Gegn prestum

1 Prestar, takið þetta til ykkar: 2 Ef þið hlustið ekki og látið ykkur ekki umhugað um að halda nafn mitt í heiðri, segir Drottinn hersveitanna, sendi ég bölvunina yfir ykkur og sný blessun ykkar í bölvun. Já, ég sný henni í bölvun því að þið hafið ekki gætt þessa heils hugar. 3 Sjá, ég ógna uppskeru ykkar[ og eys ásjónur ykkar auri, saurnum frá hátíðum ykkar, og varpa ykkur á haugana frá þeim. 4 Þá skuluð þið játa að ég hef skipað ykkur þetta svo að sáttmáli minn við Leví fengi staðist, segir Drottinn hersveitanna. 5 Sáttmáli minn var honum líf og heill, hvort tveggja gaf ég honum og guðsótta að auki. Hann átti að óttast mig og sýna nafni mínu lotningu. 6 Sönn kenning var í munni hans og svik fundust ekki á vörum hans. Hann fylgdi mér í friði og heils hugar og sneri mörgum frá syndugu líferni. 7 Því að varir prestsins varðveita þekkingu og menn leita lögmálsfræðslu af munni hans því að hann er boðberi Drottins hersveitanna. 8 En þið hafið vikið af veginum og fellt marga með leiðsögn ykkar. Þið hafið spillt sáttmálanum við Leví, segir Drottinn hersveitanna. 9 Ég geri ykkur fyrirlitlega og niðurlægi ykkur frammi fyrir öllu fólkinu af því að þið fylgið ekki mínum vegum og eruð hlutdrægir þegar þið leiðbeinið.

Rofinn sáttmáli Guðs og Ísraels

10 Eigum við ekki öll sama föður? Hefur einn og sami Guð ekki skapað okkur? Hvers vegna erum við þá svikul hvert við annað og vanhelgum sáttmála feðra okkar? 11 Júda hefur svikið og svívirða er drýgð í Ísrael og Jerúsalem því að Júda hefur vanhelgað helgidóm Drottins sem hann elskar. Hann hefur tekið sér dóttur framandi guðs fyrir konu. 12 Drottinn svipti þann sem slíkt gerir bæði verjanda og sækjanda í tjöldum Jakobs og svipti hann einnig þeim sem færir Drottni hersveitanna fórnargjafir. 13 Að auki gerið þið þetta: Þið hyljið altari Drottins með tárum, með gráti og kveini, því að hann lítur ekki lengur við fórnargjöfunum, þiggur þær ekki framar með gleði úr höndum ykkar. 14 „Hvers vegna?“ spyrjið þið. Það er sökum þess að Drottinn var vottur að hjúskaparsáttmála þínum og konunnar sem þú eignaðist í æsku en þú hefur svikið, þótt hún sé förunautur þinn og eiginkona. 15 Hefur Drottinn ekki gert þau eitt, eina lifandi veru? Til hvers var þessi eining? Að eignast börn frá Guði. Gætið ykkar þess vegna svo lengi sem þið lifið. Svíktu ekki konuna sem þú eignaðist í æsku. 16 Hafi einhver andúð á konu sinni og sendi hana frá sér, segir Drottinn, Guð Ísraels, þá flekkar hann klæði sín með ranglæti, segir Drottinn hersveitanna. Gætið ykkar því á meðan þið lifið og bregðið ekki trúnaði.

Dagur dómsins

17 Þið þreytið Drottin með orðum ykkar. Þið spyrjið: „Með hverju þreytum við hann?“ Með því að segja: „Sérhver illvirki er góður í augum Drottins, honum þykir vænt um slíka menn,“ eða: „Hvar er Guð sem dæmir?“