Davíð gefið fyrirheit

1 Þegar Davíð var sestur að í húsi sínu sagði hann við Natan spámann: „Nú bý ég í húsi úr sedrusviði en sáttmálsörk Drottins er undir tjalddúk.“ 2 Natan svaraði Davíð: „Gerðu það sem þú hefur í huga því að Guð er með þér.“
3 Þá um nóttina kom orð Guðs til Natans: 4 „Far þú og seg við þjón minn, Davíð: Svo segir Drottinn: Það ert ekki þú sem átt að byggja handa mér húsið sem ég mun búa í. 5 Frá þeim degi, er ég leiddi Ísrael hingað og þar til nú, hef ég ekki búið í húsi. Hins vegar hef ég sífellt verið á ferð frá tjaldi til tjalds og frá bústað til bústaðar. 6 Hef ég nokkurn tíma spurt einhvern af leiðtogum Ísraels sem ég setti sem hirða þjóðar minnar þann tíma sem ég hef verið á ferð með Ísraelsmönnum: Hvers vegna hafið þið ekki byggt mér hús úr sedrusviði? 7 Þess vegna skaltu nú segja við þjón minn, Davíð: Svo segir Drottinn herskaranna: Ég sótti þig í haglendið þar sem þú gættir fjár og gerði þig að höfðingja yfir lýð mínum, Ísrael. 8 Ég hef verið með þér á öllum ferðum þínum og ég hef tortímt öllum fjandmönnum þínum. Ég mun gera nafn þitt jafnfrægt og nöfn frægustu manna á jörðinni. 9 Ég mun fá lýð mínum, Ísrael, stað og ég mun rótfesta hann svo að hann geti búið þar öruggur og óttalaus um alla framtíð. Ofbeldismenn skulu ekki kúga hann framar eins og fyrrum, 10 jafnvel eftir að ég setti dómara yfir lýð minn, Ísrael. Ég mun gersigra alla fjandmenn þína. Hér með kunngjöri ég þér: Drottinn mun reisa þér hús.[ 11 Þegar dagar þínir eru allir og þú ert genginn til feðra þinna mun ég upphefja afkomanda þinn, einn sona þinna, til að vera eftirmaður þinn og ég mun styðja konungdóm hans. 12 Hann á að byggja mér hús og ég mun ævinlega styðja hásæti hans. 13 Ég verð honum faðir og hann verður mér sonur. Trúfesti mína skal ég ekki frá honum taka eins og ég tók hana frá þeim sem var á undan þér. 14 Ég mun setja hann yfir hús mitt og konungsríki um aldur og hásæti hans skal ævinlega stöðugt standa.“ 15 Natan flutti Davíð öll þessi orð og þessa opinberun.

Bæn Davíðs

16 Þá gekk Davíð konungur inn, settist frammi fyrir augliti Drottins og sagði:
„Hver er ég, Drottinn Guð, og hvað er ætt mín fyrst þú hefur látið mig ná svona langt? 17 Og samt nægði það þér ekki, Guð, því að þú hefur að auki gefið ætt minni, sem er þjónn þinn, fyrirheit til fjarlægrar framtíðar. Þú hefur látið mig sjá framtíðina betur en menn geta skilið, Drottinn Guð. 18 Hvað getur Davíð sagt frekar um þann heiður sem þú hefur sýnt þjóni þínum? Þú þekkir þjón þinn, 19 Drottinn. Vegna mín, þjóns þíns, hefur þú unnið þetta stórvirki samkvæmt vilja þínum og skýrt frá því. 20 Enginn jafnast á við þig og enginn er Guð nema þú eins og við höfum heyrt með okkar eigin eyrum. 21 Er nokkur þjóð á þessari jörð sem jafnast á við lýð þinn, Ísrael? Hvenær hefur Guð farið og leyst nokkra þjóð úr ánauð, víðfrægt nafn hennar og unnið fyrir hana mikil og ógnvekjandi verk? Þetta gerðir þú þegar þú hraktir á braut aðrar þjóðir undan lýð þínum sem þú hafðir leyst úr ánauð í Egyptalandi. 22 Þú hefur gert lýð þinn, Ísrael, að eignarlýð þínum um aldur og ævi og þú, Drottinn, hefur gerst Guð hans. 23 Drottinn, haltu ævinlega það fyrirheit sem þú gafst þjóni þínum og ætt hans. Gerðu það sem þú hefur lofað. 24 Þá mun nafn þitt reynast traust og þá verður það ævinlega mikið og þá munu menn segja: Drottinn hersveitanna er Guð Ísraels. Ætt Davíðs, þjóns þíns, mun þá jafnan standa fyrir augliti þínu. 25 Þú, Guð minn, þú hefur opinberað þjóni þínum þetta og sagt: Ég mun reisa þér hús. Þess vegna hef ég, þjónn þinn, vogað mér að bera þessa bæn fram fyrir þig. 26 Drottinn, þú einn ert Guð. Þú hefur heitið mér, þjóni þínum, þessari farsæld. 27 Blessaðu nú ætt þjóns þíns svo að hún sé ævinlega fyrir augliti þínu. Þar sem þú sjálfur, Drottinn, hefur blessað hana verður hún ævinlega blessuð.“