Akas Júdakonungur

1 Á sautjánda stjórnarári Peka Remaljasonar tók Akas, sonur Jótams Júdakonungs, við völdum. 2 Akas var tuttugu ára þegar hann varð konungur og hann ríkti sextán ár í Jerúsalem.
Ólíkt Davíð, forföður sínum, gerði hann ekki það sem rétt var í augum Drottins, Guðs hans. 3 Hann breytti eins og konungar Ísraels og lét jafnvel son sinn ganga gegnum eld að hinum svívirðilega hætti þeirra þjóða sem Drottinn hafði hrakið brott undan Ísraelsmönnum. 4 Hann færði sláturfórnir og reykelsisfórnir á fórnarhæðum og hólum og undir hverju grænu tré.
5 Á þeim tíma héldu þeir Resín, konungur Arams, og Peka Remaljason, konungur Ísraels, upp til Jerúsalem til að herja á hana. Þeir umkringdu Akas en komu honum ekki til að berjast. 6 Um þetta leyti lagði Resín Aramskonungur Elat aftur undir Aram og rak Júdamenn frá Elat. Komu Edómítar þá til Elat, settust þar að og búa þar enn í dag.
7 Þá sendi Akas þessi boð til Tíglat Pílesers Assýríukonungs: „Ég er þræll þinn og sonur. Komdu hingað upp eftir og frelsaðu mig úr höndum Aramskonungs og Ísraelskonungs sem hafa ráðist gegn mér.“ 8 Akas tók allt það silfur og gull, sem fannst í musteri Drottins og í fjárhirslum konungshallarinnar, og sendi það Assýríukonungi að gjöf. 9 Konungur Assýríu gerði sem hann bað, hélt upp til Damaskus, tók borgina og flutti íbúana í útlegð til Kír en drap Resín.
10 Akas konungur fór nú til móts við Tíglat Píleser Assýríukonung í Damaskus og skoðaði altarið sem var í Damaskus. Sendi hann teikningu af altarinu og nákvæma lýsingu á gerð þess til Úría prests 11 og lét Úría prestur þá reisa altari nákvæmlega samkvæmt fyrirmælunum sem Akas konungur hafði sent frá Damaskus. Þetta gerði Úría prestur áður en konungur kom heim frá Damaskus. 12 Þegar konungur kom aftur frá Damaskus skoðaði hann altarið. Síðan gekk hann að því og steig upp á það, 13 færði þar brennifórn sína og kornfórn, dreypti á það dreypifórn sinni og stökkti blóði heillafórnar sinnar á altarið. 14 En hann lét fjarlægja eiraltarið sem stóð frammi fyrir Drottni milli nýja altarisins og musteris Drottins og lét koma því fyrir norðan við nýja altarið.
15 Akas konungur gaf Úría presti svohljóðandi fyrirmæli: „Á stóra altarinu skalt þú færa morgunbrennifórnina, kvöldkornfórnina, brennifórn konungs og kornfórn hans, brennifórnir almennings, kornfórnir hans og dreypifórnir. Þá skalt þú stökkva á altarið öllu blóði brennifórnanna og slátrunarfórnanna. En eiraltarið ætla ég að nota við að leita svara.“[ 16 Fór Úría prestur í öllu eftir því sem Akas konungur hafði gefið fyrirmæli um.
17 Þá lét Akas konungur höggva slárnar af vagngrindunum og fjarlægja kerin af þeim.[ Hann lét taka hafið niður af eirnautunum, sem það hvíldi á, og setja það á stall úr grjóti. 18 Enn fremur lét hann fjarlægja hinn yfirbyggða hvíldardagsgang sem byggður hafði verið við musteri Drottins og ytra inngangshlið konungsins. Þetta gerði hann til að þóknast Assýríukonungi.
19 Það sem ósagt er af sögu Akabs og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga. 20 Akas var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn hjá þeim í borg Davíðs. Hiskía, sonur hans, varð konungur eftir hann.