Veislan í Súsa

1 Xerxes konungur,[ sá er ríkti yfir hundrað tuttugu og sjö héruðum allt frá Indlandi til Eþíópíu, 2 sat að völdum í virkisborginni Súsa. 3 Á þriðja stjórnarári sínu bauð hann öllum höfðingjum sínum og ráðamönnum til veislu, bæði hershöfðingjum[ Persa og Meda og héraðsstjórum og embættismönnum héraðanna. 4 Dögum saman, hundrað og áttatíu daga alls, sýndi hann þeim þar ógrynni auðæfa og dýrð og skart konungstignar sinnar. 5 Að þeim dögum liðnum hélt konungur öllum karlmönnum í virkisborginni Súsa, jafnt háum sem lágum, sjö daga veislu í forgarði hallar sinnar. 6 Þar var tjaldað drifhvítum og fjólubláum baðmullardúkum sem festir voru í silfurhringi á snúrur úr hvítu líni og purpurarauðu og á marmarasúlur. Þar stóðu hægindi úr gulli og silfri á gólfi lögðu dílóttum granítsteini, marmara, perlumóður og öðrum dýrum steinum. 7 Vín var borið fram í gullbikurum. Þar voru engir tveir bikarar eins og var vínið veitt af þeirri rausn sem sæmdi örlæti konungs. 8 Að boði konungs var sá háttur hafður á við drykkjuna að þar mætti hver fara að vild sinni. Konungur hafði lagt svo fyrir við ráðsmenn sína að hver og einn skyldi drekka eins og hann lysti.

Vastí drottning rekin frá hirð konungs

9 Vastí drottning hélt konum einnig veislu í höll Xerxesar konungs. 10 Á sjöunda degi var konungur hreifur af víni og skipaði hann þá geldingunum sjö, sem þjónuðu honum, þeim Mehúman, Bista, Harbóna, Bigta og Abagta, Setar og Karkas, 11 að leiða Vastí drottningu, prýdda kórónu sinni, fram fyrir konung svo að hann gæti sýnt gestum sínum og aðlinum yndisþokka hennar, enda var hún fögur sýnum. 12 En Vastí drottning neitaði að verða við þeim tilmælum konungs sem geldingarnir báru henni. Konungur brást reiður við og sauð í honum bræðin.
13 Konungur leitaði jafnan ráða þeirra sem voru fróðir um lög og rétt, og ráðgaðist hann nú um siði og venjur við nokkra hyggna menn og fróða 14 þá sem næstir honum stóðu: Karsena, Setar, Admata, Tarsís, Meres, Marsena og Memúkan, sjö höfðingja Persa og Meda sem voru við hirð konungs og skipuðu æðstan sess í ríkinu. 15 „Hvað segja lögin að gert skuli við Vastí drottningu?“ spurði hann. „Hún hefur ekki hlýtt þeirri skipun Xerxesar konungs sem geldingarnir fluttu henni.“
16 Memúkan svaraði í áheyrn konungs og höfðingjanna: „Vastí drottning hefur ekki aðeins brotið gegn konunginum heldur einnig gegn öllum höfðingjum og þjóðum í öllum löndum Xerxesar konungs. 17 Allar konur munu frétta af framferði drottningar og þá munu þær lítilsvirða eiginmenn sína og segja: Xerxes konungur bauð að Vastí drottning skyldi leidd á sinn fund en hún neitaði. 18 Þegar í dag munu hefðarkonur Persa og Meda, sem frétt hafa af þessu háttalagi drottningar, svara öllum höfðingjum konungs á sama veg. Þá verður seint bundinn endi á agaleysi og misklíð. 19 Þóknist það konungi skal hann gefa út svofellda konunglega tilskipun og festa hana í lög Persa og Meda svo að hún verði ekki aftur tekin: Vastí drottning skal ekki framar koma fyrir auglit Xerxesar konungs. Konunglega tign hennar mun konungur veita annarri sem reynist betri en hún. 20 Þegar tilskipun konungs verður birt um hið víðlenda ríki hans munu allar konur auðsýna eiginmönnum sínum virðingu, jafnt háum sem lágum.“
21 Þessi ráð féllu konungi og höfðingjum hans vel í geð og gerði konungur eins og Memúkan hafði lagt til. 22 Hann lét senda boð um öll héruð konungsríkisins, til hvers héraðs með letri þess héraðs og hverrar þjóðar á máli þeirrar þjóðar, að sérhver karlmaður skyldi vera húsbóndi á heimili sínu hver sem tunga hans væri.