Skelfist ekki

1 Þegar Jesús gekk út úr helgidóminum segir einn lærisveina hans við hann: „Meistari, sjáðu, hvílíkir steinar, hvílíkar byggingar!“
2 Jesús svaraði honum: „Sérðu þessar miklu byggingar? Hér verður ekki steinn yfir steini, allt lagt í rúst.“
3 Þá er Jesús sat á Olíufjallinu gegnt helgidóminum spurðu hann einslega þeir Pétur, Jakob, Jóhannes og Andrés: 4 „Seg þú okkur, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess að allt þetta sé að koma fram?“
5 En Jesús tók að segja þeim: „Varist að láta nokkurn leiða yður í villu. 6 Margir munu koma í mínu nafni og segja: Það er ég! og marga munu þeir leiða í villu. 7 En þegar þér spyrjið hernað og ófriðartíðindi þá skelfist ekki. Þetta á að verða en endirinn er ekki þar með kominn. 8 Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verða landskjálftar á ýmsum stöðum og hungur. Þetta er upphaf fæðingarhríðanna.

Verið vör um yður

9 Gætið að sjálfum yður. Menn munu draga yður fyrir dómstóla, í samkundum verðið þér húðstrýkt og þér munuð leidd fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna til þess að bera vitni um mig. 10 En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið. 11 Þegar menn taka yður og draga fyrir rétt skuluð þér ekki hafa áhyggjur af því hvað þér eigið að segja heldur talið það sem yður verður gefið á þeirri stundu. Það eruð ekki þér sem talið heldur talar heilagur andi í yður. 12 Þá mun bróðir selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða. 13 Allir munu hata yður af því að þér trúið á mig. En sá sem staðfastur er allt til enda verður hólpinn.
14 En þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar standa þar er síst skyldi – lesandinn athugi það – þá flýi þau, sem í Júdeu eru, til fjalla. 15 Sá sem er uppi á þaki fari ekki ofan og inn í húsið að sækja neitt. 16 Og sá sem er á akri skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína. 17 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum. 18 Biðjið að það verði ekki um vetur. 19 Á þeim dögum verður sú þrenging sem engin hefur þvílík verið frá upphafi sköpunar allt til þessa og mun aldrei verða. 20 Ef Drottinn hefði ekki stytt þessa daga kæmist enginn maður af. En hann hefur stytt þá vegna þeirra sem hann hefur útvalið.
21 Og ef einhver segir þá við yður: Hér er Kristur, eða: Þar, þá trúið því ekki. 22 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn og þeir munu gera tákn svo að þeir gætu leitt hin útvöldu afvega ef það væri hægt. 23 Gætið yðar. Ég hef sagt yður allt fyrir.

Mannssonurinn kemur

24 En á þeim dögum, eftir þrenging þessa,
mun sólin sortna
og tunglið hætta að skína.
25 Stjörnurnar munu hrapa af himni
og festingin riðlast.

26 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð. 27 Og hann mun senda út englana og safna sínum útvöldu úr áttunum fjórum, frá skautum jarðar til himinskauta.

Sumar í nánd

28 Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér að sumar er í nánd. 29 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að endirinn er í nánd, fyrir dyrum. 30 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt þetta er komið fram. 31 Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.

Vakið

32 En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. 33 Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. 34 Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. 35 Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. 36 Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. 37 Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“