1Nú syndgar einhver, með því að hann hefir heyrt formælingu og getur vitni borið, hvort sem hann hefir séð það sjálfur eða orðið þess vísari, en segir eigi til, og bakar sér þannig sekt,2eða einhver snertir einhvern óhreinan hlut, hvort það er heldur hræ af óhreinu villidýri eða hræ af óhreinum fénaði eða hræ af óhreinu skriðkvikindi og hann veit ekki af því og verður þannig óhreinn og sekur,3eða hann snertir mann óhreinan, hverrar tegundar sem óhreinleikinn er, sem hann er óhreinn af, og hann veit eigi af því, en verður þess síðar vís og verður þannig sekur,4eða fleipri einhver þeim eiði af munni fram, að hann skuli gjöra eitthvað, illt eða gott, hvað sem það nú kann að vera, sem menn fleipra út úr sér með eiði, og hann veit eigi af því, en verður þess síðar vís og verður sekur fyrir eitthvað af þessu,5verði nokkur sekur fyrir eitthvað af þessu, þá skal hann játa synd sína.6Og hann skal til sektarbóta fyrir synd þá, sem hann hefir drýgt, færa Drottni ásauð úr hjörðinni, ásauð eða geit, í syndafórn. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann vegna syndar hans.7En ef hann á ekki fyrir kind, þá skal hann í sektarbætur fyrir misgjörð sína færa Drottni tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, aðra í syndafórn, en hina í brennifórn.8Hann skal færa þær prestinum, og hann skal fram bera þá fyrr, er til syndafórnar er ætluð. Skal hann klípa höfuðið af hálsinum, en slíta þó eigi frá,9stökkva nokkru af blóði syndafórnarinnar á hlið altarisins, en það, sem eftir er af blóðinu, skal kreist úr og látið drjúpa niður við altarið. Það er syndafórn.10En hina skal hann tilreiða í brennifórn að réttum sið. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann vegna syndar þeirrar, sem hann hefir drýgt, og mun honum fyrirgefið verða.11En ef hann á ekki fyrir tveimur turtildúfum eða tveimur ungum dúfum, þá skal hann fram bera að fórnargjöf fyrir misgjörð sína tíunda part úr efu af fínu mjöli í syndafórn. Skal hann eigi hella olíu á það né heldur láta á það reykelsiskvoðu, því að það er syndafórn.12Hann skal færa það prestinum, og presturinn skal taka af því hnefafylli sína sem ilmhluta fórnarinnar og brenna á altarinu ofan á eldfórnum Drottins. Það er syndafórn.13Og presturinn skal friðþægja fyrir hann fyrir synd þá, er hann hefir drýgt með einhverju þessu, og honum mun fyrirgefið verða. En hitt fái presturinn, eins og matfórnina.14Drottinn talaði við Móse og sagði:15Nú sýnir einhver þá sviksemi, að draga undan eitthvað af því, sem Drottni er helgað, þá skal hann í sektarbætur færa Drottni hrút gallalausan úr hjörðinni, sem að þínu mati sé eigi minna en tveggja sikla virði, eftir helgidóms sikli, til sektarfórnar.16Og það, sem hann hefir dregið undan af helgum hlutum, skal hann að fullu bæta og gjalda fimmtungi meira. Skal hann færa það prestinum, og presturinn skal friðþægja fyrir hann með sektarfórnarhrútnum, og mun honum fyrirgefið verða.17Nú syndgar einhver og gjörir eitthvað, sem Drottinn hefir bannað, og veit eigi af því og verður þannig sekur og misgjörð hvílir á honum,18þá skal hann færa prestinum hrút gallalausan úr hjörðinni, eftir mati þínu, til sektarfórnar. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann fyrir vangæslusynd þá, er hann hefir óafvitandi drýgt, og mun honum fyrirgefið verða.19Það er sektarfórn. Hann er sannlega sekur orðinn við Drottin.

5.1 Formæling Okv 29.24; Matt 26.63
5.2 Óhrein dýr 3Mós 11; 5Mós 14
5.3 Óhreinleiki 3Mós 12-15
5.4 Sverja sér í mein Slm 15.4
5.7 Um fórnir fátækra 3Mós 12.8; 14.21; 27.8
5.15 Bregðast Drottni 4Mós 5.6; 2Kro 26.16-18 – helgigjafir Drottins 3Mós 22.1-16; 5Mós 14.22-29; 26.1-15; sbr Jós 7 – sektarfórn 3Mós 7.1-7; 19.20-22
5.16 Bæta sekt 4Mós 5.7-10; 2Kon 12.17
5.21 Ólipurð 2Mós 22.6-14
5.23 Skila aftur Slm 69.5