1 Á þeim degi mun Drottinn með hinu hvessta, stóra og sterka sverði sínu refsa Levjatan, hinum flughraða dreka, Levjatan, hinum hringaða dreka. Hann mun bana sæskrímslinu.

Söngur um víngarð Drottins

2 Á þeim degi skuluð þér syngja um hinn blómlega víngarð:
3Ég, Drottinn, er vörður hans,
ég vökva hann sífellt
og gæti hans dag og nótt
svo að honum verði ekki spillt.
4Reiður er ég ekki
en finni ég þyrna og þistla
ræðst ég á þá
og kveiki í þeim öllum
5nema menn leiti hælis hjá mér,
semji við mig frið,
semji frið við mig.
6Á komandi dögum festir Jakob rætur,
Ísrael blómgast og ber fræ
og fyllir heiminn ávöxtum.

Fyrirgefning synda Ísraels

7Hefur Drottinn lostið Ísrael
eins og hann laust þá sem lustu hann?
Var Ísrael myrtur eins og morðingjar hans voru myrtir?
8Nei, með brottrekstri og útlegð
höfðaðir þú, Drottinn, mál á hendur honum,
hræddir hann og hraktir brott með veðurofsa
daginn sem austanstormurinn geisaði.
9Þess vegna verður sekt Jakobs afplánuð
og þetta er ávöxtur þess að synd hans er fjarlægð:
Hann gerir alla altarissteina að muldum kalksteini,
hvorki Asérustólpar né reykelsisölturu munu uppi standa.
10Hin víggirta borg er einangruð,
auður og yfirgefinn bústaður eins og óbyggðin.
Þar eru kálfar á beit,
þar leggjast þeir og bíta trjákvistina.
11Þegar greinarnar þorna eru þær brotnar af,
konur koma og kveikja eld við þær.
Þar sem þetta er skilningslaus þjóð
sýnir sá sem skapaði hana enga miskunn
og sá sem mótaði hana auðsýnir henni enga náð.

Ísraelsmenn snúa aftur

12Á þeim degi mun Drottinn þreskja korn
frá Efratsbökkum að Egyptalandsá
og þá munuð þér, Ísraelsniðjar,
tíndir upp, einn og einn.
13Á þeim degi verður mikið hafurshorn þeytt
og þeir koma heim sem höfðu villst í Assýríu
og þeir sem höfðu dreifst um Egyptaland.
Þeir munu dýrka Drottin á fjallinu helga í Jerúsalem.