Sál og Davíð

Davíð smurður til konungs

1 Drottinn sagði við Samúel:
„Hversu lengi ætlarðu að vera sorgmæddur vegna Sáls? Ég hef hafnað honum sem konungi yfir Ísrael. Fylltu horn þitt af olíu og haltu af stað. Ég sendi þig til Ísaí frá Betlehem því að ég hef valið mér einn af sonum hans til að verða konungur.“ 2 Samúel svaraði: „Hvernig get ég farið þangað? Sál drepur mig ef hann fréttir þetta.“ Þá sagði Drottinn: „Taktu með þér kvígu og segðu: Ég er kominn til að færa Drottni fórn. 3 Síðan skaltu bjóða Ísaí til fórnarveislunnar og ég mun láta þig vita hvað þú átt að gera. Þann sem ég nefni skaltu smyrja mér.“
4 Samúel gerði eins og Drottinn bauð. Þegar hann kom til Betlehem gengu öldungar borgarinnar skelfdir á móti honum og spurðu: „Kemur þú með friði?“ 5 Hann svaraði: „Já, ég er kominn til að færa Drottni fórn. Helgið ykkur og komið með mér til fórnarveislunnar.“ Síðan helgaði hann Ísaí og syni hans og bauð þeim til fórnarveislunnar.
6 Þegar þeir komu og Samúel sá Elíab hugsaði hann: „Hér stendur Drottins smurði áreiðanlega frammi fyrir honum.“ 7 En Drottinn sagði við Samúel: „Horfðu ekki á hæð hans og glæsileik því að ég hef hafnað honum. Guð lítur ekki á það sem maðurinn lítur á. Maðurinn sér hið ytra en Drottinn horfir á hjartað.“
8 Þá kallaði Ísaí á Abínadab og lét hann ganga fyrir Samúel en hann sagði: „Ekki hefur Drottinn heldur valið þennan.“
9 Síðan lét Ísaí Samma ganga fram en hann sagði: „Ekki hefur Drottinn heldur valið þennan.“
10 Ísaí lét syni sína sjö ganga fram fyrir Samúel en Samúel sagði við Ísaí: „Engan þeirra hefur Drottinn valið.“
11 Því næst spurði Samúel Ísaí: „Eru þetta allir synir þínir?“ Hann svaraði: „Þann yngsta vantar enn því að hann situr yfir fénu.“ Þá sagði Samúel við Ísaí: „Sendu einhvern eftir honum. Við setjumst ekki til borðs fyrr en hann er kominn.“ 12 Ísaí sendi þá mann eftir Davíð sem var rauðbirkinn, fagureygur og vel vaxinn. Þá sagði Drottinn: „Stattu upp og smyrðu hann því að þetta er hann.“
13 Samúel tók þá olíuhornið og smurði hann að bræðrum hans viðstöddum. Andi Drottins kom yfir Davíð frá þessum degi. En Samúel hélt af stað og fór til Rama.

Davíð við hirð Sáls

14 Andi Drottins hafði þá yfirgefið Sál en illur andi frá Drottni var tekinn að þjaka hann. 15 Þjónar Sáls sögðu þá við hann: „Það er illur andi frá Guði sem sífellt þjakar þig. 16 Herra okkar þarf ekki annað en nefna það, þá skulu þjónar þínir, sem bíða frammi fyrir þér, leita að einhverjum sem kann að leika á hörpu. Hann getur leikið á hljóðfærið og þá líður þér betur þegar illi andinn frá Guði kemur yfir þig.“
17 Sál sagði þá við þjóna sína: „Finnið fyrir mig mann, sem leikur vel á hljóðfæri, og komið með hann til mín.“ 18 Þá svaraði einn þjónanna og sagði: „Ég þekki son Ísaí frá Betlehem sem kann að leika á hljóðfæri. Auk þess er hann hraustmenni og góður hermaður. Hann er vel máli farinn og vel vaxinn og Drottinn er með honum.“
19 Þá gerði Sál menn á fund Ísaí með þessi skilaboð: „Sendu Davíð, son þinn, sem gætir fjárins, til mín.“ 20 Ísaí sótti þá asna, lagði á hann brauð, vínbelg og kiðling og sendi það með Davíð, syni sínum, til Sáls. 21 Þannig kom Davíð til Sáls og gekk í þjónustu hans. Sál féll mjög vel við hann og varð Davíð skjaldsveinn hans. 22 Sál sendi því skilaboð til Ísaí: „Davíð á að vera áfram í þjónustu minni því að mér fellur hann vel í geð.“ 23 Alltaf þegar illi andinn frá Guði kom yfir Sál tók Davíð hörpuna og lék á hana. Þá létti Sál og honum leið betur og illi andinn yfirgaf hann.