1Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis,
lát mig aldrei verða til skammar.
2Frelsa mig, bjarga mér eftir réttlæti þínu,
hneig eyra þitt að mér og hjálpa mér.
3Ver mér verndarbjarg,
vígi mér til hjálpar
því að þú ert bjarg mitt og vígi.
4Guð minn, bjarga mér úr hendi guðlausra,
úr greipum kúgara og harðstjóra.
5Þú ert von mín, Drottinn,
þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku,
6frá móðurlífi hef ég stuðst við þig,
frá móðurskauti hefur þú verndað mig,
um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.
7Ég er orðinn mörgum sem teikn
en þú ert mér öruggt hæli.
8Munnur minn er fullur lofgjörðar um þig,
af lofsöng um dýrð þína allan daginn.
9Útskúfa mér ekki í elli minni,
yfirgef mig eigi er þróttur minn þverr.
10Því að óvinir mínir tala um mig,
þeir sem sitja um líf mitt ráða ráðum sínum
11og segja: „Guð hefur yfirgefið hann.
Eltið hann og grípið því að enginn bjargar honum.“
12Guð, ver eigi fjarri mér,
Guð minn, skunda mér til hjálpar.
13Þeir sem ógna mér farist með skömm,
þeir sem óska mér ógæfu
hljóti háðung og smán.
14En ég mun sífellt vona
og auka enn á lofstír þinn.
15Munnur minn mun boða réttlæti þitt
og allan daginn velgjörðir þínar
sem ég hef eigi tölu á.
16Ég vil lofsyngja máttarverk þín, Drottinn Guð,
og lofa réttlæti þitt, það eitt.
17Guð, þú hefur kennt mér frá æsku
og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.
18Yfirgef mig eigi, Guð,
þó að ég verði gamall og grár fyrir hærum,
að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð
og mátt þinn öllum óbornum.
19Máttur þinn og réttlæti, ó Guð, nær til himins.
Þú hefur unnið stórvirki,
Guð minn, hver er sem þú?
20Þú, sem lést mig reyna miklar þrautir og þrengingar,
munt lífga mig að nýju
og hefja mig aftur úr undirdjúpum jarðar.
21Veit mér uppreisn æru
og snú þér til mín og hugga mig.
22 Þá mun ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn,
og leika á gígju þér til lofs,
þú Hinn heilagi í Ísrael.
23 Varir mínar skulu fagna
þegar ég leik fyrir þér
og sál mín sem þú hefur endurleyst.
24 Daglangt skal tunga mín vitna um réttlæti þitt
því að þeir sem vildu mér illt
urðu til skammar og hlutu smán.