1 Þegar öllu þessu var lokið fóru allir þeir Ísraelsmenn, sem höfðu verið viðstaddir, út í borgir Júda. Þeir brutu sundur merkisteinana, hjuggu niður Asérustólpana og rifu niður fórnarhæðirnar og ölturun alls staðar í Júda, Benjamín, Efraím og Manasse. Því næst héldu allir Ísraelsmenn heim til borga sinna, hver um sig til eignar sinnar.

Skipan musterisþjónustunnar

2 Hiskía skipulagði þjónustuflokka presta og Levíta með sama hætti og áður. Hver og einn af prestunum og Levítunum átti að gegna tilteknu starfi við brennifórnir, heillafórnir og þjónustustörf, flutning þakkar- og lofgjörðarsöngva og gæslu hliðanna á herbúðum Drottins. 3 Konungurinn lagði fram skerf af sínum eigin eignum til brennifórnanna kvölds og morguns og til brennifórnanna á hvíldardaginn, á tunglkomudögum og öðrum hátíðum samkvæmt því sem skráð er í lögmáli Drottins.
4 Hiskía skipaði íbúum Jerúsalem að fá prestunum og Levítunum þann hlut sem þeim bar svo að þeir gætu eingöngu fengist við lögmál Drottins. 5 Um leið og þessi tilskipun tók að breiðast út komu Ísraelsmenn með mikið af korni úr fyrstu uppskerunni, vínberjasafa, olíu og hunang og alls konar ávexti af ökrunum. Þeir komu með tíund af öllu, ríkulega greidda. 6 Ísraelsmenn og Júdamenn, sem bjuggu í borgunum í Júda, komu með tíund af nautgripum og sauðfé og tíund af þeim gjöfum sem helgaðar voru Drottni, Guði þeirra. 7 Þeir hófu að leggja undirstöður í þriðja mánuðinum en luku við forðahlaðann í sjöunda mánuðinum.
8 Þá komu Hiskía og höfðingjarnir og þegar þeir höfðu skoðað hlaðana lofuðu þeir Drottin og lýð hans, Ísrael. 9 Þegar Hiskía spurði prestana og Levítana um forðann 10 varð Asarja yfirprestur, af ætt Sadóks, fyrir svörum og sagði: „Síðan farið var að flytja afgjöldin til húss Drottins hefur verið nóg að eta og mikill afgangur að auki því að Drottinn hefur blessað þjóð sína. Allar þessar birgðir gengu af.“
11 Hiskía gaf nú fyrirmæli um að útbúa geymslur í húsi Drottins. Þegar það hafði verið gert 12 voru afgjöldin, tíundirnar og helgigjafirnar fluttar samviskusamlega þangað. Levítanum Kananja var falin yfirumsjón með þeim og Símeí, bróðir hans, var staðgengill hans. 13 Jehíel, Asasja, Nakat, Asahel, Jerímót, Jósabad, Elíel, Jismakja, Mahat og Benaja voru eftirlitsmenn undir stjórn Kananja og Símeí, bróður hans, samkvæmt skipun Hiskía konungs og Asarja, höfðingja húss Guðs.
14 Levítinn Kóre Jimnason, hliðvörður við austurhliðið, var settur yfir sjálfviljagjafir til Guðs. Honum var falið að sjá um að deila út því sem Drottni var fært og hinum háheilögu gjöfum. 15 Eden, Minjamín, Jesúa, Semaja, Amarja og Sekanja voru undir stjórn hans í borgum prestanna og greiddu embættisbræðrum sínum það sem þeim bar eftir þjónustuflokkum, óháð því hvort þeir væru voldugir eða valdalausir.
16 Allir, sem komu í þjónustuflokkum í hús Drottins til að vinna verk sín eins og þurfti hvern dag, voru skráðir. Allir karlmenn þriggja ára og eldri voru skráðir. 17 Prestarnir voru skráðir eftir fjölskyldum sínum en Levítarnir, tuttugu ára og eldri, voru skráðir eftir störfum í þjónustuflokkum sínum. 18 Skráningin náði til allra barna, kvenna, sona og dætra þeirra eftir stéttum en þau helguðust vegna þjónustu sinnar.[ 19 Úr hópi prestanna, niðja Arons, sem höfðu lífsviðurværi af beitarlöndunum umhverfis borgirnar sem þeir bjuggu í, voru nokkrir valdir með nafnakalli í hverri borg til þess að fá karlmönnum af prestaættum og öllum skráðum Levítum þann hlut sem þeim bar.
20 Þetta gerði Hiskía um allt Júda. Hann gerði það sem gott var og rétt og það sem bar trúfesti hans vitni frammi fyrir Drottni, Guði hans. 21 Sérhvert verk, sem hann hóf í þágu húss Guðs eða varðaði lögmálið eða kröfuna um að leita Guðs síns, vann hann af heilum hug. Þess vegna farnaðist honum vel.