1 Í villu sinni segja þeir með sjálfum sér:
„Stutt og dapurlegt er líf vort
og engin lækning finnst á dánardægri
né þekkist neinn sem leysir frá helju.
2 Vér urðum til af hendingu
og eftir á er eins og vér hefðum aldrei verið.
Andinn í nösum vorum er svipull sem gufa
og hugsun vor sem neisti frá hræringu hjartans.
3 Þegar hann slokknar verður líkaminn aska
og andinn líður frá eins og móða.
4 Nafn vort gleymist með tímanum
og enginn minnist verka vorra.
Líf vort líður sporlaust hjá eins og skýjadrög
og leysist sundur eins og þoka,
raknar fyrir geislum sólarinnar
og hjaðnar fyrir hita hennar.
5 Ævi vor líður hjá eins og skuggi
og dauða vorn ber aðeins einu sinni að.
Innsigli er þrýst á og enginn á afturkvæmt.
6 Komum nú og njótum þeirra gæða sem tiltæk eru
og neytum heimsins hnossa með æskumóði.
7 Vér skulum njóta gnægða víns og smyrsla
og missum einskis vorblóms
8 heldur krýnum oss rósahnöppum áður en þeir visna.
9 Hvergi sé græn grund ósnortin af gjálífi voru.
Hvarvetna skulum vér láta eftir merki lífsgleði
því að það er skerfur vor og réttur.
10 Vér skulum kúga vesalinginn réttláta,
hlífum ekkjum í engu
og metum einskis hærur öldungsins.
11 Máttur vor ákvarði hvað rétt sé
því að hið veika hefur sýnt að það má sín einskis.
12 Vér skulum sitja um hinn réttláta því að hann ergir oss
og er andstæður verkum vorum.
Hann brigslar oss um lögmálsbrot
og ásakar oss fyrir að níðast á því sem oss var kennt.
13 Hann stærir sig af að þekkja Guð
og kallar sig þjón Drottins.
14 Hann er holdi klædd ádeila á viðhorf vor.
Það er ami að því einu að sjá hann.
15 Líf hans er með öðrum hætti en annarra manna
og brautir hans framandi.
16 Að mati hans erum vér fölsuð mynt
og hann forðast líferni vort eins og vér værum óhreinir.
Hann segir endalok hins réttláta sæl
og hælist um að eiga Guð að föður.
17 Sjáum nú hvort orð hans eru sönn
og reynum hver afdrif hans verða.
18 Ef hinn réttláti er barn Guðs, þá mun Guð taka hann að sér
og frelsa hann úr höndum fjandmanna hans.
19 Vér skulum reyna hann, misþyrma honum og kvelja
svo að vér fáum að sjá mildi hans
og komumst að raun um þolgæði hans.
20 Dæmum hann til svívirðilegs dauða
því að hann hlýtur liðsinni að eigin sögn.“
21 Þannig álykta þeir en þeim skjátlast
því að illska þeirra blindar þá.
22 Þeir skilja hvorki leyndardóm Guðs
né vænta launa fyrir guðræknina
og viðurkenna ekki að flekklausar sálir hljóti umbun.
23 Guð skapaði manninn til óforgengileika
og gerði hann mynd veru sinnar.
24 En öfund djöfulsins leiddi dauðann inn í heiminn
og þeir fá að reyna hann sem heyra honum til.