Harmar Jerúsalem

1Ó, hversu einmana er nú borgin
sem áður var svo mannmörg,
orðin eins og ekkja,
sú er voldug var meðal þjóðanna,
drottningin meðal héraðanna
orðin kvaðarkona.
2Hún grætur sáran um nætur
og tárin streyma ofan vanga hennar.
Af öllum ástmönnum hennar
er enginn til að hugga hana.
Allir vinir hennar brugðust henni,
þeir eru orðnir óvinir hennar.
3Eftir neyð og þunga ánauð
er Júda útlægur orðinn.
Hann dvelst meðal heiðingjanna
og finnur engan hvíldarstað.
Allir ofsækjendur hans eltu hann uppi
í þrengingum hans.
4Vegirnir til Síonar syrgja
því að engir koma til hátíðanna.
Öll hlið hennar eru auð,
prestar hennar andvarpa,
meyjar hennar eru harmþrungnar
og sjálf er hún angistarfull.
5Fjandmenn hennar hrósa sigri,
óvinir hennar hlakka yfir hlut sínum. [
Því að Drottinn þjakaði hana
vegna hennar mörgu synda,
börn hennar voru herleidd,
rekin á undan óvininum.
6Frá dótturinni Síon
er allt skart horfið.
Höfðingjar hennar eru eins og hirtir
sem ekkert haglendi finna,
magnþrota flýðu þeir
undan ofsækjandanum.
7Á dögum eymdar sinnar og hraknings
minnist Jerúsalem
allra kjörgripa sinna
er hún átti forðum daga.
Þegar þjóð hennar féll í hendur kúgarans
og enginn hjálpaði henni
horfðu óvinirnir á hana
og hlökkuðu yfir hrakförum hennar.
8Jerúsalem syndgaði stórlega,
sökum þess varð hún að viðurstyggð.
Allir þeir er dáðu hana fyrirlíta hana
af því að þeir hafa séð nekt hennar.
Sjálf andvarpar hún
og snýr sér undan.
9Saurugleiki hennar loðir við klæðafald hennar,
hún leiddi ekki hugann að því sem hennar beið.
Hún féll undradjúpt,
enginn varð til að hugga hana.
Lít, Drottinn, á eymd mína
því að óvinirnir hrósa sigri.
10Óvinurinn rétti út hönd sína,
seildist eftir dýrgripum hennar.
Hún sá að heiðingjarnir
gengu inn í helgidóm hennar
en þeim hafðir þú bannað
að ganga í söfnuð þinn.
11Allur lýður hennar andvarpar,
leitar sér viðurværis,
lætur dýrgripi sína fyrir matbjörg
til þess að draga fram lífið.
Sjá þú, Drottinn, og lít á
hversu ég er fyrirlitin.
12Skiptir þetta engu yður sem fram hjá farið?
Skyggnist um og sjáið,
finnst sú kvöl sem jafnast á við
þá sem á mig var lögð,
mig sem Drottinn þjakaði
á degi sinnar brennandi reiði?
13Af hæðum sendi hann eld
niður í bein mín,
lagði net fyrir fætur mér,
rak mig á bak aftur.
Hann gerði mig að auðn,
máttvana daginn langan.
14Syndir mínar eru hnýttar í ok,
tvinnaðar saman af hendi hans.
Þær eru lagðar mér á háls,
hann hefur lamað þrótt minn.
Drottinn seldi mig í hendur þeirra
er ég fæ eigi staðist í móti.
15Drottinn forsmáði hetjur mínar
sem í mér voru.
Hann stefndi liði gegn mér
til þess að yfirbuga æskumenn mína.
Í vínlagarþró
tróð Drottinn á meyjunni Júdadóttur.
16Yfir þessu græt ég,
augu mín fljóta í tárum.
Því að huggarinn er mér fjarri,
sá er hressti sál mína.
Börn mín eru yfirgefin
því að óvinurinn bar hærri hlut.
17Síon fórnar höndum
en enginn huggar hana.
Drottinn bauð út óvinum Jakobs
til að umkringja hann.
Jerúsalem er orðin
að viðurstyggð meðal þeirra.
18Drottinn er réttlátur,
ég óhlýðnaðist boði hans.
Heyrið, allar þjóðir,
horfið á kvöl mína.
Meyjar mínar og yngismenn
fóru burt herleidd.
19Ég hrópaði á ástmenn mína
en þeir brugðust mér.
Prestar mínir og öldungar
fórust í borginni
er þeir leituðu matar
til að draga fram lífið.
20Sjá, Drottinn, ég er í nauðum stödd
og ólga hið innra.
Hjartað berst í brjósti mér
því að ég var svo uppreisnargjörn.
Úti fyrir sviptir sverðið mig börnum,
inni ríkir dauðinn.
21Þeir heyrðu andvörp mín
en enginn huggaði mig.
Allir óvinir mínir spurðu ógæfu mína,
glöddust af því að þú gerðir þetta.
Lát daginn koma sem þú hefur boðað,
þá verða þeir jafningjar mínir.
22 Lát alla illsku þeirra koma fyrir auglit þitt
og far með þá
eins og þú fórst með mig
sökum allra synda minna.
Því að andvörp mín eru mörg
og hjarta mitt sjúkt.