Landið er óverðskulduð gjöf Drottins

1 Heyr, Ísrael. Í dag muntu fara yfir Jórdan til að vinna þjóðir sem eru fjölmennari og voldugri en þú, stórar borgir sem eru víggirtar himinháum múrum. 2 Þar er stór og hávaxin þjóð, Anakítar, sem þú þekkir og hefur sjálfur heyrt sagt um: „Hver stenst Anakítum snúning?“
3 Í dag munt þú komast að raun um að enginn annar en Drottinn, Guð þinn, fer fyrir þér yfir ána eins og eyðandi eldur. Hann mun tortíma þjóðunum og beygja þær undir þig svo að þú getir þegar í stað rutt þeim úr vegi eins og Drottinn hefur heitið þér.
4 Þegar Drottinn, Guð þinn, hefur rutt þeim úr vegi þínum skaltu ekki hugsa með þér: Það var sakir réttlætis míns að Drottinn leiddi mig hingað til að taka þetta land til eignar. Nei, það er sakir ranglætis þessara þjóða að Drottinn flæmir þær burt. 5 Það er hvorki vegna réttlætis þíns né ráðvendni að þú kemst inn í land þeirra og slærð eign þinni á það heldur hrekur Drottinn þær á brott vegna þess að þær eru ranglátar og til þess að uppfylla heitið sem hann vann feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakobi. 6 Þú skalt játa að það er ekki vegna réttlætis þíns að Drottinn, Guð þinn, fær þér þetta góða land því að þú ert harðsvíruð þjóð. 7 Minnstu þess og gleymdu því ekki að þú vaktir reiði Drottins, Guðs þíns, í eyðimörkinni. Frá þeim degi, er þú fórst frá Egyptalandi og þar til þið komuð á þennan stað, hafið þið sífellt risið gegn Drottni. 8 Hjá Hóreb reittuð þið Drottin til reiði og vöktuð honum slíka heift að hann ætlaði að eyða ykkur.

Gullkálfurinn

9 Þegar ég var kominn upp á fjallið til að taka við steintöflunum, töflum sáttmálans sem Drottinn hafði gert við ykkur, var ég um kyrrt á fjallinu í fjörutíu daga og fjörutíu nætur og neytti hvorki brauðs né vatns. 10 Drottinn fékk mér báðar steintöflurnar sem voru ritaðar með fingri Guðs. Á töflunum stóðu öll boðorðin sem Drottinn hafði flutt ykkur á fjallinu, úr eldinum, daginn sem þið komuð þar saman.
11 Þegar fjörutíu dagar og fjörutíu nætur voru liðnar fékk Drottinn mér báðar steintöflurnar, sáttmálstöflurnar. 12 Þá sagði Drottinn: „Rístu upp og hraðaðu þér niður því að þjóð þín, sem þú leiddir út úr Egyptalandi, hefur breytt illa. Hún vék skjótt af þeim vegi sem ég hafði boðið henni að fylgja: Hún hefur steypt sér líkneski.“ 13 Enn fremur sagði Drottinn við mig: „Ég sé nú að þetta er harðsvírað fólk. 14 Farðu frá mér því að ég ætla að eyða því og afmá nafn þess undir himninum. Síðan mun ég gera þig að voldugri þjóð, fjölmennari en þessi er.“
15 Þá sneri ég áleiðis niður fjallið sem stóð í ljósum loga og hélt á báðum steintöflunum. 16 Og ég sá hvað gerst hafði: Þið höfðuð syndgað gegn Drottni, Guði ykkar. Þið höfðuð steypt ykkur líkneski af kálfi og verið skjót til að víkja af þeim vegi sem Drottinn hafði boðið ykkur að fylgja. 17 Þá þreif ég báðar steintöflurnar og kastaði þeim frá mér og braut þær í smátt fyrir augum ykkar.
18 Síðan varpaði ég mér niður fyrir Drottni eins og í fyrra skiptið. Í fjörutíu daga og fjörutíu nætur neytti ég hvorki brauðs né vatns vegna allra þeirra synda sem þið höfðuð drýgt þegar þið gerðuð það sem illt er í augum Drottins og vöktuð heift hans. 19 En ég óttaðist hina brennandi reiði Drottins í ykkar garð sem var slík að hann kynni að eyða ykkur. En hann bænheyrði mig einnig í þetta sinn. 20 Drottinn hafði einnig reiðst Aroni mjög svo að hann ætlaði að eyða honum en þá bað ég einnig fyrir honum.
21 Síðan tók ég kálfinn, hið syndsamlega verk ykkar, og brenndi í eldi. Því næst braut ég hann og muldi mélinu smærra og fleygði duftinu í lækinn sem rennur þar niður fjallið.
22 Þið vöktuð enn heift Drottins við Tabera, Massa og Kibrót-Hattava. 23 Og þegar Drottinn sendi ykkur frá Kades Barnea og bauð ykkur: „Farið og sláið eign ykkar á landið sem ég hef fengið ykkur,“ þá risuð þið gegn boði Drottins, Guðs ykkar, trúðuð ekki á hann og hlýdduð ekki raust hans. 24 Þið hafið risið gegn Drottni frá því að ég kynntist ykkur fyrst.

Fyrirbæn Móse

25 Ég varpaði mér niður frammi fyrir Drottni og lá frammi fyrir honum í fjörutíu daga og fjörutíu nætur af því að Drottinn hafði sagst ætla að tortíma ykkur. 26 Og ég bað til Drottins og sagði: „Drottinn Guð, eyddu ekki þjóð þinni, erfðahlut þínum sem þú endurleystir með þínum mikla mætti og leiddir sterkri hendi út úr Egyptalandi. 27 Minnstu þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Jakobs, lít ekki á harðýðgi þessa fólks, rangindi þess og synd 28 svo að ekki verði sagt í landinu sem þú leiddir okkur út úr: Drottinn getur ekki leitt þá inn í landið, sem hann hét þeim, og af því að hann hatar þá leiddi hann þá út í eyðimörkina til þess að láta þá deyja. 29 En þeir eru samt þjóð þín og erfðahlutur þinn sem þú leiddir út með þínum mikla mætti og útréttum armi.“