Orrustan við Emmaus

1 Um nóttina fór Gorgías úr herbúðum sínum og hafði með sér fimm þúsund manns og eitt þúsund úrvalsriddara. 2 Ætlaði hann að ráðast að óvörum á herbúðir Gyðinga og sigra þá. Menn úr virkinu sögðu honum til vegar. 3 Júdas varð þessa áskynja og tók sig upp með úrvalslið sitt til að sigra þann her konungsins sem var í Emmaus 4 meðan hluti hans var fjarri herbúðunum. 5 Þegar Gorgías kom í herbúðir Júdasar um nóttina greip hann í tómt. Tók hann að leita manna Júdasar í fjöllunum því að hann taldi að þeir hefðu flúið undan sér þangað.
6 Þegar dagaði birtist Júdas á sléttunni með þrjú þúsund manns. Ekki voru þeir svo búnir skjöldum og sverðum sem þeir vildu. 7 Þeir sáu að her heiðingjanna var voldugur og vel vopnum búinn sem og riddaraliðið umhverfis hann, allt þjálfaðir bardagamenn. 8 Þá sagði Júdas við menn sína: „Óttist ekki fjölda þeirra og hræðist ekki árás þeirra. 9 Minnist þess hvernig feður okkar björguðust í Rauðahafinu þegar her faraós elti þá. 10 Nú skulum við hrópa til himins að hann verði okkur náðugur og minnist sáttmálans við feður okkar. Mun hann þá eyða þessum her fyrir augum okkar í dag. 11 Af því munu allir heiðingjar komast að raun um að sá er til sem frelsar og bjargar Ísrael.“
12 Er óvinirnir sáu þá stefna gegn sér 13 héldu þeir út úr herbúðunum til að berjast. Þá þeyttu menn Júdasar herlúðra 14 og herjunum laust saman. Voru heiðingjarnir gjörsigraðir og flýðu út á sléttuna. 15 Féllu þeir sem síðastir fóru allir fyrir sverði. Ísraelsmenn ráku flóttann til Geser og út á sléttur Ídúmeu, Asdód og Jabne og felldu um þrjár þúsundir óvinanna.
16 Þegar Júdas og her hans sneru aftur frá eftirförinni 17 sagði Júdas við fólkið: „Látið herfangið ekki freista ykkar um of því að enn eigum við orrustu fyrir höndum. 18 Gorgías og her hans eru ekki langt undan í fjöllunum. Nú verðið þið að veita óvinum okkar mótspyrnu og berjast við þá. Síðan getið þið tekið af herfanginu án þess að óttast neitt.“
19 Varla hafði Júdas sleppt orðinu þegar sást til flokks óvinanna hjá fjallinu. 20 Við flokknum blasti að herinn var sigraður og að herbúðirnar höfðu verið lagðar eldi enda bar reykurinn því ljósan vott sem orðið var. 21 Við þessa sýn urðu þeir mjög óttaslegnir og þegar þar við bættist að her Júdasar birtist fylktur til bardaga á sléttunni 22 flýðu þeir allir til lands Filistea. 23 Þá sneri Júdas aftur til að ræna herbúðirnar. Tók hann þar mikið gull og silfur, blá og rauð purpuraklæði og margt gersema. 24 Sneru hann og liðsmenn hans síðan heim og sungu sálma og himninum lof eins og maklegt er því að miskunn hans varir að eilífu. 25 Þennan dag hlaut Ísrael dásamlega frelsun.

Júdas sigrar Lýsías við Bet Súr

26 Þeir útlendinganna sem af komust fóru til Lýsíasar og greindu honum frá öllu því sem gerst hafði. 27 Brá honum mjög við tíðindin, sem honum féllu þungt, og það að ekki hafði farið svo fyrir Ísrael sem hann vildi og honum mistekist að framkvæma fyrirmæli konungs.
28 Árið eftir kvaddi Lýsías til sextíu þúsund úrvalshermenn og fimm þúsund riddara til að leggja Ísrael að velli. 29 Héldu þeir inn í Ídúmeu og slógu upp herbúðum við Bet Súr en Júdas hélt gegn þeim með tíu þúsund manns. 30 Þegar hann sá hve voldugur herinn var baðst hann fyrir með þessum orðum: „Lofaður sért þú, frelsari Ísraels, sem gerðir árás risans að engu með hendi þjóns þíns, Davíðs, og gafst her Filistea á vald Jónatan, syni Sáls, og skjaldsveini hans. 31 Gef þú nú her þennan lýð þínum, Ísrael, á vald svo að liðstyrkur óvinanna og riddarar þeirra verði til skammar. 32 Lát þá missa móðinn, lama ofdirfsku þeirra svo að skjálfandi bíði þeir ósigur. 33 Felldu þá með sverði þeirra sem unna þér svo að allir, sem þekkja nafn þitt, megi syngja þér lofsöng.“ 34 Laust herjunum nú saman og féllu um fimm þúsund af herliði Lýsíasar fyrir árás Ísraelsmanna.
35 Þegar Lýsías sá að flótti var brostinn í lið hans en liðsmönnum Júdasar jókst kjarkur og hve staðráðnir þeir voru í að lifa og deyja með sæmd hélt hann til baka til Antíokkíu. Réð hann síðan málaliða til að geta snúið aftur til Júdeu með enn öflugri her.

