1 Á fyrsta ári Daríusar hins medíska tók ég mér stöðu til að efla hann og styrkja.

Konungar Sýrlands og Egyptalands

2 Og nú mun ég segja þér hið sanna: Þrír konungar munu enn komast til valda í Persíu og verður hinn fjórði þó mun auðugri en allir hinir. Með valdi því sem auður hans færir honum mun hann egna alla gegn ríki Grikkja.
3 Þá mun herkonungur koma fram, auðugur að löndum, og láta allt ganga að geðþótta sínum. 4 En eftir að hann er kominn fram mun konungsríki hans sundrast og tvístrast með fjórum höfuðvindum himins. Ekki mun það ganga til erfingja hans og ekki verður veldi þess slíkt sem hann réð því að það mun sundrast og falla í hendur öðrum en þeim.
5 En konungur suðursins mun eflast að mætti. Þó mun einn höfðingja hans yfirbuga hann, svipta hann völdum og eignast víðlent ríki.
6 Nokkrum árum síðar munu þeir mægjast. Dóttir konungs suðursins mun koma til konungs norðursins til að staðfesta þann sáttmála en mætti sínum mun hún ekki halda og máttur hans mun einnig dvína. Hún verður framseld með fylgdarliði sínu, föður og eiginmanni.
Á þessum tíma 7 mun spretta fram kvistur af ætt hennar. Hann mun halda gegn hernum og komast inn í virki konungsins í norðri. Þar mun hann berjast við menn og yfirbuga þá. 8 Guði þeirra mun hann einnig taka, steyptu líkneskin þeirra og hin dýrmætu gull- og silfurker mun hann flytja með sér til Egyptalands sem herfang. Um nokkurra ára skeið mun hann láta konung norðursins í friði 9 en hann mun síðar ráðast inn í ríki konungsins í suðri og halda þó aftur heim til ríkis síns. 10 Synir hans munu heyja stríð og draga saman afar mikinn liðsafla. Og hann mun æða fram og fara yfir sem flóðbylgja og heyja enn stríð allt að höfuðvirki sínu.
11 Þá mun konungur suðursins fyllast heift og halda til orrustu við hann, við konung norðursins. Hann mun safna að sér miklu liði en allt lið hans mun komast undir vald hins. 12 Ofurdramb mun grípa hann þegar liðið verður numið burt. Hann mun verða tugþúsundum að fjörtjóni en þó ekki fara með sigur af hólmi.
13 Þá mun konungur norðursins draga saman liðsafla, enn fjölmennari en hinn fyrri. Að nokkrum tíma liðnum, fáum árum síðar, mun hann halda af stað með mikinn her og mikinn vígbúnað.
14 Um þær mundir munu margir snúast gegn konungi suðursins og ofríkisfullir samlandar þínir munu beita sér fyrir því að sýnin gangi eftir en það mun þeim ekki takast. 15 Konungur norðursins mun halda fram för sinni, hlaða virkisveggi og vinna virkisborg en herir suðursins munu ekki fá rönd við reist, jafnvel úrvalsliðið fær þá engum vörnum við komið. 16 Og árásarmaðurinn mun fara að geðþótta sínum því að enginn fær staðist hann. Hann mun ná fótfestu í landinu fagra og hafa eyðingu þess í hendi sér. 17 Hann mun einbeita sér að því að ráðast að öllum virkisborgum um allt ríki hins. En til að eyða því mun hann gera við hann sáttmála og gifta honum dóttur sína. En þetta mun ekki takast og ekkert mun af því hljótast. 18 Hann mun þá snúa sér að eyjunum og vinna margar en erindreki nokkur mun binda enda á offors hans og láta það koma yfir hann sjálfan. 19 Hann mun þá halda aftur til virkisborga lands síns en hrasa og falla og að engu verða.
20 Í stað hans kemur annar og mun sá senda embættismann til skattheimtu, konungi til dýrðar, en að fáum dögum liðnum verður honum tortímt, þó hvorki í reiði né vígaferlum.

