Förin undirbúin

1 Tóbías svaraði Tóbít föður sínum og sagði: „Ég mun breyta í öllu eins og þú, faðir, hefur boðið mér. 2 En hvernig á ég að fara að því að nálgast silfrið? Hvorki þekkir Gabael mig né ég hann. Hvernig á ég að sanna honum hver ég sé svo að hann trúi mér og afhendi mér féð? Hvernig á ég líka að komast til Medíu? Ekki rata ég þangað.“ 3 Tóbít gaf Tóbíasi syni sínum þetta svar: „Gabael gaf mér kvittun sína og ég honum skjal sem við skiptum í tvennt. Hvor tók sinn hlutann og annan skildi ég eftir hjá silfrinu. Síðan ég setti þetta fé í geymslu eru liðin tuttugu ár. Nú verður þú, barnið mitt, að finna traustan mann sem getur fylgt þér. Við munum greiða honum laun þegar þú kemur aftur. Sæktu nú silfur þetta til Gabaels.“

Tóbías hittir Rafael

4 Tóbías gekk út til þess að leita að fylgdarmanni til Medíu sem kunnugur væri leiðinni þangað. Jafnskjótt og hann kom út hitti hann Rafael engil en vissi ekki að hann var engill frá Guði. 5 „Hvaðan ert þú, ungi maður?“ spurði hann. Rafael svaraði: „Ég er Ísraelsmaður, einn bræðra þinna, og er hingað kominn til að leita að vinnu.“ „Þekkir þú leiðina til Medíu?“ spurði Tóbías. 6 Hann svaraði: „Já, þar hef ég oft verið og er reyndur og þaulkunnugur öllum leiðum. Ég hef margoft ferðast til Medíu og gist þar hjá Gabael bróður okkar sem býr í Rages í Medíu. Frá Ekbatana til Rages eru fullar tvær dagleiðir en Rages er uppi á fjalli en Ekbatana á miðri sléttu.“ 7 „Bíddu mín, ungi maður,“ sagði Tóbías, „meðan ég fer inn og segi föður mínum þetta. Ég þarfnast þín að förunaut og ég mun greiða þér laun.“ 8 „Ég skal bíða hérna,“ sagði Rafael, „en vertu ekki lengi.“
9 Tóbías fór inn til að segja Tóbít föður sínum frá þessu. „Ég hef fundið Ísraelsmann, einn af bræðrum okkar,“ sagði hann. „Kallaðu á hann,“ svaraði Tóbít, „svo að ég geti kynnt mér af hvaða ætt og ættkvísl hann er og hvort hann er traustur samferðamaður, barnið mitt.“

Tóbít hittir Rafael

10 Þá fór Tóbías út og kallaði á Rafael: „Faðir minn vill finna þig, ungi maður.“ Fór hann inn og heilsaði Tóbít honum fyrst. Hann svaraði: „Heill sért þú og sæll.“ Tóbít svaraði: „Yfir hverju ætti ég að vera sæll? Ég er blindur, get ekki séð ljós himinsins og dvelst í myrkri líkt og hinir dauðu sem ekkert ljós sjá framar. Þótt ég lifi er ég meðal dauðra. Ég heyri mennina tala en sé þá ekki.“ Rafael svaraði: „Vertu hughraustur. Guð mun brátt lækna þig. Vertu því hughraustur.“ Tóbít sagði við hann: „Tóbías sonur minn ætlar að fara til Medíu. Getur þú fylgt honum og sagt honum til vegar? Ég skal greiða þér laun fyrir, bróðir.“ Hann svaraði: „Ég get farið með honum. Ég er nákunnugur öllum leiðum, hef oft ferðast til Medíu og farið um allar sléttur og fjöll þar og þekki alla vegi landsins.“ 11 Tóbít sagði: „Bróðir, af hvaða ættkvísl og ætt ert þú? Skýrðu mér frá því, bróðir.“ 12 Rafael svaraði: „Hvaða gagn gerir þér að vita ætternið?“ Tóbít sagði: „Mig langar að vita með fullri vissu hverra manna þú ert og hvað þú heitir.“ 13 „Ég er Asaría, sonur Ananíasar[ mikla sem er bróðir þinn,“ svaraði hann. 14 „Vertu hjartanlega velkominn, bróðir,“ sagði Tóbít. „Taktu það ekki illa upp, bróðir, þótt ég vildi vita hið sanna um hverra manna þú værir. Þú ert vissulega bróðir og af góðri og göfugri ætt. Ég þekkti Ananías og Natan, syni Semaja gamla. Þeir voru oft samferða mér til Jerúsalem til að biðjast fyrir og aldrei létu þeir leiða sig afvega. Bræður þínir eru góðir menn og þú af góðu fólki kominn. Velkominn sértu! 15 Ég skal greiða þér drökmu á dag í laun,“ hélt hann áfram, „og það sem þú og sonur minn þarfnist. Farðu með syni mínum 16 og ég mun greiða þér ábót á launin.“ „Ég skal fara með honum,“ svaraði Rafael. „Þú skalt vera áhyggjulaus. Okkur mun farnast vel og við munum koma heilir á húfi til þín aftur. Vegirnir eru öruggir.“ 17 Þá sagði Tóbít: „Ég óska þér fararheilla, bróðir.“ Síðan kallaði hann á son sinn og sagði við hann: „Taktu það til sem þú þarft til fararinnar, barn, og farðu með bróður þínum. Guð á himnum verndi ykkur alla leiðina og veiti mér að fá ykkur heilu og höldnu aftur heim. Engill hans veri með ykkur og verndi ykkur, barn.“
Tóbías fór til að búa sig til farar og kyssti síðan föður sinn og móður og Tóbít óskaði honum góðrar ferðar. 18 En móðir hans brast í grát og sagði við Tóbít: „Hvers vegna hefurðu sent barnið mitt burtu? Er hann ekki stoð okkar og stytta svo lengi sem hann gengur út og inn á heimili okkar? 19 Hverju skiptir þótt við fáum ekki þessa peninga aftur? Þeir eru hégómi samanborið við barnið okkar. 20 Okkur nægir það sem Drottinn hefur gefið okkur til viðurværis.“ 21 Hann svaraði: „Vertu róleg. Barninu okkar mun farnast vel á leiðinni fram og aftur. Það muntu sjá með eigin augum þegar hann kemur heill á húfi aftur til þín. Vertu róleg og áhyggjulaus þeirra vegna, systir mín. 22 Góður engill mun fylgja þeim, ferðin verður hin farsælasta og Tóbías mun koma aftur heill á húfi.“