1Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni.2Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, sem Jesús elskaði, og segir við þá: Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann.3Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn, og þeir komu til grafarinnar.4Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni.5Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn.6Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar7og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað.8Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn, sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði.9Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum.10Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín.11En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina12og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta.13Þeir segja við hana: Kona, hví grætur þú? Hún svaraði: Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann.14Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki, að það var Jesús.15Jesús segir við hana: Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú? Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann.16Jesús segir við hana: María! Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: Rabbúní! Rabbúní þýðir meistari.17Jesús segir við hana: Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar.18María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: Ég hef séð Drottin. Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni.19Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: Friður sé með yður!20Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin.21Þá sagði Jesús aftur við þá: Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.22Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: Meðtakið heilagan anda.23Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað.24En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom.25Hinir lærisveinarnir sögðu honum: Vér höfum séð Drottin. En hann svaraði: Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.26Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: Friður sé með yður!27Síðan segir hann við Tómas: Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.28Tómas svaraði: Drottinn minn og Guð minn!29Jesús segir við hann: Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó.30Jesús gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók.31En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.

20.1 Fyrsta dag vikunnar Jóh 20.19; Post 20.7 – María Magdalena Matt 27.56+
20.2 Lærisveinninn, sem Jesús elskaði Jóh 13.23+ – hafa tekið Drottin Jóh 20.13
20.6-7 Línblæjurnar og sveitadúkurinn Jóh 11.44
20.9 Jesús átti að rísa upp … Slm 16.10; sbr Lúk 24.26-27,44-46; Post 2.27,31; 1Kor 15.4
20.12 Tveir englar Matt 28.2-5; Lúk 24.23; sbr Mrk 16.5
20.13 Tekið brott Jóh 20.2
20.14 Þekkti ekki Jesú Lúk 24.16; Jóh 21.4
20.17 Snertu mig ekki sbr Jóh 14.28; 16.5-7 – bræður mínir Matt 28.10; Róm 8.29; sbr Heb 2.11-12
20.19 Fyrsti dagur vikunnar Jóh 20.1+ – af ótta við Gyðinga Jóh 7.13+ – dyrum læst Jóh 20.26 – Jesús kom Jóh 14.3,18-19; 16.16; sbr Matt 18.20; 28.20; Opb 1.7
20.20 Hendur hans og síða Jóh 19.34; 20.25,27; sbr Lúk 24.39 – urðu glaðir Matt 28.8; Lúk 24.41,52; Jóh 15.11; 16.20,22; 17.13
20.21 Sendir Matt 28.19; Mrk 16.15; Lúk 24.47; Post 1.8 – eins og Jesús Jóh 17.18
20.22 Andaði á þá 1Mós 2.7; Esk 37.9
20.23 Fyrirgefa, synja Matt 16.19+
20.24 Tómas tvíburi Jóh 11.16+
20.25 Hendur hans og síða Jóh 19.34; 20.20
20.26 Læstar dyr Jóh 20.19
20.29 Hafa ekki séð 1Pét 1.8; sbr Jóh 17.20
20.30 Mörg önnur tákn Jóh 21.25
20.31 Trú og eilíft líf Jóh 3.15-16; 1Jóh 5.13