Ræður frá tímum Jójakíms

Musterisræðan

1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: 2 Taktu þér stöðu við hliðið að húsi Drottins, flyttu þar þessa ræðu og segðu: Heyrið orð Drottins, allir Júdamenn, sem gangið inn um þetta hlið til að tilbiðja Drottin. 3 Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Bætið breytni yðar og verk, þá mun ég búa á meðal yðar hér á þessum stað. 4 Treystið ekki lygaræðum þegar sagt er: „Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins.“
5 Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, 6 kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði yður til tjóns, 7 þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað, í landinu sem ég gaf feðrum yðar til eignar um aldir alda.
8 En þér treystið gagnslausum lygaræðum, lognum boðskap sem er gagnslaus. 9 Þegar þér hafið stolið, myrt, drýgt hór, svarið meinsæri, fórnað til Baals og elt aðra guði sem þér hafið ekki þekkt fyrr, 10 getið þér þá komið og gengið fram fyrir auglit mitt í þessu húsi sem kennt er við nafn mitt[ og sagt: „Vér erum hólpnir,“ og haldið síðan áfram að fremja sömu svívirðu? 11 Er þetta hús, sem kennt er við nafn mitt, ræningjabæli í yðar augum? Já, ég lít svo á, segir Drottinn. 12 Farið til helgistaðar míns í Síló þar sem ég lét nafn mitt búa áður fyrr. Virðið fyrir yður hvernig ég hef farið með hann vegna illsku lýðs míns, Ísraels. 13 En þér hafið nú unnið öll sömu verk, segir Drottinn. Þótt ég talaði til yðar seint og snemma hlustuðuð þér ekki og þótt ég hrópaði til yðar svöruðuð þér ekki.
14 Þess vegna ætla ég að fara með þetta hús, sem kennt er við nafn mitt og þér treystið á, eins og ég fór með Síló. Ég ætla að fara með staðinn sem ég gaf yður og feðrum yðar eins og ég fór með Síló. 15 Ég mun reka yður frá augliti mínu eins og ég rak alla bræður yðar frá mér, alla niðja Efraíms.

Hjáguðadýrkun

16 Þú skalt ekki biðja fyrir þessari þjóð og hvorki hefja upp kveinstafi né grátbeiðni þeirra vegna. Þú skalt ekki leggja að mér því að ég hlusta ekki á þig. 17 Sérðu ekki hvað þeir eru að gera í borgunum í Júda og á götunum í Jerúsalem? 18 Börnin tína saman eldivið, feður þeirra kveikja eld og konurnar hnoða deig í fórnarkökur handa drottningu himinsins. Þeir færa öðrum guðum dreypifórnir til að skaprauna mér. 19 En skaprauna þeir mér? segir Drottinn.
Skaprauna þeir ekki öllu fremur sjálfum sér og roðna af skömm? 20 Því segir Drottinn: Reiði minni og heift verður úthellt yfir þennan stað, yfir menn og skepnur, yfir tré merkurinnar og ávexti akursins. Reiði mín mun brenna og ekki slokkna.

Ádeila á musterisþjónustuna

21 Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels:
Hlaðið brennifórnum yðar ofan á sláturfórnirnar og etið kjötið. 22 Ég talaði hvorki við forfeður yðar né gaf þeim fyrirmæli um brennifórnir og sláturfórnir þegar ég leiddi þá út úr Egyptalandi. 23 En ég gaf þeim þessi fyrirmæli: Hlýðið boðum mínum, þá verð ég Guð yðar og þér verðið lýður minn. Gætið þess að fylgja nákvæmlega þeim vegi sem ég hef boðið yður svo að yður vegni vel. 24 En þeir heyrðu ekki og lögðu ekki við hlustir heldur fylgdu eigin ráðum í þverúð síns illa hjarta. Þeir sneru við mér baki, ekki andlitinu. 25 Frá þeim degi, þegar forfeður yðar fóru út úr Egyptalandi og fram á þennan dag, hef ég stöðugt, aftur og aftur, sent yður alla þjóna mína, spámennina. 26 En þeir hlustuðu ekki og lögðu ekki við eyrun heldur gerðust harðsvíraðir og breyttu enn verr en feður þeirra.
27 Þegar þú boðar þeim allt þetta munu þeir ekki hlusta. Þegar þú hrópar til þeirra munu þeir ekki svara þér. 28 Þú skalt því segja við þá: Þetta er þjóðin sem hlustaði ekki á rödd Drottins, Guðs síns, og hlýddi ekki leiðsögn hans. Horfin er trúfestin, upprætt úr munni þeirra.

Viðurstyggð hjáguðadýrkunarinnar

29 Skerðu af þér lokkana og fleygðu þeim, syngdu harmljóð á gróðurvana hæðum, því að Drottinn hefur hafnað og útskúfað þeirri kynslóð sem hann reiddist. 30 Júdamenn hafa gert það sem illt er í augum mínum, segir Drottinn. Þeir hafa reist viðurstyggilegar guðamyndir sínar í húsinu, sem kennt er við nafn mitt, til þess að saurga það. 31 Þeir hafa reist Tófet-fórnarhæðir[ í Hinnomssonardal til þess að brenna syni sína og dætur í eldi. Það hef ég hvorki boðið né heldur komið það í hug.
32 Sjá, þeir dagar munu koma, segir Drottinn, að ekki verður lengur talað um Tófet og Hinnomssonardal heldur um Drápsdal. Þá verða svo margir grafnir í Tófet að ekki verður neitt rúm eftir.[ 33 Lík þessa fólks verða æti handa fuglum himins og dýrum merkurinnar og enginn mun fæla þau burt. 34 Ég mun þagga niður fagnaðar- og gleðihróp, köll brúðguma og brúðar í borgum í Júda og á strætum í Jerúsalem, því að landið verður lagt í eyði.