1 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.
2Guð er oss hæli og styrkur,
örugg hjálp í nauðum.
3Því óttumst vér eigi þótt jörðin haggist
og fjöllin steypist í djúp hafsins,
4þótt vötnin dynji og ólgi,
þótt fjöllin riði af ofsa þeirra. (Sela)
5Elfur kvíslast og gleðja Guðs borg,
heilagan bústað Hins hæsta.
6Guð býr í henni miðri, hún bifast ekki,
Guð hjálpar henni þegar birtir af degi.
7Þjóðir geisuðu, ríki riðuðu,
raust hans þrumaði, jörðin nötraði.
8Drottinn hersveitanna er með oss,
Jakobs Guð vort vígi. (Sela)
9Komið, sjáið dáðir Drottins,
hann veldur eyðingu á jörðu.
10Hann stöðvar stríð til endimarka jarðar,
brýtur bogann, mölvar spjótið,
brennir skildi í eldi.
11Hættið og játið að ég er Guð,
hafinn yfir þjóðir, upphafinn á jörðu.
12Drottinn hersveitanna er með oss,
Jakobs Guð vort vígi. (Sela)