III.
Þá andvarpaði Tóbías og tók til að gráta og biðjast fyrir, so segjandi: [
„Réttlátur ertu, Drottinn minn, og allar gjörðir þínar eru réttar og einsaman góðgirni og trúnaður. Og nú, Drottinn minn, vert mér miskunnsamur og tak eigi hefnd á syndum mínum. Endurminnstu eigi minna eður feðra vorra misgjörða. Því að fyrst að vér höfum þín boðorð ei haldið so erum vér og seldir í vald óvinum vorum að þeir ræni oss, herteknum haldi og drepi og erum vér til skammar, spottanar og háðungar orðnir af því framandi fólki þangað sem þú hefur dreift oss. Og nú, Drottinn, ógurlegir eru þínir dómar af því að vér höfum ekki geymt þín boðorð og ekki réttilega framgengið í þínu augliti. Ó Drottinn, sýn mér miskunn og taktu í burtu í friði minn anda því nú kýs eg heldur að deyja en að lifa.“
So bar til þann sama dag að Sara, dóttir Ragúel, í borginni Medorum Rages, varð og so af einni ambátt föðurs hennar illa skammyrt og löstuð, hver eð gift hafði verið sjö mönnum hverjum eftir annan og einn illur andi, Asmódíus að nafni, hafði drepið þá alla jafnsnart sem þeir skyldu hjá henni hvíla. [ Þar fyrir hrópaði hana hennar föðurs ambátt og sagði: „Guð gefi að aldreigi sjáum vér af þér á jarðríki hverki son né dóttur, þú mannamorðingjan þín! Viltu og drepa mig einnin líka sem þú hefur drepið sjö bændur þína?“
Við þessi orð gekk hún í eitt loft upp í húsinu og át hverki né drakk í þrjá daga og þrjár nætur og létti ekki af bæn og tárum, bað Guð að hann frelsaði hana af því brígsli.
Á hinum þriðja degi þar eftir, þá hún hafði lokið bæn sinni, lofaði hún Guð og sagði: [ „Blessað sé nafn þitt, Drottinn, sem ert Guð feðra vorra, því að þegar þú reiðist þá tjáir þú náð og góðgirnd og í hryggðinni fyrirgefur þú syndirnar þeim er þig ákalla. Til þín, Drottinn minn, sný eg minni ásjónu, til þín upplyfti eg mínum augum, biðjandi þig að þú frelsir mig af þessu vondu brígsli ella takir þú mig í burtu héðan. Þú veist, Drottinn, að eg hefi ekki nokkurn mann girnst. Og hefi eg varðveitt aund mína flekklausa af öllum vondum losta og hefi ekki nokkurn tíma samlagað mig óhæverskum og lauslátum selskap. Einum manni að giftast hefi eg samþykk orðið í þínum ótta en ekki fyrir mína lostasemi. Og hefi eg annað hvert verið þeirra eður þeir mín óverðugir og má vel ske að þú hafir mig varðveitt öðrum manni til handa. Því að þitt ráð stendur ekki í nokkurs manns valdi.
En það veit eg sannarlega, þeim sem Guði þjónar mun eftir freistingina veitast huggun og mun hann af hryggðinni frelsaður verða og eftir hirtingina finnur hann miskunn. Því að þú hefur öngva þóknan á vorri glötun. Og eftir óveðráttuna lætur þú sólina skína og eftir grát og kveinan blessar þú oss með fögnuði ríkuglega. Þínu nafni sé eilíft lof og dýrð, þú Guð Ísrael.“
Og á þeirri sömu stundu urðu beggja þeirra bænir heyrðar af Drottni á himnum. Og engill Drottins, hinn heilagi Rafael, var sendur út til hjálpar báðum þeim af því að þeirra bænir komu fyrir Drottin á einni og sömu stundu. [