XXI.

Og Jósafat sofnaði með sínum feðrum og var jarðaður með þeim í borg Davíðs og hans son Jóram tók kóngdóm eftir hann. [ Og hann átti marga bræður, allir synir Jósafat: Asarjam, Jehíel, Sakaríam, Asarjam, Míkael og Sefatja. Þessir allir voru synir Jósafat Júdakóngs. Og þeirra faðir gaf þeim margar gáfur í silfri, gulli og gersemum og sterkar borgir í Júda. En Jóram gaf hann ríkið því hann var frumgetinn.

Nú sem Jóram var staðfestur yfir síns föðurs kóngsríki og varð megtugur þá drap hann alla sína bræður með sverði, svo og nokkra af höfðingjum í Ísrael. [ Jóram hafði þrjátígi og tvö ár þá hann varð kóngur og ríkti átta ár í Jerúsalem. Og hann gekk á Ísraelskónga vegum so sem Akabs hús gjörði. Því dóttir Akabs var hans eiginkvinna. Og hann gjörði það sem Drottni mislíkaði. En þó vildi Drottinn ekki með öllu eyðileggja Davíðs hús sökum þess sáttmála sem hann hafði bundið við Davíð og sem hann hafði lofað að gefa honum og hans sonum ætíð eitt ljós.

Á hans dögum féllu Edomiter frá Júda og settu einn kóng yfir sig. [ Því að Jóram var farinn yfir um með sínum höfðingjum og allir vagnar með honum og hann tók sig upp á náttarþeli og sló Edóm allt um kring þar hann var og þá hinu yppustu fyrir vögnunum og því féllu Edomiter frá Júda allt til þessa dags. Þennan sama tíma féllu og Líbna frá honum. [ Því hann fyrirleit Drottin Guð sinna feðra og gjörði hæðir á fjöllum Júda og kom innbyggjurum í Jerúsalem til að fremja hór og afvegaleiddi Júda.

Og þar kom eitt bréf til hans frá Elía spámanni. [ Það var svo látandi: „Svo segir Drottinn Guð þíns föðurs Davíðs: Sökum þess að þú hefur ekki gengið á vegi þíns föðurs Jósafat og eigi heldur á vegi Asa Júdakóngs heldur hefur þú gengið í Ísraelskónga vegum og gjörir það að innbyggjendur Júda og Jerúsalem fremja hór eftir Akabs húss hórdómi, þar að auk hefur þú drepið þína bræður af þíns föðurs húsi hverjir eð betri voru en þú, sjá, so skal Drottinn slá þig með stórri plágu, þitt fólk, þín börn, þínar kvinnur og allt það þú átt og þú skalt hafa inn vesta sjúkdóm í þínum iðrum þar til að innyflin skulu af sjúkdómi falla frá þér dag frá degi.“

Svo uppvakti Drottinn í mót Jóram anda Philisteorum og Arabum sem að liggja hartnærri Blálandi. Og þeir drógu upp til Júda, yfirunnu hana og í burt færðu allt það fé sem að fannst í kóngsins húsi, þar með hans syni og hans kvinnur, svo hann hélt ekki eftir neinum sínum syni utan Jóakas hver að var hans yngsti son. Og eftir allt þetta sló Drottinn hann í hans iðrum með sjúkdómi ólæknanlegum og það varaði dag frá degi þar til tvö ár voru liðin, þá féllu hans iður frá honum af hans sjúkleika so hann dó illum dauða. Og þeir brenndu ekkert bál yfir honum svo sem þeir höfðu gjört yfir hans forfeðrum. Hann var tólf og tuttugu ára gamall þá hann varð kóngur og hann ríkti átta ár yfir Jerúsalem. Og hann gekk ekki réttilega. Og þeir jörðuðu hann í Davíðsstað en þó ekki á meðal annarra kóngaleiða.