1 Á meðan Jeróbóam stóð við altarið til að færa reykelsisfórn kom guðsmaður einn óvænt frá Júda að boði Drottins. 2 Hann hrópaði að altarinu, samkvæmt skipun Drottins, og sagði: „Altari, altari. Svo segir Drottinn: Sonur mun fæðast af ætt Davíðs, Jósía að nafni. Hann mun fórna á þér prestum fórnarhæðanna sem færa á þér reykelsisfórn. Hann mun brenna mannabein á þér.“ 3 Þennan sama dag gerði guðsmaðurinn tákn og sagði: „Þetta er táknið sem Drottinn hefur lýst: Þetta altari skal klofna og fituaskan á því skal sáldrast niður.“[
4 Þegar Jeróbóam heyrði orð guðsmannsins, sem hann hrópaði gegn altarinu í Betel, rétti hann út hönd sína frá altarinu þar sem hann stóð og skipaði: „Grípið hann.“ En höndin, sem hann rétti út gegn guðsmanninum, visnaði svo að hann gat ekki dregið hana að sér aftur. 5 Altarið klofnaði og fituaskan á altarinu sáldraðist niður eins og táknið hafði falið í sér sem guðsmaðurinn gerði að boði Drottins.
6 Þá sagði konungur við guðsmanninn: „Milda nú reiði Drottins, Guðs þíns, og bið fyrir mér svo að ég geti dregið að mér höndina.“ Guðsmaðurinn mildaði reiði Drottins svo að konungurinn gat dregið að sér höndina aftur og varð hún jafngóð og áður.
7 Síðan sagði konungur við guðsmanninn: „Komdu heim með mér og fáðu hressingu. Ég ætla líka að gefa þér gjöf.“ 8 En guðsmaðurinn svaraði konunginum: „Þó að þú gæfir mér helming eigna þinna færi ég ekki heim með þér. Ég mun hvorki neyta matar né drekka vatn á þessum stað. 9 Því að þannig var mér skipað af Drottni: Þú mátt hvorki eta né drekka og ekki máttu snúa aftur sömu leið og þú komst.“ 10 Hann fór síðan aðra leið og sneri ekki aftur sama veg og hann hafði komið til Betel.
11 Í Betel bjó gamall spámaður. Þegar synir hans komu heim sögðu þeir honum frá öllu því sem guðsmaðurinn hafði gert í Betel og frá boðskapnum sem hann hafði flutt konungi þennan dag. Þegar þeir höfðu sagt föður sínum þetta 12 spurði hann þá: „Hvaða leið fór hann?“ Synir hans sýndu honum veginn sem guðsmaðurinn frá Júda hafði farið. 13 Þá sagði hann við syni sína: „Leggið á asnann minn fyrir mig.“ Þeir lögðu á asnann fyrir hann og hann steig á bak 14 og reið á eftir guðsmanninum. Hann fann hann þar sem hann sat undir eik einni og spurði: „Ert þú guðsmaðurinn sem kom frá Júda?“ Hann svaraði: „Já, ég er hann.“ 15 Þá sagði spámaðurinn við hann: „Komdu heim með mér og fáðu þér að eta.“ 16 Hann svaraði: „Ég get ekki snúið við og komið með þér og ég get hvorki etið né drukkið á þessum stað. 17 Því að Drottinn bauð mér: Þar mátt þú hvorki eta né drekka og þú mátt ekki snúa aftur sömu leið og þú komst.“ 18 Gamli spámaðurinn svaraði honum: „Ég er einnig spámaður eins og þú. Engill sagði við mig að boði Drottins: Far þú með hann aftur heim til þín, að hann megi matar neyta og vatn drekka.“ En hann sagði ósatt. 19 Guðsmaðurinn sneri við með honum og át og drakk heima hjá honum.
20 Á meðan þeir sátu til borðs kom orð Drottins til spámannsins sem hafði snúið guðsmanninum frá Júda 21 og hann hrópaði til hans: „Svo segir Drottinn: Sökum þess að þú hefur risið gegn fyrirmælum Drottins og brotið gegn boði því sem Drottinn, Guð þinn, bauð þér 22 og snerir við og ást og drakkst á þeim stað þar sem hann hafði bannað þér að eta og drekka, þá skal lík þitt ekki komast í gröf feðra þinna.“ 23 Eftir að hann hafði etið og drukkið lagði gamli spámaðurinn á asnann fyrir spámanninn frá Júda sem hann hafði snúið aftur. 24 Hann hélt síðan af stað. En á leiðinni réðst ljón á hann og drap hann. Lík hans lá á veginum og asninn og ljónið stóðu í námunda við það.
25 Nokkrir menn, sem áttu leið þar hjá, sáu líkið liggja á veginum og ljónið standa hjá líkinu. Er þeir komu til borgarinnar, þar sem gamli spámaðurinn bjó, sögðu þeir frá þessu. 26 Þegar spámaðurinn, sem hafði snúið guðsmanninum aftur, heyrði þetta sagði hann: „Þetta er guðsmaðurinn sem reis gegn boði Drottins. Þess vegna hefur Drottinn gefið ljóninu hann. Það hefur rifið hann sundur og drepið hann samkvæmt því orði Drottins sem honum var flutt.“ 27 Síðan sagði hann við syni sína: „Leggið á asnann fyrir mig.“ Þeir gerðu það 28 og síðan hélt hann af stað og fann líkið þar sem það lá á veginum. Asninn og ljónið stóðu í námunda við líkið. Ljónið hafði hvorki étið líkið né rifið asnann á hol. 29 Spámaðurinn tók lík guðsmannsins og lagði það á asnann. Hann flutti það aftur til borgar sinnar til þess að gráta guðsmanninn og grafa. 30 Hann lagði lík hans í sína eigin gröf og menn hörmuðu hann og kveinuðu: „Ó, bróðir minn.“ 31 Er gamli spámaðurinn hafði jarðað guðsmanninn sagði hann við syni sína: „Er ég dey grafið mig þá í gröfinni sem guðsmaðurinn liggur í. Leggið bein mín hjá beinum hans. 32 Því að það sem hann hrópaði gegn altarinu í Betel fyrir munn Drottins og gegn öllum musterum fórnarhæðanna í Samaríu mun vissulega rætast.“
33 Eftir þetta lét Jeróbóam ekki af illri breytni sinni. Hann hélt áfram að skipa presta á fórnarhæðirnar úr öllum stéttum þjóðarinnar. Hann fól hverjum, sem þess óskaði, prestsþjónustu á hendur. 34 Þetta var reiknað ætt Jeróbóams til syndar svo að hún var upprætt og afmáð af jörðinni.