1 Asafssálmur.[
Guð, Drottinn Guð, talar,
kallar á jörðina frá sólarupprás til sólarlags.
2Frá Síon, ímynd fegurðarinnar,
birtist Guð í geisladýrð.
3Guð vor kemur og þegir ekki,
fyrir honum fer eyðandi eldur
og um hann geisar stormur.
4Hann kallar á himininn uppi
og á jörðina til að dæma lýð sinn:
5„Stefnið þeim saman sem eru mér trúir,
sem gera við mig sáttmála með fórn.“
6Himinninn boði réttlæti hans
því að Guð er sá sem dæmir. (Sela)
7„Heyr, þjóð mín, því að ég ætla að tala,
Ísrael, ég ætla að vitna gegn þér.
Ég er Guð, Guð þinn.
8Ég álasa þér ekki fyrir sláturfórnir þínar
og brennifórnir þínar eru stöðugt frammi fyrir mér.
9Ég þarf ekki að taka naut úr fjósi þínu
eða geithafra úr stíu þinni
10því að öll skógardýrin eru mín
og skepnurnar á fjöllunum þúsund.
11Ég þekki alla fugla á fjöllunum
og það sem á mörkinni hrærist er mitt.
12Væri ég svangur segði ég þér ekki frá því
því að jörðin er mín og allt sem á henni er.
13Et ég nautakjöt
eða drekk ég hafrablóð?
14Færðu Guði þakkarfórn
og efndu heit þín við Hinn hæsta.
15Ákalla mig á degi neyðarinnar
og ég mun frelsa þig
og þú skalt vegsama mig.“
16En við hinn óguðlega segir Guð:
„Hví þylur þú boðorð mín
og tekur sáttmála minn þér í munn
17þar sem þú hatar aga
og snýrð baki við orðum mínum?
18Sjáir þú þjóf leggurðu lag þitt við hann
og hefur samneyti við hórkarla.
19Þú lætur illt umtal þér um munn fara
og tunga þín temur sér lygar.
20Þú situr og níðir bróður þinn,
rægir son móður þinnar.
21Þetta gerðir þú og ég var hljóður,
þú taldir mig vera eins og þú ert.
Ég ávíta þig og leiði þér þetta fyrir sjónir.“
22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði,
ella ríf ég yður sundur og enginn er til bjargar.
23 Sá sem færir þakkarfórn heiðrar mig
og þann sem breytir grandvarlega
læt ég sjá hjálpræði Guðs.