Dagur Drottins

1 Þetta er nú annað bréfið sem ég skrifa ykkur, þið elskuðu, og í þeim báðum hef ég reynt að halda hinu hreina hugarfari vakandi hjá ykkur. 2 Það reyni ég með því að rifja upp fyrir ykkur þau orð, sem heilagir spámenn hafa áður talað, og boðorð Drottins vors og frelsara er postular ykkar hafa flutt. 3 Þetta skuluð þið þá fyrst vita, að á síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum 4 og segja með spotti: „Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að síðan feðurnir sofnuðu stendur allt við hið sama eins og frá upphafi veraldar.“ 5 Viljandi gleyma þeir því að himnar og jörð voru til forðum. Guð skapaði þá með orði sínu og jörðin reis upp úr vatni og hvíldi á vatni. 6 Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim sem þá var svo að hann fórst. 7 Eins ætlar Guð með sama orði að eyða með eldi himnunum sem nú eru ásamt jörðinni. Hann mun varðveita þá til þess dags er óguðlegir menn verða dæmdir og tortímast.
8 En þetta eitt má ykkur ekki gleymast, þið elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. 9 Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við ykkur þar eð hann vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar.
10 En dagur Drottins mun koma sem þjófur og þá munu himnarnir líða undir lok með miklum gný, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. 11 Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi 12 og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. 13 En eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.
14 Með því að þið nú, þið elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að lifa í friði frammi fyrir honum, flekklaus og vammlaus. 15 Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræðisleið. Þetta er það sem hinn elskaði bróðir okkar, Páll, hefur ritað ykkur eftir þeirri speki sem honum er gefin. 16 Það gerir hann líka í öllum bréfum sínum þegar hann talar um þetta. En í þeim er sumt þungskilið er fáfróðir og staðfestulausir menn rangtúlka, eins og aðrar ritningar, sjálfum sér til tortímingar.
17 Fyrst þið vitið þetta fyrir fram, þið elskuðu, þá hafið gát á ykkur að þið látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna og fallið frá staðfestu ykkar. 18 Vaxið í náð og þekkingu Drottins vors og frelsara Jesú Krists. Honum sé dýrðin nú og til eilífðardags. Amen.