftir ættum þeirra: út af Makír kom ætt Makíríta. Makír átti Gíleað, út af Gíleað kom ætt Gíleaðíta. 30 Þetta eru niðjar Gíleaðs: út af Jeser kom ætt Jesríta, út af Helek ætt Helekíta, 31 út af Asríel ætt Asríelíta, út af Síkem ætt Síkemíta, 32 út af Semída ætt Semídíta, út af Hefer ætt Hefríta. 33 Selofhað, sonur Hefers, átti enga syni, aðeins dætur. Dætur Selofhaðs hétu Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa. 34 Þetta voru ættir Manasse. Þeir sem taldir voru af þeim reyndust 52.700.
35 Þetta voru niðjar Efraíms eftir ættum þeirra: út af Sútela kom ætt Sútelaíta, út af Beker ætt Bekeríta, út af Tahan ætt Tahaníta. 36 Þetta voru niðjar Sútela: út af Eran kom ætt Eraníta. 37 Þetta voru ættir niðja Efraíms. Þeir sem taldir voru af þeim reyndust 32.500. Þetta voru niðjar Jósefs eftir ættum þeirra.
38 Niðjar Benjamíns voru eftir ættum þeirra: út af Bela kom ætt Belaíta, út af Asbel ætt Asbelíta, út af Ahíram ætt Ahíramíta, 39 út af Súfam ætt Súfamíta, út af Húfam ætt Húfamíta. 40 Synir Bela voru Ard og Naaman. Út af Ard kom ætt Ardíta, út af Naaman ætt Naamíta. 41 Þetta voru niðjar Benjamíns eftir ættum þeirra. Þeir sem taldir voru af þeim reyndust 45.600.
42 Niðjar Dans voru eftir ættum þeirra: út af Súham kom ætt Súhamíta. Þetta voru ættir Dans. 43 Allar ættir Súhamíta, þeir sem taldir voru af þeim, reyndust 64.400.
44 Niðjar Assers voru eftir ættum þeirra: út af Jímna kom ætt Jímníta, út af Jísví ætt Jísvíta, út af Bría ætt Brííta. 45 Út af sonum Bría kom ætt Hebríta út af Heber, ætt Malkíelíta út af Malkíel. 46 Dóttir Assers hét Sera. 47 Þetta voru ættir niðja Assers. Þeir sem taldir voru af þeim reyndust 53.400.
48 Niðjar Naftalí voru eftir ættum þeirra: út af Jahseel kom ætt Jahseelíta, út af Gúní ætt Gúníta, 49 út af Jeser ætt Jesríta, út af Sillem ætt Sillemíta. 50 Þetta voru ættir Naftalí. Þeir sem taldir voru af þeim reyndust 45.400.
51 Þetta voru þeir sem taldir voru af Ísraelsmönnum. Þeir reyndust 601.730.
52 Drottinn talaði til Móse og sagði: 53 „Landinu skal skipt í erfðahluti á milli þessara manna eftir tölu nafnanna: 54 Þeim sem eru fjölmennir skal fengið stórt erfðaland en þeim sem eru fámennir lítið. Hverjum skal fengið erfðaland eftir tölu þeirra sem taldir voru. 55 Samt skal landinu skipt með hlutkesti. Þeir skulu taka við erfðalöndum í landinu eftir nöfnum ættbálka feðra þeirra. 56 Landinu skal skipt með hlutkesti á milli fjölmennra ætta og fámennra.“
57 Þetta eru þeir sem taldir voru af Levítum eftir ættum þeirra: út af Gerson kom ætt Gersoníta, út af Kahat ætt Kahatíta, út af Merarí ætt Meraríta. 58 Þetta voru ættir Leví: ætt Libníta, ætt Hebroníta, ætt Mahelíta, ætt Músíta, ætt Kóraíta. En Kahat átti Amram 59 en eiginkona Amrams hét Jókebed Levídóttir. Hún fæddist Leví í Egyptalandi. Hún ól Amram þá Aron og Móse og Mirjam, systur þeirra. 60 En Aroni voru aldir þeir Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar. 61 Nadab og Abíhú dóu þegar þeir færðu óhelgaðan eld fram fyrir auglit Drottins.
62 Þeir sem taldir voru af þeim reyndust 23.000, allt karlar frá eins mánaðar aldri og eldri. Þeir voru ekki taldir með öðrum Ísraelsmönnum.
63 Þetta voru þeir sem voru taldir af Móse og Eleasar presti þegar þeir töldu Ísraelsmenn á gresjum Móabs við Jórdan gegnt Jeríkó. 64 Enginn þeirra var á manntalinu sem Móse og Aron prestur tóku meðal Ísraelsmanna í Sínaíeyðimörk 65 því að Drottinn hafði sagt við þá að þeir yrðu að deyja í eyðimörkinni enda var enginn orðinn eftir af þeim nema Kaleb Jefúnneson og Jósúa Núnsson.