Vígsla Arons og sona hans

1 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 „Sæktu Aron og syni hans, klæðin og smurningarolíuna, naut í syndafórn, tvo hrúta og körfu með ósýrðum brauðum. 3 Kallaðu því næst allan söfnuðinn saman við dyr samfundatjaldsins.“
4 Móse gerði það sem Drottinn lagði fyrir hann og söfnuðurinn safnaðist saman við dyr samfundatjaldsins. 5 Þá sagði Móse við söfnuðinn: „Þetta er það sem Drottinn hefur boðið.“
6 Því næst lét Móse Aron og syni hans ganga fram og þvoði þá í vatni.
7 Hann færði hann í kyrtilinn, gyrti hann beltinu og klæddi hann í kápuna, lagði yfir hann hökulinn, gyrti hann belti og festi hökulinn þannig á hann. 8 Hann kom brjóstskildinum fyrir á honum og lagði úrím og túmmím í hann. 9 Þá setti hann vefjarhöttinn á höfuð hans og framan á vefjarhöttinn setti hann gullblómið, hið heilaga höfuðdjásn, eins og Drottinn hafði boðið Móse.
10 Því næst sótti Móse smurningarolíuna og smurði bústað Drottins og allt sem í honum var og vígði hann þannig. 11 Hann stökkti nokkru af olíunni sjö sinnum á altarið og vígði öll áhöld þess, sömuleiðis kerið og fót þess, með smurningu.
12 Þá hellti hann nokkru af smurningarolíunni yfir höfuð Arons og smurði hann og helgaði.
13 Því næst lét Móse syni Arons ganga fram. Hann klæddi þá í kyrtla, gyrti þá beltum og batt á þá höfuðdúka eins og Drottinn hafði boðið.
14 Þá lét hann leiða nautið fram til syndafórnar og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð þess. 15 Því næst slátraði Móse því, tók nokkuð af blóðinu og rauð því með fingri sínum á horn altarisins allt um kring til þess að hreinsa það og hellti síðan því sem eftir var af blóðinu á fótstall altarisins.
Þannig helgaði hann altarið til að friðþægja á því.[
16 Þá tók Móse allan innyflamörinn, lifrarblaðið og bæði nýrun ásamt nýrnamörnum og lét það líða upp í reyk frá altarinu. 17 Nautið sjálft, húðina, kjötið og gorið, brenndi hann í eldi fyrir utan herbúðirnar eins og Drottinn hafði boðið Móse.
18 Þá færði hann fram hrút til brennifórnar og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hans. 19 Því næst slátraði Móse honum og stökkti blóðinu á allar hliðar altarisins.
20 Því næst hlutaði hann hrútinn niður og Móse lét höfuðið, stykkin og mörinn líða upp í reyk. 21 Hann þvoði innyflin og fæturna í vatni. Þannig lét Móse allan hrútinn líða upp í reyk af altarinu.
Þetta var brennifórn, þekkur ilmur, eldfórn handa Drottni eins og Drottinn hafði lagt fyrir Móse.
22 Þá færði hann hinn hrútinn fram, hrút til vígslufórnar, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hans. 23 Því næst slátraði Móse honum og tók nokkuð af blóði hans og rauð því á hægri eyrnasnepil Arons, þumalfingur hægri handar og stórutá hægri fótar hans.
24 Þá lét Móse syni Arons ganga fram og rauð nokkru af blóðinu á hægri eyrnasnepil þeirra, þumalfingur hægri handar og stórutá hægri fótar.
Því næst stökkti Móse því sem eftir var af blóðinu á allar hliðar altarisins.
25 Þá tók hann mörinn og rófuna, allan innyflamörinn, lifrarblaðið, bæði nýrun ásamt nýrnamörnum og hægra lærið. 26 Hann tók einnig eina kringlótta ósýrða köku, eina kringlótta olíublandaða köku og eina flatköku úr körfunni með ósýrðum brauðum sem stóð frammi fyrir augliti Drottins. Hann lagði brauðin ofan á mörinn og hægra lærið, 27 fékk Aroni og sonum hans það allt í hendur og lét þá veifa því frammi fyrir augliti Drottins.
28 Því næst tók Móse þetta aftur úr höndum þeirra og lét það líða upp í reyk af altarinu ásamt brennifórninni.
Þetta var vígslufórn, þekkur ilmur, eldfórn handa Drottni.
29 Móse tók bringuna og veifaði henni frammi fyrir augliti Drottins. Hún var sá hluti vígsluhrútsins sem Móse fékk eins og Drottinn hafði boðið Móse.
30 Þá tók Móse nokkuð af smurningarolíunni og blóðinu sem var á altarinu og stökkti því á Aron og klæði hans, syni hans og klæði þeirra. Þannig vígði hann Aron og klæði hans og syni hans og klæði þeirra.
31 Síðan sagði Móse við Aron og syni hans: „Sjóðið kjötið úti fyrir dyrum samfundatjaldsins og þar skuluð þið neyta þess ásamt brauðinu, sem er í vígslukörfunni, eins og lagt hefur verið fyrir mig með þessum orðum: Aron og synir hans skulu neyta þess. 32 En það sem eftir verður af kjötinu og brauðinu skal brennt í eldi.
33 Í sjö daga skuluð þið ekki víkja frá dyrum samfundatjaldsins, ekki fyrr en vígslutíma ykkar lýkur því að vígsla ykkar stendur í sjö daga. 34 Það sem gert hefur verið í dag hefur Drottinn boðið til friðþægingar fyrir ykkur. 35 Þið skuluð vera við inngang samfundatjaldsins dag og nótt í sjö daga. Fylgið þessum fyrirmælum Drottins svo að þið deyið ekki því að þetta hefur mér verið boðið.“
36 Aron og synir hans gerðu allt sem Drottinn hafði boðið fyrir munn Móse.