Hinn illi konungur Sýrlands

21 Sess hans mun skipa fyrirlitlegur maður án konungstignar. Hann mun koma öllum að óvörum og ná konungsríkinu með lævísi. 22 Hann mun yfirbuga og brjóta á bak aftur herflokka sem flæða yfir, einnig höfðingja sáttmálans. 23 Og hverju sinni, sem menn bindast sáttmálum við hann, mun hann beita brögðum, og völdum mun hann ná með fulltingi fámenns herflokks. 24 Hann mun ráðast að óvörum inn í auðsælustu héruð og gera það sem hvorki faðir hans né forfeður gerðu áður, flytja ríkulegar gjafir herfangs, stolins fjár og auðæfa. Hann mun ráðgera hernað gegn virkisborgum en þó aðeins um skamma hríð.
25 Síðan mun hann beina þrótti sínum og kjarki með miklum liðsafla gegn konungi suðursins. Konungur suðursins mun heyja stríð og tefla gegn honum miklum og illvígum her en bíða þó lægri hlut því að vélabrögðum verður beitt gegn honum. 26 Mötunautar hans munu verða honum að falli. Her hans verður yfirbugaður og mannfallið mikið. 27 Báðir munu konungarnir hafa illt í hyggju. Þeir munu snæða saman en ræðast þó við af fláttskap. Ekkert mun af því hljótast því að enn er þeim annað fyrirhugað. 28 Hann mun snúa aftur til lands síns með mikinn auð og hyggja á vélráð gegn hinum heilaga sáttmála. Og er hann hefur farið að geðþótta sínum mun hann hverfa aftur til heimalands síns.
29 Á settum tíma mun hann aftur ráðast gegn Suðurlandinu en sú för verður ekki sem hin fyrri 30 því að skip Kitta[ munu koma á móti honum og hann mun láta hugfallast og halda heimleiðis og snúa reiði sinni gegn hinum heilaga sáttmála og láta hann kenna á henni. Síðan mun hann hverfa heim aftur og reynast vilhallur þeim sem hafa yfirgefið sáttmálann.
31 Hann mun draga saman liðsafla, vanhelga helgidóminn og vígið, afnema hina daglegu fórn en reisa þar viðurstyggð eyðingarinnar. 32 Mjúkmáll og smjaðrandi verður hann við þá sem fremja illt gegn sáttmálanum en þeir munu standa stöðugir sem sýna hollustu Guði sínum. 33 Hinir hyggnu meðal þjóðarinnar munu veita mörgum skilning en um skeið munu þeir falla fyrir sverði og eldi og þola útlegð og eignamissi. 34 Eftir þann ósigur mun fátt berast þeim til hjálpar og margir flærðarmenn munu ganga til liðs við þá. 35 Sumir hyggindamannanna munu falla svo að þeir verði skírðir, hreinsaðir og þoli raunir allt til endalokanna því að enn dregst undan hin ásetta stund.
36 Konungurinn mun fara að geðþótta sínum, hreykja sér, skipa sér ofar öllum guðum og mæla gífuryrði gegn Guði guðanna. Og allt mun snúast honum í hag uns reiðin er á enda en þá mun koma fram það sem fyrr var ákveðið. 37 Hann mun hvorki virða guð forfeðra sinna né þann guð sem er konum kær. Hann mun engan guð virða en hreykja sér yfir allt. 38 En hann mun þess í stað dýrka guð víggirðinganna og heiðra með gulli og silfri, dýrum steinum og hvers kyns verðmætum, guð sem forfeður hans þekktu ekki. 39 Með fulltingi framandi guðs mun hann verja hin rammgerðu vígi og sæmd mun hann veita þeim sem viðurkenna hann, fá þeim mannaforráð yfir mörgum og úthluta þeim landi að launum.

Endalokin og upprisan

40 Að endalokum mun konungur suðursins snúast gegn honum en konungur norðursins mun ráðast á hann með hervögnum, riddurum og miklum skipaflota, brjótast inn í löndin og geysast yfir þau eins og flóðbylgja. 41 Hann mun einnig ráðast inn í landið fagra. Mannfall verður mikið en þessir munu þó ganga honum úr greipum: Edómítar, Móabítar og meiri hluti Ammónsniðja. 42 Hann mun slá eign sinni á löndin, jafnvel Egyptaland mun ekki bjargast. 43 Hann mun koma höndum yfir gull- og silfursjóðina og öll dýrindi Egyptalands, og Líbíumenn og Eþíópíumenn munu fylgja honum. 44 Þá munu fréttir að austan og norðan skjóta honum skelk í bringu, hann mun halda til vígaferla í mikilli bræði og eyða og tortíma mörgum. 45 Hann mun slá upp konungstjaldi sínu milli hafsins og hins fagra heilaga fjalls en þá mun hann mæta örlögum sínum og enginn verður til hjálpar.