1Drottinn talaði við Móse og sagði:2Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Nú syndgar einhver af vangá í einhverju því, sem Drottinn hefir bannað að gjöra, og gjörir eitthvað af því.3Ef smurði presturinn syndgar og bakar fólkinu sekt, þá skal hann fyrir synd sína, er hann hefir drýgt, færa Drottni ungneyti gallalaust til syndafórnar.4Skal hann leiða uxann að dyrum samfundatjaldsins fram fyrir Drottin og leggja hönd sína á höfuð uxans og slátra uxanum frammi fyrir Drottni.5Skal smurði presturinn taka nokkuð af blóði uxans og bera það inn í samfundatjaldið.6Skal presturinn drepa fingri sínum í blóðið og stökkva sjö sinnum nokkru af blóðinu frammi fyrir Drottni, fyrir framan fortjald helgidómsins.7Því næst skal presturinn ríða nokkru af blóðinu á horn ilmreykelsisaltarisins, er stendur í samfundatjaldinu frammi fyrir Drottni, en öllu hinu blóði uxans skal hella niður við brennifórnaraltarið, er stendur við dyr samfundatjaldsins.8Síðan skal hann taka allan mörinn úr syndafórnaruxanum, netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn,9„bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið; við nýrun skal hann taka það frá,“10eins og hann er tekinn úr heillafórnarnautinu, og skal presturinn brenna þetta á brennifórnaraltarinu.11En húð uxans og allt kjötið, ásamt höfðinu og fótunum, innýflunum og gorinu,12allan uxann skal hann færa út fyrir herbúðirnar á hreinan stað, þangað sem öskunni er hellt út, leggja hann á við og brenna í eldi. Þar sem öskunni er hellt út skal hann brenndur.13Ef allur Ísraels lýður misgjörir af vangá og það er söfnuðinum hulið og þeir gjöra eitthvað, sem Drottinn hefir bannað, og falla í sekt,14þá skal söfnuðurinn, þegar syndin, sem þeir hafa drýgt, er vitanleg orðin, færa ungneyti til syndafórnar og leiða það fram fyrir samfundatjaldið.15Og skulu öldungar safnaðarins leggja hendur sínar á höfuð uxans frammi fyrir Drottni og slátra uxanum frammi fyrir Drottni.16Og smurði presturinn skal bera nokkuð af blóði uxans inn í samfundatjaldið.17Og skal presturinn drepa fingri sínum í blóðið og stökkva því sjö sinnum frammi fyrir Drottni, fyrir framan fortjaldið.18Og nokkru af blóðinu skal hann ríða á horn altarisins, sem er frammi fyrir Drottni, inni í samfundatjaldinu, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við brennifórnaraltarið, sem er við dyr samfundatjaldsins.19Og hann skal taka allan mörinn úr honum og brenna á altarinu.20Þannig skal hann fara með uxann. Eins og hann fór með syndafórnaruxann, svo skal hann með hann fara. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir þá, og þeim mun fyrirgefið verða.21Skal hann síðan færa uxann út fyrir herbúðirnar og brenna hann, eins og hann brenndi hinn fyrri uxann. Er það syndafórn safnaðarins.22Þegar leiðtogi syndgar og gjörir af vangá eitthvað, sem Drottinn Guð hans hefir bannað, og verður fyrir það sekur,23og honum er gjörð vitanleg synd sú, er hann hefir drýgt, þá skal hann færa að fórnargjöf geithafur gallalausan.24Skal hann leggja hönd sína á höfuð hafursins og slátra honum þar sem brennifórnunum er slátrað, frammi fyrir Drottni. Það er syndafórn.25Skal presturinn þá taka nokkuð af blóði syndafórnarinnar með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en hinu blóðinu skal hann hella niður við brennifórnaraltarið.26En allan mörinn úr honum skal hann brenna á altarinu, eins og mörinn úr heillafórninni. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann vegna syndar hans, og honum mun fyrirgefið verða.27Ef einhver alþýðumaður syndgar af vangá með því að gjöra eitthvað það, sem Drottinn hefir bannað, og verður sekur,28og honum er gjörð vitanleg synd sú, sem hann hefir drýgt, þá skal hann færa að fórnargjöf geit gallalausa, fyrir synd þá, sem hann hefir drýgt.29Skal hann leggja hönd sína á höfuð syndafórnarinnar og slátra syndafórninni þar sem brennifórnum er slátrað.30Síðan skal presturinn taka nokkuð af blóðinu með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við altarið.31En allan mörinn skal hann taka frá, eins og mörinn úr heillafórninni var tekinn frá, og skal presturinn brenna hann á altarinu til þægilegs ilms fyrir Drottin. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann, og honum mun fyrirgefið verða.32Fram beri hann sauðkind að fórnargjöf til syndafórnar, þá skal það, er hann fram ber, vera ásauður gallalaus.33Skal hann leggja hönd sína á höfuð syndafórnarinnar og slátra henni til syndafórnar þar sem brennifórnum er slátrað.34Skal þá presturinn taka nokkuð af blóði syndafórnarinnar með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við altarið.35En allan mörinn skal hann taka frá, eins og sauðamörinn er tekinn úr heillafórninni, og skal presturinn brenna hann á altarinu ofan á eldfórnum Drottins. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann vegna syndar þeirrar, er hann hefir drýgt, og mun honum fyrirgefið verða.

4.1 Syndafórnir 3Mós 6.17-22; 16; 4Mós 15.22-29
4.3 Prestur smurður 3Mós 8.12; 16.32; Sír 45.15
4.6 Fortjald helgidómsins 2Mós 26.31-35; Matt 27.51
4.7 Reykelsisaltari 2Mós 30.1-10
4.12 Út fyrir herbúiðirnar Heb 13.11-13
4.20 Friðþægja 3Mós 8.34; 9.7; 16; 17.11; 2Kro 29.24; Esk 45.15,17