Jósafat deyr

1 Jósafat var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn hjá þeim í borg Davíðs. Jóram, sonur hans, varð konungur eftir hann.
2 Bræður hans, synir Jósafats, voru: Asarja, Jehíel, Sakaría, Asarjahú, Míkael og Sefatja. Allir voru þeir synir Jósafats Júdakonungs. 3 Faðir þeirra hafði gefið þeim miklar gjafir, silfur, gull og aðrar gersemar ásamt víggirtum borgum í Júda. En konungdóminn fékk hann Jóram í hendur af því að hann var frumburðurinn.
4 Þegar Jóram hafði hafið sig til konungstignar föður síns og fest sig í sessi drap hann alla bræður sína með sverði ásamt nokkrum af höfðingjum Ísraels.

Jóram konungur Júda

5 Jóram var þrjátíu og tveggja ára þegar hann varð konungur og ríkti átta ár í Jerúsalem. 6 Hann fetaði í fótspor Ísraelskonunga eins og ætt Akabs hafði gert enda var dóttir Akabs eiginkona hans. Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. 7 Þrátt fyrir það vildi Drottinn ekki eyða ætt Davíðs vegna sáttmálans sem hann hafði gert við Davíð og af því að hann hafði heitið að gefa honum og sonum hans lampa sem stæði alla tíð.
8 Um daga Jórams brutust Edómítar undan valdi Júda og tóku sér sinn eigin konung. 9 Jóram hélt þá gegn þeim ásamt höfðingjum sínum með alla hervagna sína. Um nóttina réðst hann á Edómíta sem höfðu umkringt hann og foringja vagnliðsins. 10 En Edóm braust undan valdi Júda og hefur verið sjálfstætt til þessa dags. Á sama tíma braust Líbna einnig undan valdi hans því að Jóram hafði yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna. 11 Hann reisti meira að segja fórnarhæðir á fjöllunum í Júda og afvegaleiddi Jerúsalembúa og tældi Júdamenn til fráfalls.
12 Þá barst honum bréf frá Elía spámanni og þar stóð: „Svo segir Drottinn, Guð Davíðs, föður þíns: Þar sem þú hefur ekki breytt eins og Jósafat, faðir þinn, og Asa Júdakonungur, 13 heldur eins og Ísraelskonungar og hefur afvegaleitt Júdamenn og Jerúsalembúa eins og ætt Akabs hefur gert og þar sem þú hefur drepið bræður þína sem voru betri en þú, þína eigin ættmenn, 14 þá mun Drottinn ljósta þjóð þína, syni, konur og allt sem þú átt, þungum höggum. 15 Sjálfur muntu taka þunga sótt og líða langvinnar innvortis kvalir þar til innyflin ganga út úr þér vegna sjúkdómsins.“

Jóram deyr

16 Nú eggjaði Drottinn Filistea og þá Araba, sem búa nærri Kússítum, til fjandskapar gegn Jóram. 17 Þeir héldu til árása á Júda, réðust á landið og höfðu á brott með sér allar eigur konungsfjölskyldunnar sem þeir fundu, einnig syni konungs og konur. Af sonum hans var aðeins Jóahas, yngsti sonurinn, skilinn eftir. 18 Eftir allt þetta sló Drottinn hann ólæknandi iðrasjúkdómi. 19 Að alllöngum tíma liðnum, nær tveimur árum, gengu iðrin út úr honum vegna sjúkdómsins og hann dó kvalafullum dauða. Þjóð hans kveikti ekki bál honum til heiðurs eins og gert hafði verið fyrir feður hans. 20 Hann var þrjátíu og tveggja ára þegar hann varð konungur og ríkti átta ár í Jerúsalem. Hann lést án þess að nokkur syrgði hann. Hann var grafinn í borg Davíðs en þó ekki í gröfum konunganna.