Hreinsun musterisins

36 En Júdas og bræður hans sögðu: „Óvinir okkar eru sigraðir. Við skulum halda upp til Jerúsalem og hreinsa helgidóminn og vígja hann að nýju.“
37 Allur herinn safnaðist saman og gekk upp á Síonfjall. 38 Þar fundu þeir helgidóminn yfirgefinn og fórnaraltarið saurgað og hliðin brennd. Kjarr var vaxið upp í forgörðunum svo að þeir voru líkastir skóglendi eða fjalllendi og hliðarherbergi prestanna höfðu verið rifin. 39 Menn Júdasar rifu klæði sín, kveinuðu harmi lostnir, jusu sig ösku 40 og féllu til jarðar fram á ásjónur sínar. Síðan þeyttu þeir merkilúðrana og hrópuðu til himins.
41 Þá bauð Júdas nokkrum manna sinna að herja á liðið í virkinu meðan hann hreinsaði helgidóminn. 42 Hann valdi presta sem eigi höfðu látið flekkast og unnu lögmálinu. 43 Hreinsuðu þeir helgidóminn og fluttu saurguðu steinana á óhreinan stað. 44 Þeir ráðguðust um hvað gert skyldi við brennifórnaraltarið sem svívirt var. 45 Hugkvæmdist þeim það heillaráð að rífa það svo að það minnti ekki framar á þá smán að heiðingjar höfðu saurgað það.
Þeir rifu því fórnaraltarið niður 46 og komu steinunum fyrir á hentugum stað á musterisfjallinu þar til spámaður kæmi sem gæti svarað því hvað gert skyldi við þá. 47 Tóku þeir síðan óhöggna steina eins og lögmálið segir til um og hlóðu nýtt altari sem var eins og hið fyrra. 48 Helgidóminn endurbættu þeir að utan sem innan og vígðu forgarðana. 49 Þeir gerðu ný helgiáhöld og báru ljósastikuna, reykelsisaltarið og borðið inn í musterið. 50 Þeir brenndu síðan reykelsi á reykelsisaltarinu og tendruðu lampana á ljósastikunni svo að birti í musterinu. 51 Þeir lögðu brauð á borðið og hengdu fortjaldið upp.
Þá var öllu lokið sem gera þurfti.
52 Þeir fóru árla á fætur. Var það tuttugasta og fimmta dag níunda mánaðar, þ.e. kíslevmánaðar, árið eitt hundrað fjörutíu og átta.[ 53 Báru prestarnir fram fórn samkvæmt lögmálinu á nýja brennifórnaraltarið sem þeir höfðu reist. 54 Á sama tíma árs og á sama degi og heiðingjarnir svívirtu helgidóminn var hann endurvígður með söng og leik á hörpu, gígjur og bumbur. 55 Og fólkið allt féll fram á ásjónu sína og tilbað og lofaði himininn sem hafði veitt því sigursæld.
56 Vígslu fórnaraltarisins héldu menn hátíðlega í átta daga, báru brennifórnir fram fagnandi huga og færðu heillafórn og þakkarfórn. 57 Þeir prýddu framhlið musterisins með gullsveigum og skjöldum, endurnýjuðu hliðin og hliðarherbergi prestanna og settu hurðir fyrir. 58 Gífurlegur fögnuður ríkti meðal fólksins yfir að smánin, sem heiðingjarnir ollu, var afmáð.
59 Ákvað Júdas og bræður hans og allur söfnuður Ísraels að árlega skyldi endurvígslu fórnaraltarisins minnst með hátíð og fögnuði og gleði í átta daga frá tuttugasta og fimmta degi kíslevmánaðar. 60 Um þessar mundir reistu þeir háa múra með sterkum turnum umhverfis Síonfjall til að koma í veg fyrir að heiðingjarnir kæmu á ný og saurguðu svæðið eins og áður. 61 Þar setti Júdas lið til varnar staðnum og víggirti einnig Bet Súr svo að þjóðin hefði þar virki gegnt Ídúmeu.