IX.
Og eftir sex daga tók Jesús með sér Petrum, Jacobum, Johannem og veik þeim einumsömum upp á eitt hátt fjall og forkláraðist fyrir þeim. [ Hans klæði urðu skínandi og næsta hvít sem snjár so að enginn litunarmaður á jörðu kann so hvítt að gjöra. Þeim birtist og Elías með Moyse og voru þar talandi við Jesúm. Pétur svaraði og sagði til Jesú: „Rabbí, gott er oss hér að vera. Og gjörum hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Moyse eina og Elie eina.“ En hann vissi eigi sjálfur hvað hann sagði af því þeir voru óttaslegnir. Þar varð og eitt ský sem þá yfirskyggði. Og rödd kom úr skýinu, segjandi: [ „Þessi er minn elskulegur sonur, heyri þér honum.“ Og strax þar eftir er þeir litu um sig sáu þeir öngvan meir nema Jesúm hjá sér.
Og er þeir gengu ofan af fjallinu bauð hann þeim að þeir segði það öngum hvað þeir höfðu séð þangað til að Mannsins sonur væri upprisinn af dauða. Þeir héldu og því orði hjá sér, spyrjandi sín á milli hvað það væri er hann sagði: „Upprisinn af dauða“. Og þeir spurðu hann að og sögðu: „Hvað er það þá sem hinir skriftlærðu segja, að Elías byrjar fyrri að koma?“ En hann svaraði og sagði til þeirra: „Elías skal að vísu fyrri koma og allt til lags færa. Þar að auk mun Mannsins son margt líða og forsmáður verða so sem skrifað er. En eg segi yður það Elías er kominn og þeir hafa gjört honum hvað helst þeir vildu so sem skrifað er af honum.“ [
Hann kom til sinna lærisveina og sá þar margt fólk kringum þá og hina skriftlærðu er spurðust á við þá. [ Og strax er allt fólkið leit Jesúm felmtraði því og hræddust, hlupu og heilsuðu honum. Og hann spurði þá hina skriftlærðu: „Að hverju spyrjist þér um við þá?“ En einn af fólkinu svaraði og sagði: [ „Meistari, eg flutti son minn hingað til þín. Hann hefir mállausan anda og nær helst er hann höndlast af honum þá slítur hann hann og hann froðufellir og nístrar tönnum og þornar upp. Og eg talaði til þinna lærisveina að þeir ræki hann út og það gátu þeir eigi.“
En hann svaraði og sagði: [ „Ó þú vantrúaða kynslóð, hversu lengi þá skal eg hjá yður vera eða hversu lengi á eg að líða yður? Færið hann hingað til mín.“ Og þeir færðu hann þangað til hans. Og er andinn leit hann sleit hann hann, féll á jörð og veltist um og froðufelldi. Hann spurði og hans föður að: „Hversu langur tími er frá því er hann hreppti þetta?“ En hann sagði: „Frá barnæsku. Og oftlega hefur hann fleygt honum á eld og í vatn að hann fyrirfæri honum so. Ef þú orkar nokkru á sjá aumur á og hjálpa okkur.“ En Jesús sagði til hans: „Ef þú gætir trúað. Því trúuðum er allt mögulegt.“ Og strax þá kallaði faðir barnsins upp með tárum og sagði: [ „Eg trúi, herra, hjálpa þú minni vantrú!“
Og eð Jesús sá að fólkið hljóp að ávítaði hann hinn óhreina anda og sagði til hans: „Þú daufi og hinn dumbi andi, eg býð þér að þú farir út af honum og farir ei meir í hann þaðan í frá.“ Og hann kallaði upp, sleit hann mjög og fór út af honum. Og hann varð sem væri hann dauður svo að margir sögðu það hann væri dauður. En Jesús hélt hans hönd og reisti hann upp. Hann reis þá upp. Og þá hann var til húss genginn spurðu hans lærisveinar hann leynilega að: „Því gátu vær eigi drifið hann út?“ En hann sagði: „Þetta kyn fæst með öngu öðru útrekið nema fyrir bænir og föstu.“
En þeir gengu og burt þaðan og ferðuðust um Galileam. [ Hann vildi og eigi að það skyldi nokkur vita. Hann lærði sína lærisveina og sagði þeim það Mannsins sonur skyldi seljast í manna hendur og þeir mundu aflífa hann og þá hann væri aflífaður mundi hann á þriðja degi upp aftur rísa. Þeir undirstóðu eigi þessi orð og þorðu þó eigi að spyrja hann að.
Hann kom til Kapernaum og sem hann var til hús kominn spurði hann þá að: [ „Hvað handtéruðu þér yðar á milli á veginum?“ En þeir þögðu því að þeir höfðu metist um á veginum hver þeirra mestur væri. Og er hann setti sig kallaði hann þá tólf og sagði til þeirra: „Ef nokkur vill fyrstur vera sá skal öllum síðastur vera og allra þjón.“ Og hann tók eitt barn og setti það mitt á millum þeirra. Og er hann hélt um það sagði hann til þeirra: „Hver sá meðtekur eitt þvilíkt barn í mínu nafni hann meðtekur mig og hver helst hann meðtekur mig sá meðtekur ei mig heldur hann sem mig sendi.“
En Jóhannes svaraði honum og sagði: [ „Meistari, vér sáum einn þann sem rak út djöfla í þínu nafni hver eð eigi fylgir oss eftir og vær fyrirbuðum hönum það af því hann fylgdi oss eigi eftir.“ En Jesús sagði: „Eigi skulu þér fyrirbjóða honum það. Því að enginn sá ef hann gjörir kraftaverk í mínu nafni og kunni þá strax illa að tala um mig. Því að hver hann er eigi í móti oss hann er með oss því hver sem yður gefur að drekka einn bikar vats í mínu nafni af því að þér eruð Krists, sannlega þá segi eg yður að það skal honum ekki ólaunað verða. [ Og hver hann hneykslar einn af þeim inum litlu sem á mig trúa honum væri betra að kvarnarsteinn byndist við háls honum og væri so í sjá kastaður. [
Og ef þín hönd hneykslar þig þá sníð þú hana af. Betra er þér handarlausum inn að ganga til lífsins en hafandi tvær hendur og fara til helvítis í óslökkvanlegan eld hvar eð þeirra maðkur deyr eigi og þar þeirra eldur slokknar ekki. Og ef þig hneykslar fótur þinn þá högg hann af. Betra er þér höltum inn að ganga í eilíft líf en það þú hafir tvo fætur og kastist í helvískan eld óslökkvanlegan hvar að þeirra maðkur deyr eigi og þar þeirra eldur slokknar eigi. Hneyksli þig þitt auga þá kasta þú því frá þér. Betra er þér eineygðum inn að ganga í Guðs ríki en að þú hafir tvö augu og sendist í helvískan eld hvar eð þeirra maðkur deyr eigi og þar þeirra eldur slokknar eigi.
Því að allir hljóta með eldi að saltast og allar fórnir salti að saltast. [ Saltið er gott en ef saltið afseltist, með hverju kryddi þér þa? Hafi þér saltið með yður og hafið frið yðar á millum.“