D

Ester gengur fyrir konung

1 Ester lauk bæn sinni á þriðja degi, fór úr iðrunarbúningi sínum og bjóst skartklæðum. 2 Er hún var orðin hin glæsilegasta ásýndum og hafði ákallað Guð, sem sér allt og frelsar, tók hún báðar þernur sínar með sér. 3 Hún studdist léttilega við aðra 4 en hin fylgdi á eftir og bar slóða hennar. 5 Ester var rjóð í vöngum, geislaði af fegurð og yfirlit hennar var glaðlegt og þokkafullt þótt henni væri þungt um hjarta af ótta. 6 Hún gekk um einar dyr af öðrum uns hún stóð andspænis konungi. Hann sat í hásæti sínu og var búinn öllu sínu hefðarstássi. Sá vart í hann fyrir gulli og gimsteinum og var hann ógnvekjandi ásýndum. 7 Þegar hann hóf upp auglit sitt, sem hátignarljóma stafaði af, leiftruðu augu hans af reiði. Þá fölnaði drottningin og hné máttvana niður og hallaði höfði að þernunni sem fyrir henni fór. 8 En Guð sneri huga konungs til mildi og spratt hann áhyggjufullur upp úr hásæti sínu, tók hana í fangið þar til hún kom til sjálfrar sín, huggaði hana blíðlega 9 og sagði: „Hvað er að, Ester? Vertu óhrædd. Ég er bróðir þinn. 10 Þú skalt ekki deyja. Fyrirmæli mín eiga aðeins við um almúgann. 11 Komdu.“ 12 Síðan lyfti hann gullnum veldissprota sínum og lagði hann við háls hennar, faðmaði hana og sagði: „Segðu mér frá.“ 13 En hún svaraði: „Þegar ég sá þig, herra, varst þú líkastur engli Guðs. Dýrð þín fyllti hjarta mitt ótta. 14 Þú ert svo undursamlegur, herra, og ásjóna þín geislar af yndisþokka.“ 15 En sem hún sagði þetta seig hún saman í öngviti. 16 Varð konungi bilt við og allt þjónustulið hans reyndi að stappa í hana stálinu.

Ester býður konungi og Haman til veislu

3 „Hvað er það sem þú vilt, Ester?“ spurði konungur. „Þú skalt fá hvað sem þú biður um þótt þú viljir hálft ríki mitt.“ 4 „Í dag held ég hátíð,“ svaraði Ester. „Ef konunginum þóknast, þá komi hann og Haman til veislunnar sem ég held í dag.“ 5 Konungur sagði: „Sækið Haman sem skjótast svo að vér getum gert eins og Ester vill.“
Þeir komu síðan báðir til veislunnar sem Ester hafði talað um. 6 Meðan setið var að drykkju spurði konungur Ester: „Hvað er það, Ester drottning? Þú skalt fá hvað sem þú biður um.“ 7 Hún svaraði: „Það sem ég óska og bið um er þetta: 8 Hafi ég fundið náð fyrir augum konungs, þá komi konungur og Haman á morgun til veislu sem ég ætla að halda þeim. Mun sú á morgun verða eins og þessi.“

Haman afræður að deyða Mardokaí

9 Haman hélt sæll og glaður frá konungi. En er hann sá Mardokaí Gyðing í hallargarðinum fylltist hann bræði. 10 Þegar hann kom heim kallaði hann á vini sína og Sósöru konu sína. 11 Hældist hann um af auði sínum fyrir þeim og hve konungur hefði auðsýnt honum mikinn heiður með því að gera hann fremstan allra að tign og fela honum stjórn ríkisins. 12 „Ekki bauð drottningin neinum nema mér til veislunnar með konungi,“ sagði Haman „og mér er líka boðið á morgun. 13 En ég hef enga ánægju af þessu þar sem ég þarf að horfa upp á Gyðinginn Mardokaí í hallargarðinum.“ 14 Sósara kona hans og vinir hans sögðu þá: „Láttu gera fyrir þig gálga, fimmtíu álna háan. Snemma í fyrramálið skaltu biðja konung um að Mardokaí verði hengdur upp í hann. Þá getur þú farið með konunginum til veislunnar og notið hennar.“ Þetta þótti Haman góð hugmynd og gálginn var útbúinn.