Konungsríkin tvö, Ísrael og Júda

Konungdæmið klofnar

1 Rehabeam fór til Síkem því að þangað var allur Ísrael kominn til þess að taka hann til konungs. 2 Jeróbóam Nebatsson frétti þetta meðan hann var enn í Egyptalandi en þangað hafði hann flúið undan Salómon konungi. 3 Boð var gert eftir honum og hann kallaður heim. Þegar Jeróbóam og allur söfnuður Ísraels var kominn til Síkem sögðu þeir við Rehabeam: 4 „Faðir þinn lagði á okkur þungt ok. Ef þú léttir hinn harða þrældóm föður þíns og hið þunga ok, sem hann lagði á okkur, skulum við þjóna þér.“ 5 En hann svaraði þeim: „Farið og komið aftur til mín að þremur dögum liðnum.“ Fólkið fór leiðar sinnar 6 en Rehabeam konungur ráðgaðist við gömlu mennina sem höfðu verið í þjónustu Salómons, föður hans, meðan hann lifði. „Hvað ráðleggið þið mér?“ spurði hann. „Hverju á ég að svara þessu fólki?“ 7 Þeir svöruðu honum og sögðu: „Ef þú gerist þjónn þessa fólks í dag, lætur að vilja þess og talar vingjarnlega til þess, þá mun þetta fólk þjóna þér héðan í frá.“ 8 Rehabeam fór þó ekki að ráðum gömlu mannanna heldur leitaði í staðinn ráða hjá ungu mönnunum sem alist höfðu upp með honum og voru nú í þjónustu hans. 9 Hann spurði þá: „Hvað ráðleggið þið mér? Hverju á ég að svara þessu fólki sem segir við mig: Léttu okið sem faðir þinn lagði á okkur?“ 10 Ungu mennirnir, sem höfðu alist upp með honum, svöruðu: „Þannig skaltu svara þessu fólki sem hefur sagt við þig: Léttu hið þunga ok sem faðir þinn lagði á okkur. Þannig skaltu svara því: Litli fingur minn er gildari en lendar föður míns. 11 Faðir minn lagði á ykkur þungt ok en ég mun þyngja það enn. Faðir minn agaði ykkur með hnútasvipu en ég mun aga ykkur með gaddasvipu.“
12 Jeróbóam og allt fólkið kom til Rehabeams á þriðja degi eins og konungurinn hafði fyrirskipað þegar hann sagði: „Komið aftur til mín að þremur dögum liðnum.“ 13 Konungur svaraði fólkinu hranalega, hafði ráð gömlu mannanna að engu 14 en svaraði því að ráði ungu mannanna og sagði: „Faðir minn lagði á ykkur þungt ok en ég mun þyngja það enn. Faðir minn agaði ykkur með hnútasvipu en ég mun aga ykkur með gaddasvipu.“ 15 Konungur hlustaði ekki á fólkið af því að Drottinn hafði snúið atburðunum á þennan veg til þess að það rættist sem hann hafði sagt við Jeróbóam Nebatsson fyrir munn Ahía frá Síló. 16 Þegar Ísraelsmönnum varð ljóst að konungurinn vildi ekki hlusta á þá, svöruðu þeir honum og sögðu:
Hvaða hlutdeild eigum við í Davíð?
Við eigum engan erfðahlut í syni Ísaí.
Ísrael, farðu til tjalda þinna.
Davíð, gættu að þinni eigin ætt.

Því næst hélt allur Ísrael til tjalda sinna 17 en Rehabeam varð konungur yfir þeim Ísraelsmönnum sem bjuggu í borgum Júda. 18 Þegar konungur sendi Adóníram, yfirmann kvaðavinnunnar, til Ísraels grýtti allur Ísrael hann til bana. En Rehabeam konungi tókst að komast upp í vagn sinn og flýja til Jerúsalem. 19 Þannig gerðu Ísraelsmenn uppreisn gegn ætt Davíðs og hafa verið skildir frá henni allt til þessa dags.

Stofnun Norðurríkisins

20 Þegar Ísraelsmenn fréttu að Jeróbóam væri snúinn aftur sendu þeir honum boð, kvöddu hann til þings og gerðu hann að konungi yfir öllum Ísrael. Ættbálkur Júda hélt einn tryggð við ætt Davíðs.
21 Þegar Rehabeam kom til Jerúsalem safnaði hann saman öllum ættbálki Júda og ættbálki Benjamíns, hundrað og áttatíu þúsund manna einvalaliði, til að hefja stríð og berjast gegn konungsætt Ísraels og vinna konungdæmið aftur handa Rehabeam, syni Salómons.
22 Þá kom orð Guðs til guðsmannsins Semaja: 23 „Segðu Rehabeam Júdakonungi, syni Salómons, og allri konungsætt Júda og Benjamíns og allri þjóðinni: 24 Svo segir Drottinn: Farið ekki til að berjast við bræður ykkar, Ísraelsmenn. Hver ykkar skal halda til síns heima því að ég er valdur að því sem gerst hefur.“ Þeir hlýddu boðskap Drottins, sneru við og fóru heim eins og Drottinn hafði sagt.

Helgistaðir Norðurríkisins

25 Jeróbóam víggirti Síkem í Efraímsfjöllum og settist þar að. Síðar fluttist hann þaðan og byggði Penúel.
26 Jeróbóam hugsaði með sér: „Nú gæti konungdæmið aftur lent undir stjórn Davíðs ættar. 27 Ef fólkið fer héðan upp eftir til að færa sláturfórnir í musteri Drottins í Jerúsalem, þá mun það snúast til fylgis við Rehabeam Júdakonung að nýju. Það mun drepa mig og ganga Rehabeam konungi Júda aftur á hönd.“ 28 Konungur hugsaði því ráð sitt, lét búa til tvo kálfa úr gulli og sagði því næst við fólkið: „Of lengi hafið þið leitað upp til Jerúsalem. Þetta er Guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út úr Egyptalandi.“ 29 Hann kom öðrum kálfinum fyrir í Betel en hinn flutti hann til Dan. 30 Þetta varð Ísrael tilefni til syndar. En fólkið fór fyrir öðrum kálfinum til Dan.
31 Jeróbóam byggði einnig hof á fórnarhæðunum og skipaði presta af öllum stéttum þjóðarinnar, jafnvel þá sem ekki voru af ætt Leví. 32 Hann lét halda hátíð fimmtánda dag hins áttunda mánaðar sem samsvaraði hátíðinni í Júda. Í Betel gekk hann upp að altarinu til þess að færa nautkálfunum, sem hann hafði látið smíða, sláturfórnir. Einnig lét hann prestana, sem hann hafði sett til þjónustu á fórnarhæðirnar, þjóna í Betel.

Guðsmaðurinn frá Júda og spámaðurinn í Betel

33 Jeróbóam gekk upp að altarinu, sem hann hafði látið gera í Betel, á fimmtánda degi hins áttunda mánaðar. Hann hafði að eigin geðþótta valið þennan mánuð og ákveðið hátíðisdag fyrir Ísraelsmenn. Á þeim degi gekk hann upp að altarinu til þess að færa reykelsisfórn.