Dómur yfir þjóðunum

1Hver er sá sem kemur frá Edóm,
í hárauðum klæðum frá Bosra,
sveipaður veglegri skikkju,
tignarlegur í mætti sínum?
Það er ég sem boða réttlæti
og hef mátt til að bjarga.
2Hvers vegna er skikkja þín rauð
og klæði þín eins og víntroðslumanns?
3Vínþró tróð ég einn
og enginn útlendingur var með mér.
Ég traðkaði á þeim í reiði minni
og tróð þá niður í heift minni
og safi þeirra slettist á klæði mín
og skikkja mín flekkaðist öll.
4Hefndardagur var mér í huga
og lausnarár mitt var komið,
5ég litaðist um en enginn var til hjálpar,
ég undraðist að enginn studdi mig.
Þá varð armur minn mér að liði
og heift mín studdi mig
6og ég tróð á þjóðunum í reiði minni,
kramdi þær í heift minni
og lét blóð þeirra renna niður á jörðina.

Hugleiðing um sögu Ísraels

7Ég vil minnast velgjörða Drottins,
syngja Drottni lof fyrir allt
sem hann gerði fyrir oss,
hina miklu gæsku Drottins við Ísraels ætt
sem hann sýndi henni af miskunn sinni
og miklum kærleika.
8Því að hann sagði:
„Þeir eru þjóð mín,
börn sem ekki bregðast,“
og hann varð þeim frelsari
9í öllum þrengingum þeirra.
Það var hvorki sendiboði né engill
heldur hann sjálfur sem frelsaði þá.
Í kærleika sínum og miskunn endurleysti hann þá,
hann tók þá upp
og bar þá alla daga hinna fyrri tíða.
10En þeir gerðu uppreisn og misbuðu heilögum anda hans.
Þá varð hann óvinur þeirra
og barðist sjálfur gegn þeim.
11Þá minntust þeir löngu liðinna daga
og þjóns hans, Móse:
Hvar er sá sem leiddi hirði hjarðar sinnar upp úr hafinu?
Hvar er sá sem lét heilagan anda sinn í hjarta hans,
12sá sem lét dýrlegan arm sinn
ganga Móse á hægri hönd,
sá sem klauf hafið frammi fyrir þeim
til að afla sér ævarandi frægðar?
13Hann lét þá ganga gegnum djúpið
eins og hest um eyðimörk
án þess að þeir hrösuðu.
14Eins og búfé, sem fer ofan í dalinn,
veitti andi Drottins þeim hvíld.
Þannig leiddir þú þjóð þína
til að ávinna þér dýrlegt nafn.
15Líttu niður frá himni og horfðu
frá þínum heilaga og dýrlega bústað.
Hvar er ákafi þinn og afl,
meðaumkun hjarta þíns og miskunn?
Vertu mér ekki fjarri
16því að þú ert faðir vor.
Abraham þekkir oss ekki
og Ísrael kannast ekki við oss.
Þú, Drottinn, ert faðir vor.
Frelsari vor frá alda öðli er nafn þitt.
17Hvers vegna léstu oss villast
af vegi þínum, Drottinn,
og hertir hjarta vort
svo að vér óttuðumst þig ekki?
Snúðu aftur vegna þjóna þinna,
vegna ættbálkanna sem eru arfleifð þín.
18Hvers vegna gátu guðleysingjar gengið inn í helgidóm þinn,
fjandmenn vorir fótum troðið helgistað þinn?
19Vér erum orðnir eins og þeir
sem þú hefur aldrei ríkt yfir
og aldrei voru kenndir við nafn þitt. [