Áttunda plágan: Engisprettur

1 Drottinn sagði við Móse: „Farðu til faraós því að ég hef gert hjarta hans og þjóna hans ósveigjanlegt til þess að ég geti gert tákn mín á meðal þeirra 2 og til þess að þú getir sagt börnum þínum og barnabörnum frá því hvernig ég hef farið með Egypta og frá táknum mínum sem ég hef gert á meðal þeirra svo að þið komist að raun um að ég er Drottinn.“
3 Móse og Aron fóru þá til faraós og sögðu við hann: „Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Hve lengi ætlar þú að neita að beygja þig fyrir mér? Leyfðu þjóð minni að fara svo að hún geti þjónað mér. 4 Ef þú neitar að leyfa þjóð minni að fara sendi ég engisprettur yfir land þitt á morgun. 5 Þær munu þekja landið svo að ekki verður hægt að sjá jörðina. Þær munu éta leifarnar af því sem bjargaðist og eftir varð handa ykkur eftir haglið og þær munu éta upp öll tré sem þið eigið og vaxa á sléttlendinu. 6 Hús þín, hús allra þjóna þinna og allra Egypta munu fyllast af þeim. Feður þínir og forfeður hafa aldrei séð annað eins frá því að þeir settust að í landinu og til þessa dags.“ Síðan sneri hann sér við og gekk út frá faraó.
7 Þá sögðu þjónar faraós við hann: „Hve lengi á þessi maður að vera okkur til trafala? Leyfðu mönnunum að fara svo að þeir geti þjónað Drottni, Guði sínum. Hefurðu enn ekki skilið að Egyptaland er að leggjast í eyði?“ 8 Móse og Aron voru þá sóttir aftur til faraós. Hann sagði við þá: „Farið og þjónið Drottni, Guði ykkar. Hverjir ætla að fara?“ 9 Móse svaraði: „Við förum með unglinga okkar og öldunga, með syni okkar og dætur, við förum með sauðfé okkar og nautgripi því að við ætlum að halda Drottni hátíð.“ 10 Þá sagði faraó við þá: „Drottinn sé með ykkur svo framarlega sem ég leyfi ykkur og börnum ykkar að fara. Það er auðséð að þið hafið illt í hyggju. 11 Nei, þið karlmennirnir getið farið og þjónað Drottni því að það hafið þið beðið um.“ Síðan voru þeir reknir út frá faraó.
12 Drottinn sagði við Móse: „Réttu hönd þína út yfir Egyptaland svo að engisprettur komi yfir Egyptaland og éti allar jurtir í landinu, allt sem haglið skildi eftir.“ 13 Þá rétti Móse staf sinn út yfir Egyptaland. Og Drottinn sendi austanvind yfir landið allan þann dag og alla nóttina. Þegar morgnaði hafði austanvindurinn borið með sér engispretturnar. 14 Engispretturnar dreifðust yfir allt Egyptaland og gífurleg mergð þakti allt land Egypta. Slíkur urmull af engisprettum hafði aldrei komið áður og mun heldur ekki koma síðar. 15 Þær þöktu allt landið svo að jörðin varð svört og þær átu allar jurtir í landinu og alla ávexti trjánna sem haglið hafði skilið eftir. Ekkert grænt varð eftir neins staðar í Egyptalandi á trjám eða jurtum í haganum.
16 Faraó kallaði þá í skyndi Móse og Aron fyrir sig og sagði: „Ég hef syndgað gegn Drottni, Guði ykkar, og ykkur. 17 Fyrirgefið mér synd mína aðeins í þetta eina sinn, biðjið til Drottins, Guðs ykkar, svo að hann taki burtu frá mér þennan dauða.“ 18 Móse gekk út frá faraó og bað til Drottins. 19 Þá sneri Drottinn vindinum í mjög hvassan vestanvind sem bar engispretturnar burt og fleygði þeim í Sefhafið. [ Ekki nokkur engispretta varð eftir neins staðar í Egyptalandi. 20 Drottinn herti hjarta faraós og ekki leyfði hann Ísraelsmönnum að fara.

Níunda plágan: Myrkur

21 Drottinn sagði við Móse: „Lyftu hendi þinni til himins svo að þreifandi myrkur komi yfir Egyptaland.“ 22 Móse lyfti hendi sinni til himins. Þá varð svartamyrkur um allt Egyptaland í þrjá daga. 23 Menn gátu hvorki séð hver annan né hreyft sig úr stað í þrjá daga. En allir Ísraelsmenn höfðu birtu í híbýlum sínum.
24 Faraó kallaði þá Móse fyrir sig og sagði: „Farið og þjónið Drottni en þið verðið að skilja eftir sauðfé ykkar og stórgripi. Börn ykkar mega fara með ykkur.“ 25 Móse svaraði: „Þó að þú fengir okkur í hendur sláturfórnir og brennifórnir og við færðum þær Drottni, Guði okkar 26 yrði búfé okkar að fara með okkur. Ekki ein klauf má verða eftir því að við munum taka af eigin búfé, til að þjóna Drottni, Guði okkar. En sjálfir vitum við ekki með hvaða fórnardýri við eigum að þjóna Drottni fyrr en við komum þangað.“
27 Drottinn herti hjarta faraós og hann vildi ekki sleppa þeim. 28 En faraó sagði við Móse: „Farðu burt og varast að koma mér oftar fyrir augu því að á þeim degi, sem þú kemur aftur fyrir augu mín, skaltu deyja.“ 29 Móse svaraði: „Svo skal verða sem þú segir: Ég kem ekki oftar fyrir augu þín.“