Nýjar sáttmálstöflur

1 Þá sagði Drottinn við mig: „Höggðu til tvær steintöflur eins og þær fyrri og komdu síðan til mín upp á fjallið. Þú skalt einnig smíða örk úr tré. 2 Ég ætla að rita sömu orð á þessar töflur og voru á þeim fyrri sem þú braust. Síðan skaltu koma þeim fyrir í örkinni.“
3 Ég smíðaði þá örk úr akasíuviði, hjó til tvær steintöflur eins og þær fyrri, fór upp á fjallið og hélt á báðum töflunum. 4 Þá ritaði Drottinn á töflurnar eins og í fyrra skiptið þegar hann ritaði boðorðin tíu sem hann hafði talað til ykkar á fjallinu, úr eldinum, daginn sem samkoman var haldin. Því næst fékk Drottinn mér þær. 5 Ég sneri mér við og fór niður af fjallinu, kom töflunum fyrir í örkinni, sem ég hafði smíðað, og lét þær liggja þar eins og Drottinn hafði boðið.
6 Ísraelsmenn héldu nú frá Beerót Bene Jaakan til Mósera. Þar dó Aron og var grafinn. Eleasar, sonur hans, varð prestur eftir hann. 7 Þaðan héldu þeir til Gúdgóda og frá Gúdgóda til Jotbata þar sem gnægð er vatnslækja.
8 Þá fékk Drottinn ættbálki Leví sérstakt hlutverk. Hann átti að bera sáttmálsörk Drottins, standa frammi fyrir augliti Drottins, þjóna honum og blessa í nafni hans eins og gert er enn í dag. 9 Þess vegna hlaut Leví hvorki land né erfðahlut eins og bræður hans. Drottinn er erfðahlutur hans eins og Drottinn, Guð þinn, hét honum.
10 Þegar ég hafði verið á fjallinu í fjörutíu daga og fjörutíu nætur eins og í fyrra skiptið bænheyrði Drottinn mig enn að nýju því að það var ekki ætlun hans að tortíma þér. 11 Og Drottinn sagði við mig: „Leggðu af stað og farðu fyrir fólkinu við brottför þess þegar það fer að slá eign ykkar á landið sem ég hét feðrum þess að gefa því.“

Hvatning til að halda sáttmálann

12 Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni 13 og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel?
14 Sjá, Drottni, Guði þínum, heyrir himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er. 15 Eigi að síður beindist kærleikur Drottins að feðrum þínum einum svo að hann elskaði þá. Síðan valdi hann ykkur, niðja þeirra, úr öllum þjóðum og er svo enn í dag.
16 Umskerið því forhúð hjartna ykkar og verið ekki framar harðsvíruð. 17 Því að Drottinn, Guð ykkar, er Guð guðanna og Drottinn drottnanna. Hann er hinn mikli Guð, hetjan og ógnvaldurinn, sem gerir sér engan mannamun og þiggur ekki mútur. 18 Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur honum fæði og klæði. 19 Þið skuluð því sjálfir elska aðkomumanninn því að þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi.
20 Þú skalt óttast Drottin, Guð þinn. Þú skalt þjóna honum, vera honum trúr og sverja við nafn hans. 21 Hann er þinn lofsöngur og hann er þinn Guð sem hefur unnið fyrir þig öll þessi miklu og ógnvekjandi verk sem þú hefur séð með eigin augum.
22 Þegar forfeður þínir héldu niður til Egyptalands voru þeir sjötíu að tölu en nú hefur Drottinn, Guð þinn, gert þig að fjölda til sem stjörnur himins.