Sjötta sýn: Fljúgandi bókfell

1 Enn hóf ég upp augu mín og sjá: Þar var bókfell á flugi.
2 Og hann sagði við mig: „Hvað sérðu?“ En ég svaraði: „Ég sé bókfell á flugi, tuttugu álna langt en tíu álna breitt.“
3 Hann sagði við mig: „Þetta er bölvunin sem fer yfir landið allt. Öðrum megin á það er skráð að öllum þjófum sé enn órefsað en hinum megin að öllum meinsærismönnum sé enn óhegnt.“ 4 Bókfellið hef ég sent, segir Drottinn allsherjar, svo að það lendi í húsi þjófsins og þess sem sekur er um meinsæri við mig og staðnæmist þar og gereyði þar jafnt viði sem veggjum.

Sjöunda sýn: Kona í keri

5 Þá gekk fram engillinn, viðmælandi minn, og sagði: „Líttu nú upp og sjáðu hvað nálgast.“
6 „Hvað er það?“ spurði ég. Og hann svaraði: „Þetta efuker sem nálgast,“ sagði hann, „er sekt þeirra í landinu öllu.“
7 Og þá lyftist blýlokið af efunni og sat kona niðri í kerinu.
8 „Þetta,“ sagði hann, „er Illskan.“ Og hann þrýsti henni niður í kerið og setti blýlokið yfir.
9 Enn leit ég upp og sá nú tvær konur birtast. Þær höfðu vængi sem storkar og stóð vindur undir á báða vegu. Og á milli sín hófu þær efuna á loft.
10 Ég spurði engilinn, viðmælanda minn: „Hvert ætla þær með efuna?“
11 Hann svaraði: „Til að reisa henni hús í Sínearlandi og að því loknu munu þær setja efuna þar á stall.“