Óg konungur sigraður

1 Þegar við snerum á leið upp til Basan kom Óg, konungur í Basan, ásamt öllum her sínum til að berjast við okkur hjá Edreí. 2 Þá sagði Drottinn við mig: „Óttastu hann ekki. Ég hef selt hann, allan her hans og land í þínar hendur. Farðu með hann eins og þú fórst með Síhon, konung Amoríta, sem ríkti í Hesbon.“
3 Drottinn, Guð okkar, seldi einnig Óg, konung í Basan, allan her hans og land okkur í hendur. Við sigruðum hann og létum engan komast undan. 4 Þá tókum við allar borgir hans. Engin var sú borg að við næðum henni ekki frá þeim. Við tókum sextíu borgir, allt Argóbhérað, konungsríki Ógs í Basan. 5 Allar þessar borgir voru víggirtar háum múrum, hliðum með tveimur vængjum og slagbröndum. Auk þeirra voru fjölmörg óvíggirt þorp. 6 Við helguðum þessar borgir banni, fórum með þær eins og Síhon, konung í Hesbon, og helguðum jafnt karla, konur og börn banni 7 en tókum allt búfé og ránsfenginn úr borgunum herfangi.
8 Þá tókum við úr höndum beggja konunga Amoríta landið austan Jórdanar, frá Arnonfljóti að Hermonfjalli. 9 Sídoningar nefna Hermon Sirjon en Ammónítar Senír. 10 Við tókum allar borgirnar á hásléttunni, allt Gíleað, allt Basan allt til Salka og Edreí, allar borgir í konungsríki Ógs í Basan. 11 En Óg, konungur í Basan, var einn eftir af Refaítum. Rúm hans var úr járni. Er það ekki í Rabba, höfuðborg Ammóníta? Það er níu álna langt og fjögurra álna breitt, mælt með venjulegu alinmáli. 12 Þetta er landið sem við tókum til eignar. Ég fékk Rúben og Gað svæðið frá Aróer, sem er við Arnondalinn, ásamt hálfu Gíleaðfjalllendi og borgunum þar.
13 Það sem eftir var af Gíleað og allt Basan, sem hafði verið hluti af konungsríki Ógs, allt Argóbhérað, fékk ég hálfum ættbálki Manasse. Allt Basan kallast land Refaíta.
14 Jaír, sonur Manasse, tók Argóbhéraðið að landi Gesúríta og Maakatíta og gaf því nafn sitt, nefndi Basan Havót Jaír eins og það heitir enn í dag.
15 Makír fékk ég Gíleað 16 en afkomendum Rúbens og Gaðs fékk ég landið frá Gíleað og að Arnoná, miðjan dalinn og landið sem honum fylgdi, allt að Jabboká sem er á landamærum Ammóníta. 17 Enn fremur fékk ég þeim Jórdanardal og Jórdan ásamt landinu umhverfis, frá Genesaretvatni [ að Arabavatni sem er salta vatnið [ undir Pisgahlíðum austan megin.

Landnám vestan við Jórdan undirbúið

18 Eftirfarandi fyrirmæli gaf ég ykkur og sagði: „Drottinn, Guð ykkar, hefur fengið ykkur þetta land svo að þið takið það til eignar. Nú skuluð þið allir, sem vopnfærir eruð, halda tygjaðir til orrustu yfir Jórdan í fararbroddi bræðra ykkar, Ísraelsmanna. 19 En konur ykkar, börn og fénaður – ég veit að þið eigið mikinn fénað – eiga að vera um kyrrt í borgunum sem ég hef gefið ykkur. 20 Þegar Drottinn hefur veitt bræðrum ykkar hvíld eins og ykkur og þeir hafa einnig tekið landið til eignar sem Drottinn, Guð ykkar, gefur þeim handan við Jórdan, megið þið snúa aftur, hver til þess eignarlands sem ég hef gefið ykkur.“
21 Þá gaf ég Jósúa svohljóðandi fyrirmæli: „Þú hefur séð með eigin augum allt það sem Drottinn, Guð ykkar, hefur gert þessum tveimur konungum. Það sama mun Drottinn gera öllum konungsríkjunum sem þú ferð til handan árinnar. 22 Óttist þau ekki því að Drottinn, Guð ykkar, berst sjálfur fyrir ykkur.“
23 Í sama mund bað ég Drottin um miskunn og sagði: 24 „Drottinn Guð. Þú ert nú tekinn að sýna mér, þjóni þínum, mátt þinn og sterka hönd þína. Hver er sá guð, á himni eða jörðu, sem hefur unnið slíkar dáðir og máttarverk sem jafnast á við þín? 25 Leyf mér að fara yfir ána og sjá landið góða handan Jórdanar, fjalllendið fagra og Líbanon.“
26 En Drottinn hafði reiðst mér ykkar vegna og hann bænheyrði mig ekki. Drottinn sagði við mig: „Nóg um það. Nefndu þetta aldrei framar við mig. 27 Farðu upp á Pisgatind og horfðu í vestur, norður, suður og austur og litastu um því að yfir Jórdan munt þú ekki komast. 28 Skipaðu Jósúa foringja, stappaðu í hann stálinu því að hann skal fara fyrir þessu fólki yfir ána og skipta einnig landinu, sem þú færð að sjá, í erfðahluti milli þeirra.“ 29 Dvöldumst við nú um hríð í dalnum gegnt Bet Peór.