Ahía spámaður fordæmir Jeróbóam

1 Um þessar mundir veiktist Abía, sonur Jeróbóams. 2 Jeróbóam skipaði því konu sinni: „Taktu þig upp, dulbúðu þig, svo að enginn komist að því að þú sért kona Jeróbóams, og farðu síðan til Síló. Þar býr spámaðurinn Ahía sem sagði að ég yrði konungur yfir þessari þjóð. 3 Taktu með þér tíu brauð, kökur og hunangskrukku og farðu til hans. Hann getur sagt þér hvernig drengnum reiðir af.“ 4 Kona Jeróbóams gerði þetta. Hún lagði af stað til Síló og kom í hús Ahía. En Ahía var blindur því að augu hans voru stirðnuð af elli. 5 Drottinn hafði sagt við Ahía: „Kona Jeróbóams mun koma til að leita svara hjá þér um son sinn sem er veikur. Þá skalt þú svara henni einhverju. En hún mun látast vera önnur en hún er þegar hún kemur.“
6 Þegar Ahía heyrði fótatak hennar nálgast dyrnar sagði hann: „Komdu inn, kona Jeróbóams. Hvers vegna læst þú vera önnur en þú ert? Ég er þó sendur til þín með slæmar fregnir. 7 Farðu og segðu við Jeróbóam: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Ég hóf þig upp af alþýðu manna og gerði þig að höfðingja yfir þjóð minni, Ísrael. 8 Ég hrifsaði konungdæmið af ætt Davíðs og fékk þér það. En þú hefur ekki verið eins og þjónn minn, Davíð, sem hélt boð mín og fylgdi mér af heilum hug og gerði það eitt sem rétt er í mínum augum. 9 Þú hefur unnið verri verk en allir sem á undan þér voru, gerðir þér aðra guði, steyptir líkneski og vaktir með því reiði mína. Þú hefur snúið baki við mér. 10 Þess vegna sendi ég böl yfir ætt Jeróbóams. Ég mun tortíma öllum karlmönnum af ætt Jeróbóams, til síðasta manns í Ísrael. Ég mun moka ætt Jeróbóams út, eins og flórinn er mokaður, þar til ekkert er eftir. 11 Hundar munu éta þann af ætt Jeróbóams sem deyr í borginni og fuglar munu slíta þann sem deyr úti á víðavangi, segir Drottinn. 12 En sjálf skalt þú búast til ferðar og halda heim til þín. Þegar þú stígur fæti þínum inn í borgina mun drengurinn deyja. 13 Allur Ísrael mun gráta hann og greftra. Af ætt Jeróbóams mun hann einn lagður í gröf því að hann er sá eini af húsi Jeróbóams sem Drottinn, Guð Ísraels, hefur fundið nokkuð gott í. 14 Drottinn mun hefja þann til konungs fyrir sig yfir Ísrael sem mun eyða ætt Jeróbóams. 15 Drottinn mun ljósta Ísrael svo að hann mun titra eins og sef í vatni og hann mun uppræta Ísraelsmenn úr þeim góða jarðvegi sem hann gaf feðrum þeirra og dreifa þeim handan við Efrat af því að þeir vöktu reiði Drottins er þeir gerðu stólpa handa Aséru. 16 Hann mun framselja Ísrael vegna þeirra synda Jeróbóams sem hann drýgði sjálfur og hinna sem hann kom Ísrael til að drýgja.“ 17 Kona Jeróbóams stóð upp og hélt af stað. Þegar hún kom til Tirsa, og steig yfir þröskuld hússins, dó drengurinn. 18 Allur Ísrael tók þátt í greftrun hans og grét hann eins og Drottinn hafði boðað fyrir munn Ahía spámanns, þjóns síns.

Dauði Jeróbóams

19 Það sem ósagt er af sögu Jeróbóams, hernaði hans og ríkisstjórn er skráð í annála Ísraelskonunga. 20 Jeróbóam ríkti tuttugu og tvö ár og var síðan lagður til hvíldar hjá feðrum sínum. Nadab, sonur hans, varð konungur eftir hann.

Rehabeam konungur í Júda

21 Rehabeam, sonur Salómons, varð konungur í Júda þegar hann var fjörutíu og eins árs að aldri. Hann ríkti sautján ár í Jerúsalem, borginni sem Drottinn hafði valið úr öllum ættbálkum Ísraels til þess að láta nafn sitt búa þar. Móðir hans hét Naama og var frá Ammón.
22 Júdamenn gerðu það sem illt var í augum Drottins. Þeir vöktu reiði hans enn frekar en feður þeirra með þeim syndum sem þeir drýgðu. 23 Þeir gerðu sér einnig fórnarhæðir og reistu steina og stólpa handa Aséru á öllum háum hæðum og undir hverju grænu tré. 24 Jafnvel hofskækjur voru í landinu. Júdamenn tóku upp alla viðurstyggilega siði þjóðanna sem Drottinn hafði rýmt úr landinu fyrir Ísraelsmönnum.
25 Á fimmta stjórnarári Rehabeams konungs hélt Sísak, konungur Egypta, í herför gegn Jerúsalem. 26 Hann rændi fjársjóðum úr húsi Drottins og höll konungs. Hann lét greipar sópa og rændi einnig öllum gullskjöldunum sem Salómon hafði látið gera. 27 Rehabeam konungur lét gera skildi úr eir í þeirra stað og fól þá foringjum lífvarðarins til varðveislu en þeir gættu dyranna í húsi konungsins. 28 Í hvert sinn sem konungur gekk í musteri Drottins báru verðirnir skildina en síðan komu þeir þeim aftur fyrir í herbergi lífvarðarins.
29 Það sem ósagt er af sögu Rehabeams og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga. 30 Rehabeam og Jeróbóam áttu sífellt í ófriði. 31 Rehabeam var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn hjá þeim í borg Davíðs. Móðir hans hét Naama og var frá Ammón. Abía, sonur hans, varð konungur eftir hann.