Hið ytra og innra

1 Nú komu til Jesú farísear og fræðimenn frá Jerúsalem og sögðu: 2 „Hvers vegna brjóta lærisveinar þínir erfikenning forfeðranna? Þeir þvo ekki hendur sínar[ áður en þeir neyta matar.“
3 Hann svaraði þeim: „Hvers vegna brjótið þið sjálfir boðorð Guðs sakir erfikenningar ykkar? 4 Guð hefur sagt: Heiðra föður þinn og móður, og: Hver sem formælir föður eða móður skal deyja. 5 En þið segið: Hver sem segir við föður sinn eða móður: Það sem ég hefði átt að styrkja þig með gef ég til musterisins, 6 hann þarf ekki að heiðra föður sinn [eða móður][. Þið ógildið orð Guðs með erfikenningu ykkar. 7 Hræsnarar, sannspár var Jesaja um ykkur er hann segir:
8Þessir menn heiðra mig með vörunum
en hjarta þeirra er langt frá mér.
9Til einskis dýrka þeir mig
því að þeir kenna það eitt sem menn hafa samið.“

10 Og Jesús kallaði til sín mannfjöldann og sagði: „Heyrið og skiljið. 11 Ekki saurgar það manninn sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninn sem út fer af munni.“
12 Þá komu lærisveinar hans og sögðu við hann: „Veistu að farísearnir fyrtust við það sem þú sagðir?“
13 Jesús svaraði: „Sérhver jurt, sem faðir minn himneskur hefur eigi gróðursett, mun upprætt verða. 14 Látið þá eiga sig! Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan falla báðir í gryfju.“
15 Þá sagði Pétur við Jesú: „Skýrðu fyrir okkur líkinguna.“
16 Hann svaraði: „Hafið þið ekki enn skilið? 17 Skiljið þið ekki að allt, sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni? 18 En það sem út fer af munni kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. 19 Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi. 20 Þetta er það sem saurgar manninn. En að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann.“

Kanversk kona

21 Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. 22 Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“
23 En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“
24 Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“
25 Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“
26 Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“
27 Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“
28 Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.

Hópum saman

29 Þaðan fór Jesús og kom að Galíleuvatni. Og hann gekk upp á fjall og settist þar. 30 Menn komu til hans hópum saman og höfðu með sér halta menn og blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra og lögðu þá fyrir fætur hans og hann læknaði þá. 31 Fólkið undraðist þegar það sá mállausa mæla, fatlaða heila, halta ganga og blinda sjá. Og þeir lofuðu Guð Ísraels.

Jesús mettar með sjö brauðum

32 Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar. Ég vil ekki láta þá fara fastandi frá mér, þeir gætu örmagnast á leiðinni.“
33 Lærisveinarnir sögðu: „Hvar fáum við nóg brauð til að metta allt þetta fólk hér í óbyggðum?“
34 Jesús spyr: „Hve mörg brauð hafið þið?“
Þeir svara: „Sjö og fáeina smáfiska.“
35 Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina, 36 tók brauðin sjö og fiskana, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinunum en lærisveinarnir fólkinu. 37 Allir neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur fullar. 38 En þeir sem neytt höfðu voru fjórar þúsundir karlmanna, auk kvenna og barna.
39 Síðan lét Jesús fólkið fara, sté í bátinn og kom í Magadanbyggðir.